Skip to main content

Safnafræði

Safnafræði

Félagsvísindasvið

Safnafræði

MA gráða – 120 einingar

Framhaldsnám í safnafræði miðar að því að auka skilning nemenda á flestum þáttum hefðbundins safnastarfs og samþáttun fræðilegra vinnubragða, rannsókna og kenninga.

Áhersla er lögð á að gefa nemendum kost á að kynnast ítarlega safnastarfi og jafnframt að fylgjast með því sem hæst ber erlendis. Heimsóknir á söfn og menningarstofnanir eru mikilvægur þáttur í náminu.

Skipulag náms

X

Menningararfur (ÞJÓ506M)

Hvað er menningararfur og hvaða hlutverki þjónar hann? Af hverju er hann í stöðugri útrýmingarhættu? Hvernig tengir hann saman fortíð og samtíð? Hvað á hann skylt við þjóðríkið? Söguvitund? Hnattvæðingu? Kapítalisma? Stjórnmál? Í námskeiðinu verður leitað svara við þessum spurningum, kynntar nýlegar rannsóknir þjóðfræðinga, mannfræðinga, listfræðinga, félagsfræðinga, safnafræðinga, sagnfræðinga og fornleifafræðinga á menningararfi og tekinn púlsinn á því sem er að gerast á þessu ört vaxandi sviði. 

Kennslan fer fram í fyrirlestrum og umræðum.

X

Praktík og kenningar í safnafræði (SAF002F)

Í námskeiðinu verður tekist á við spurningar sem tengjast víxlverkun á milli praktíkur (e. practice) og kenninga í safnastarfi. Fjölmörg dæmi úr praktísku safnastarfi listasafna, náttúruminjasafna og menningarminjasafna verða skoðuð í þessu samhengi og hentar námskeiðið því nemendum úr fleiri greinum en safnafræði, s.s. eins og fornleifafræði, listfræði, menningarfræði, fötlunarfræði, mannfræði, þjóðfræði, félagsfræði og fleiri greinum.  Saga greinarinnar verður skoðuð með gagnrýnu hugarfari og hugað verður að straumum og stefnum í faginu við upphaf 21. aldar. Sérstaklega er litið til safna sem almannastofnanir, en sem slíkar hafa þær mörgum og vaxandi hlutverkum að gegna fyrir samfélög, lífsgæði fólks og hópa, menntun, rannsóknir og þverþjóðleg samskipti svo eitthvað sé nefnt. Hugað verður að því hvernig bæði praktík og kenningar hafa mótað safnastofnanir og starfsemi þeirra. Fjallað verður m.a. um praktík og kenningar um söfnun, varðveislu, flokkun og skráningar, sýningagerð, ritskoðun, frumbyggja, áhrif stafrænnar menningar, trúarbrögð, innflytjendur, fólksflutninga, minni, gleymsku og sanngildi.  Námskeiðið er eingöngu kennt í fjarnámi og byggir námsmat á verkefnum sem unnin eru yfir önnina

X

Faglegt starf: Tilvik og álitamál (SAF011F)

Í námskeiðinu verða tilvik tengd safnastarfi á Íslandi rædd út frá faglegum álitamálum, með tilvísun í þverfræðilegt lesefni og umræður. Námskeiðið hentar því nemendum úr greinum eins og safnafræði,  fornleifafræði, listfræði, menningarfræði, mannfræði, þjóðfræði og fleiri. Tilvikin tengjast fjölbreyttu starfi safna, svo sem stjórnun, skipulagi, söfnun, varðveislu, rannsóknum og miðlun. 

 

Einnig verður í námskeiðinu fjallað um mat á starfsemi safna, bæði út frá safngestinum og einnig sjálfsmat (aðferðir og úrvinnsla), sem og stjórnunarlegum þáttum í safnastarfi. Umræðuefni álitamála eru mjög fjölbreytileg, svo sem STJÓRNSÝSLA, kynjamál, aðgengismál, varðveisla fornleifa, rannsóknir á sjónrænum menningararfi, tjáningarfrelsi, húsnæðismál, gjafir til safna og grisjun.

 

Námskeiðið er unnið í samvinnu við helstu safnastofnanir í landinu sem hafa yfir að ráða fjölda sérfræðinga um aðskiljanlegustu þætti í safnastarfi. Í staðlotum námskeiðsins munu sérfræðingar miðla af reynslu sinni með raunverulegum dæmum úr störfum sínum á söfnum innanlands og erlendis.

