Skip to main content
7. nóvember 2022

Rannsóknir Erlings á heilsu og heilsuhegðun á Hringbraut

Rannsóknir Erlings á heilsu og heilsuhegðun á Hringbraut - á vefsíðu Háskóla Íslands

Rannsóknir Erlings Jóhannssonar, prófessors í íþrótta- og heilsufræði við HÍ, og samstarfsfólks hans á heilsu og líðan fólks á öllum aldri voru til umfjöllunar í öðrum þætti í þáttaröðinni „Vísindin og við“ á Hringbraut í liðinni viku. Í þáttaröðinni er fjallað um rannsóknir við Háskóla Íslands. 

Erlingur og samstarfsfólk hans hafa í rannsóknum sínum lagt áherslu á lýðheilsu, velferð og lifnaðarhætti fólks og eru margar þeirra langtímarannsóknir þar sem markmiðið er m.a. að nýta íhlutun til að bæta heilsu og líðan þátttakenda með aukinni hreyfingu og bættu mataræði. Rannsóknirnar hafa bæði beinst að börnum og ungmennum og eldra fólki en einnig sérstökum hópum í atvinnulífi, eins og sjómönnum. 

Erlingur og samstarfsfólk hans hefur m.a. fylgt eftir stórum hópi barna allt frá því snemma í grunnskóla og fram á framhaldsskólaár í rannsóknunum „Atgervi ungra Íslendinga“ og „Heilsuhegðun ungra Íslendinga“. Markmiðið hefur verið að skoða stöðu og langtímabreytingar á heilsufari, hreyfingu, þreki, svefni, andlegri líðan, námsárangri og lifnaðarháttum ungra Íslendinga. 

Stór hópur doktorsnema hefur notið leiðsagnar Erlings í þessum rannsóknum en þær sýna m.a. að aðeins fimmta hvert ungmenni uppfyllir ráðleggingar um æskilega hreyfingu á dag, að andlegri líðan hrakar frá 17 til 23 ára aldurs og á það sérstaklega við hjá karlmönnum og að eingöngu 20% 15 ára og 17 ára ungmenna uppfylla ráðleggingar um æskilegan svefn á hverjum sólahring. Í þættinum á Hringbraut ræðir Rúna Sif Stefánsdóttir, nýútskrifaður doktor og lektor við HÍ, sérstaklega þennan síðasta þátt en rannsóknir sýna æ betur hversu miklu máli svefn skiptir fyrir okkur. 

Hægt er að horfa á þáttinn á Hringbraut hér

Nánar um þáttaröðina

Vísindin og við er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Hringbrautar en það hófst fyrr á þessu ári með frumsýningu fimm þátta um vísindamenn skólans. Umsjón með þáttunum hafa þau Þóra Katrín Kristinsdóttir, efnafræðingur og fjölmiðlakona, og Sigmundur Ernir Rúnarson, sjónvarpsmaður, rithöfundur og ritstjóri Fréttblaðsins og Hringbrautar. Þau taka hús á vísindafólki á öllum fræðasviðum skólans og úti á rannsóknasetrum hans. Þar forvitnast þau um rannsóknir vísindafólksins ásamt því að bregða ljósi á manneskjuna á bak við vísindamanninn. Einnig er rætt við nemendur og samstarfsfólk þess vísindafólks sem er í brennidepli í hverjum þætti.
 

Erlingur Jóhannsson