 

Nemendur velja einn dag yfir önnina til þess að mæta í starfsdag hjá safni á höfuðborgarsvæðinu (tveir og tveir nemendur í einu). Starfsmaður mun taka á móti þeim, fræða um starfsemi safnsins og veita þeim grunnþjálfun í skráningu. Nemendur vinna svo með starfsmanni það sem eftir er af degi.

 

Námskeiðið skiptist í fimm fyrirlestralotur; í hverri þeirra verða aðgengilegar upptökur á Canvas örfyrirlestrar og stuttar kynningar á lesefni frá kennara og gestafyrirlesara. Þrjár staðlotur/Zoomlotur (eftir aðstæðum) verða yfir misserið, þar sem hlustað er á gestafyrirlesara, sérfræðingar innan safna sem miðla af reynslu sinni, og/eða sem farið verður í vettvangsferðir á söfn í Reykjavík. Skyldumæting er í stað- og zoomlotur. Námsmat byggist á verkefnavinnu yfir misserið, mætingu í stað/zoomlotur og starfsdegi.

X

Safn og samfélag: Sirkus dauðans? (SAF603M)

Fjallað verður um samfélagslegt hlutverk safna út frá margvíslegum sjónarhornum: efnahagslegum, pólitískum, menningarlegum, félagslegum og síðast en ekki síst alþjóðlegum. Fjallað verður meðal annars um hlutverk safna í hugmyndinni um þjóð, lagalegt umhverfi safna, rekstrarform, staða og hlutverk þjóðarsafna, safna í eigu sveitarfélaga, félagasamtaka og einkafyrirtækja, fjármögnun safnastarfs, stefna yfirvalda í málefnum safna, söfn og mannréttindi, söfn og áföll (trauma), kynjahugmyndir og fleira. Í námskeiðinu er einnig hugað að möguleikum safna á að virkja fólk og samfélög til þátttöku í starfsemi þeirra eins og söfnun, heimildaöflun, sýningarstjórnun, sýningargerð og annarri miðlun. Skoðuð verða innlend og erlend dæmi. Eftir því sem því verður komið við, eru farnar ein til tvær vettvangsferðir. Námskeiðið er eingöngu kennt í fjarnámi.

X

Einstaklingsverkefni á safni: Starfsnám (SAF101F)

Starfsnám veitir einstakt tækifæri til að kynna sér fjölbreytta starfsemi safna. Markmið starfsþjálfunar á söfnum er að veita nemendum innsýn í og reynslu af verkefnum safna og flétta þannig saman hagnýta og fræðilega hluta námsins. Við lok starfstímans er gert ráð fyrir að nemandinn þekki vel starfsemi safnsins og geti þar að auki nýtt sér fræðilega þekkingu við lausn á viðfangsefnum. Starfsnámstímabilið er að jafnaði 9 vikur. Starfsnámið er hægt að taka innanlands sem og utan. Sé ætlunin að taka það erlendis, er hægt að sækja um styrk í Erasmus + áætlunina.  

X

List og samfélag í samtíma (LIS701F)

List hefur í sögulegu tilliti verið sá þáttur samfélagsins þar sem nýjungar og framsýni hefur verið í mestum metum. Þetta frumkvæði listar hefur þó ætíð byggt á sögulegum forsendum — þess sem á undan kemur. Í þessu samhengi eru listamenn samtímans stöðugt að endurnýja fyrri forsendur sínar. Á sama tíma eru listheimar samtímans í eðli sínu margbrotnir — þar á sér stað sífellt meiri skörun ólíkra miðla og áhrifa, þar sem listamenn vinna á grundvelli fræðilegra forsendna, félagslegra forsendna og með tilliti til stjórnmála og efnahagsmála. Menningarlegar aðstæður breytast einnig ört í samtíðinni, fyrir tilstilli tækniþróunar, byggðaþéttingar, heimsvæðingar og náttúruvár, auk óvissu á sviði stjórnmála. Þetta leiðir til þess að eðli listastarfsins tekur sífellt meiri breytingum. Vegna þessa er mikilvægt að leggja stöðugt nýjan grunn að túlkun listarinnar og virkni hennar í samfélaginu, þar sem nýjar hugmyndir og skilgreiningar, á við ‚mannöld‘ og ‚síð-mennsku‘, gagnast til aukins skilnings á stöðu listar í samfélagi manna. Í námskeiðinu eru listfræðilegar forsendur samtíðarinnar teknar til endurskoðunar og listvettvangurinn — sagan og samtíðin — kannaður með hliðsjón af samspili listar við ólíkar greinar: sagnfræði, heimspeki, bókmenntir, fjölmiðla- og kvikmyndafræði, mannfræði, stjórnmálafræði, landafræði, félagsfræði.

X

Þrettán hlutir (FOR701M)

Conventional sociological or historical accounts tend to portray human life as if objects either are irrelevant or at best, passive and inert. This course follows the ‘material turn’ that has occurred in the social sciences and the humanities in the past 20 years and explores the importance of things for understanding human society and history. Drawing on examples from a wide range of disciplines from design history to archaeology, each week a different object is taken for study, illustrating the various disciplinary and theoretical approaches that have been taken to material culture in recent years. The course will be organized around weekly lectures, reading and discussion.  The course will be taught in english.

X

Saga heimildamynda og grundvallaratriði í klippi (HMM802F)

Á námskeiðinu verður farið yfir sögu og þróun heimildamynda frá upphafi. Kynnt verða lykilverk og höfundar þeirra, ásamt helstu stefnum og straumum eins og Grierson stefnan, Kino-eye, Direct cinema og fleira. Auk þessa verður skoðað hvernig tæknileg þróun hefur áhrif á gerð heimildamynda.

Kennsla er byggð á fyrirlestrum kennara, umræðum í tímum og sýningum á tilteknum lykilmyndum í sögu heimildamynda. Nemendur skila greinagerð um þær myndir sem sýndar eru á námskeiðinu.

Kennd verða grunnatriði í klippiforritinu Adobe Premiere Pro, eins og að hlaða inn efni, klippa það til, einfalda hljóðvinnslu, innsetningu texta og minniháttar litaleiðréttingu. Í framhaldinu eru unnin tvö klippiverkefni. Annað er myndband sem nemendur taka á síma og klippa í Premiere Pro, en hitt vídeódagbók um eina af þeim myndum sem fjallað er um á námskeiðinu.

 

Verkefni:

  • Stutt myndband, 1-3 mínútur.
  • Vídeódagbók um eina heimildamynd sem fjallað er um á námskeiðinu.
  • Skrifleg dagbók 1 (500 – 700 orð). Hugleiðing um eina heimildamynd sem fjallað er um á námskeiðinu.
  • Skrifleg dagbók 2 (500 – 700 orð). ). Hugleiðing um eina heimildamynd sem fjallað er um á námskeiðinu.

 

Ætlast er til að nemendur taki virkan þátt í námskeiðinu og verklegum verkefnum.

Námskeiðið er samkennt með síðari hluta námskeiðsins HMM122F Miðlunarleiðir I. Þeir nemendur sem skráðir eru í það námskeið taka ekki þetta námskeið.

X

Miðlunarleiðir I, heimildamyndir, textagerð, myndanotkun (HMM122F)

Í námskeiðunum Miðlunarleiðir I og Miðlunarleiðir II eru kynnt grunnatriði aðferða við miðlun menningarefnis í hug- og félagsvísindum. Miðlunarleiðir I eru á haustönn en Miðlunarleiðir II eru á vorönn. 

Í Miðlunarleiðum I verður unnið með:

  1. Texta og myndir í fyrri hluta annarinnar. Nemendur munu fá þjálfun við greinaskrif og orðræðugreiningu annars vegar og myndanotkun og myndgreiningu hins vegar.
  2. Stuttmyndagerð í síðari hluta annarinnar. Þar vinna nemendur að gerð  stuttmynda. Í því felst grunnþjálfun í handritagerð, tökum og klippi og nemendur vinna í hópum að stuttmynd í samræmi við tiltekið þema. Hvor efnisþáttur um sig vegur 50% í námskeiðinu.

Engin próf eru í námskeiðinu. Þess í stað vinna nemendur verkefni, einstaklings- og hópverkefni. Þau eru eftirfarandi:

  1. Greiningar á textum og myndum
  2. Grein með mynd um tiltekið þema til opinberrar birtingar, um 800 orð.
  3. Hópverkefni þar sem nemendur vinna að stuttmynd sem er sýnd við lok námskeiðsins. Áhersla er lögð á hópavinnu og hagnýt verkefni.

Námskeiðið er ekki kennt í fjarnámi.

X

Varðveisla safngripa og fyrirbyggjandi forvarsla (SAF206F)

Ein ástæða fyrir tilvist safna er sú að safngripir hafa varðveist í gegnum aldirnar. Kröfur nútímans um að menningararfur sé ávallt aðgengilegur og sýnilegur eru sífellt að aukast. Því fylgir aukið álag á gripi (meðhöndlun og umhverfisbreytingar) og aukin hætta á því að þeir verði fyrir skemmdum. Á námskeiðinu verður farið yfir varðveisluaðferðir sem söfn nota til að tryggja framtíðarvarðveislu safngripa. Nemendur læra að skoða safngripi út frá þeim efnum sem þeir eru gerðir úr, meta ástand þeirra, mæla ljós, raka-og hitastig og finna hvaða umhverfisskilyrði henta gripum til varðveislu og sýninga. Námskeiðið er unnið í samstarfi við söfn á Reykjavíkursvæðinu.

Námskeiðið er kennt í staðnámi 2.-6. september (kl. 9.00-16.00).

. Námsmat byggir á mætingu (skylda), þátttöku og úrlausn verkefna.

X

Nútíma listskemmtanir frá 1790 til samtíma (LIS511M)

Nútíma listskemmtanir hófust í evrópskum stórborgum á 18. öld. Þær byggja á mörgum listformum svo sem landslagsmálverki, sviðsverkum, borgarlýsingu, karnivali og náttúruvísindasýningum. Tilgangur þeirra er oftast að umbreyta goðsagnakenndri fortíð í lifandi myndir samkvæmt væntingum nútímaáhorfenda. Í námskeiðinu, sem kennt verður með málstofusniði, verða hin ýmsu tækniform skemmtana könnuð. Þar á meðal töfraluktin, „panorama“ og „cosmorama“. Einnig verða vinsældir náttúruvísindalegra og mannfræðilegra „dioramas“ kannaðar með dæmum frá nýlendusýningunni í París 1931 og sýningum í American Museum of Natural History. Innsetningarlist 20. aldarinnar verður greind frá verkinu Étant donnés eftir Marcel Duchamp til samtímaverka Bryndísar Snæbjörnsdóttur og Mark Wilson, Richard Barnes, Kent Monkman, Dominique Gonzalez-Foerster, og fl.. Verkin verða skoðuð frá sjónarhorni lista og listfræða og gagnrýni listafólksins sett í samhengi við þrjú meginþemu: nýlendustefnu, gyðingahatur og kynþáttahatur ásamt evrópskum hugmyndum um sjálfsmyndir, annarleika og sögu. Tímalínan hefst í París, en síðan verða rædd ýmis dæmi frá öðrum evrópskum borgum auk Norður-Ameríku. Að lokum verður rannsakað hvernig listamenn, söfn og einkafyrirtæki nýta nú sýndarveruleika og gervigreind til að skapa alhliða upplifun fyrir pótmóderníska áhorfendur eins og birtist í hinni vinsælu sýningu Immersive Van Gogh.

Dore Bowen er gestakennari frá Duke University. Námskeiðið verður kennt aðeins einu sinni.

X

Söfn sem námsvettvangur (SAF016F)

Einn megintilgangur safna á Íslandi er að skila menningar- og náttúruarfi landsins til komandi kynslóða og stuðla að aukinni þekkingu á þessari arfleifð og skilningi á tengslum hennar við umheiminn. Ætlast er til þess (samkvæmt safnalögum) að söfn reyni að „auka lífsgæði manna“ með því að efla skilning á þróun og stöðu menningar, lista náttúru eða vísinda. Söfn og safnfræðsla geta því haft áhrif á samfélag, hópa og einstaklinga. Safnafræði getur komið hér að liði og er megin viðfangsefni námskeiðsins. Kynntar verða fræðilegar kenningar sem hafa að markmiði að stuðla að fjölbreyttri og áhrifamikilli fræðslu tengdri fornleifum, list, náttúruvísindum, menningarlegri arfleifð og öðrum viðfangsefnum safna. Hugað verður að fjölbreyttum markhópum safnfræðslu, hlutverki safngesta innan safna, rými, textagerð, margmiðlun, gagnvirkni og fleira.

Þetta er fjarkennslunámskeið sem skiptist í þrjár lotur. Í hverri lotu eru ör-fyrirlestrar frá kennara með hugleiðingum um námsefnið, gesta-fyrirlestrar (stafrænir) og aukaefni. Þrjár stað og/eða ZOOMlotur eru yfir önnina, þar sem nemendur fá fyrirlestra frá starfsmönnum safna og vinna að fræðsluverkefni í samstarfi við safn í Reykjavík. Verkefnið verður þróað út frá fræðilegum áhuga nemenda undir handleiðslu kennara og með aðstoð starfsmanna safnsins.

X

Miðlun í hljóðvarpi og hlaðvarpi (HMM235F)

Námskeiðið er haldið í samstarfi við RÚV - Rás 1. Fjallað er um framsetningu efnis í útvarpi og hlaðvarpi. Könnuð eru ólík dæmi um dagskrárgerð. Hugað er að miðlunarmöguleikum hljóðefnis í fjölmiðlaumhverfi samtímans og gerð grein fyrir eðli ólíkra miðlunarleiða. Fjallað verður um hugmyndavinnu, viðtalstækni, upptökutækni, uppbyggingu og samsetningu hljóðvarps/hlaðvarpsefnis með áherslu á  sjálfbærni og sjálfstæð vinnubrögð. Nemendur vinna verkefni tengd útvarpsþáttagerð. 

X

Leikjavæðing og menningarmiðlun (HMM110M)

Leikjavæðing (e. gamification) er hugtak sem hefur rutt sér til rúms á síðustu árum, m.a. við framsetningu og miðlun á upplýsingum og fræðsluefni. Skólar, söfn og fyrirtæki nýta í auknum mæli leikjavæðingu til að nálgast viðfangsefni sín og nýta sér aðferðafræði og tækni úr heimi tölvuleikja. Á þessu námskeiði verður skoðað hvernig nýjar aðferðir, ný tækni og snjalltæki geta nýst þeim sem vinna að hagnýtri menningarmiðlun. Kynnt verða verkefni á þessu sviði, farið í vettvangsferðir og unnið að einföldum verkefnum. Námskeiðið verður að mestu kennt á netinu. Námskeiðið er unnið í samvinnu við Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri.

X

Menningartengd ferðaþjónusta (FER110F)

Í námskeiðinu verður hugað að þýðingu og skilgreiningu hugtaksins menningar í menningartengdri ferðaþjónustu með sérstöku tilliti til framsetningar og miðlunar ímynda og menningar á mismunandi vettvangi. Velt verður upp pólitískum og siðferðilegum spurningum hvað varðar söfnun, framsetningu og miðlun menningar í mismunandi samhengi og á mismunandi vettvangi, erlendis og hérlendis. Einnig verða skoðuð tengsl ferðaþjónustu við skapandi greinar. Spurningum varðandi eignarhald á menningararfleifð verða íhugaðar svo og í höndum hvers það að skapa menningararfleifð er.

X

Eigindlegar rannsóknaraðferðir I (FMÞ103F)

Markmið námskeiðsins er að nemendur kynnist fjölbreytileika og fræðilegum forsendum eigindlegrar rannsóknahefðar í félagsvísindum og öðlist reynslu í að beita eigindlegum aðferðum. Um hagnýtt námskeið er að ræða þar sem hver nemandi vinnur sjálfstætt rannsóknarverkefni sem felst í því að hanna og undirbúa rannsókn, afla gagna, greina þau og skrifa um helstu niðurstöður undir handleiðslu kennara. Í námskeiðinu verður farið ítarlega í undirbúning rannsókna, gerð rannsóknaráætlunar, gagnaöflun, greiningu og skrif.

X

Lesnámskeið í MA- námi (SAF006F)

Markmið lesnámskeiða er að nemendur hafi möguleika á að afla sérhæfðari þekkingar á ýmsum sviðum safnafræði. Kennari og nemendur ákveða lesefnið í sameiningu og nemendur gera skriflega grein fyrir þekkingu sinni í lok námskeiðsins.

X

Inngangur að rekstri (VIÐ155M)

Markmiðið með námskeiðinu er að gefa nemendum breiða og haldgóða innsýn í þau fyrirbæri, lögmál og kenningar sem viðskiptafræðingum nauðsynlegt er að þekkja við rekstur bæði fyrirtækja og stofnana.

Námskeiðið byggist upp af fimm efnisþáttum:
• fjármál
• lögfræði
• rekstrarhagfræði
• reikningshald
• þjóðhagfræði

Fyrirkomulag:
Námskeiðið Inngangur að rekstri er í boði tvisvar á ári og eiga nemendur að ljúka því á fyrsta ári náms síns. Annars vegar í ágúst og hins vegar í janúar. Nemendur sem hefja nám að hausti gera best í því að ljúka námskeiðinu í ágúst, en hafa þó möguleika á að ljúka því í janúar. Nemendur sem hefja nám í janúar skulu ljúka námskeiðinu í janúar en geta þó einnig tekið það í ágúst.
Námskeiðið opnar 1. hvors mánaðar og lokar þann 31. Allt námsefni verður aðgengilegt frá þeim 1. 

Námskeiðið nýtist ekki til eininga í meistaranáminu.

X

Einstaklingsverkefni á safni: Starfsnám (SAF201F)

Starfsnám veitir einstakt tækifæri til að kynna sér fjölbreytta starfsemi safna. Markmið starfsþjálfunar á söfnum er að veita nemendum innsýn í og reynslu af verkefnum safna og flétta þannig saman hagnýta og fræðilega hluta námsins. Við lok starfstímans er gert ráð fyrir að nemandinn þekki vel starfsemi safnsins og geti þar að auki nýtt sér fræðilega þekkingu við lausn á viðfangsefnum. Starfsnámstímabilið er að jafnaði 9 vikur. Starfsnámið er hægt að taka innanlands sem og utan. Sé ætlunin að taka það erlendis, er hægt að sækja um styrk í Erasmus + áætlunina.

X

Listasafnið: hugmyndafræði, saga og framtíð (LIS610M)

Í þessu námskeiði er sjónum beint að listasafninu í sögulegu og samtímalegu ljósi. Námskeiðið veitir innsýn í sögu listasafna og þróun, sem og flókið hugmyndafræðilegt samhengi listasögunnar, listfræði og listasafna. Fjallað verður um rætur nútímalistasafna í einkasöfnum aðalsmanna og pólitískrar elítu Evrópu, stofnun fyrstu almenningssafnanna í Evrópu á 18. og 19. öld, gagnrýni listamanna á listasöfn á 20. og 21. öld, tengsl listasafna og nýlenduhyggju og vaxandi kröfur síðustu ára um endurheimtur listaverka og menningararfs til upprunasamfélaga. Hugmyndafræðilegur grundvöllur listasafna og tengsl hans við fagurfræðilegar kenningar verður tekinn til skoðunar. Jafnframt verða tengsl listfræðinnar við listasöfn rædd. Nemendur kynnast ólíkum ímyndum listasafna, m.a. hugmyndinni um listasafnið sem musteri, alheimsyfirlitssafnið (e. universal survey museum), hinn hvíta kassa (e. white cube) nútímalistasafna og nýjum hugmyndum um listasöfn sem vettvang gagnrýnna skoðanaskipta. Fjallað verður um það hvernig þjóðernishyggja hefur mótað stöðu og starf listasafna og áhrif hnattvæðingar á þróun listasafna á alþjóðavísu. Saga listasafna á Íslandi verður kynnt og fjallað um sögu listamannarekinna rýma hér á landi, Nýló, Gallerí SÚM, Gallerí Suðurgötu 7, Kling & Bang og fl..

X

Persónuvernd og upplýsingaöryggi (UPP220F)

Á námskeiðinu er fjallað um nýlegar áskoranir upplýsingafræðinga á sviði persónuverndar. Gerð verður grein fyrir mikilvægum breytingum á löggjöf um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga ásamt reglugerð (e. General Data Protection Regulations – GDPR) sem tóku gildi í maí 2018. Farið verður í þær breytingar sem lögin hafa haft í för með sér fyrir fyrirtæki og stofnanir á Íslandi. Mikilvæg hugtök og verkefni sem fylgja nýju lögum verða rædd, s.s. ólík hlutverk ábyrgðaraðila og vinnsluaðila, meðalhóf, réttinn til að gleymast, upplýst samþykki, persónugreinanleg gögn, áhættumat og gerð samninga við vinnsluaðila. Þá verður fjallað sérstaklega um hlutverk persónuverndarfulltrúa hjá fyrirtækjum og stofnunum.  Fjallað verður um upplýsingaöryggi m.t.t. nýrra persónuverndarlaga, notkun samfélagsmiðla og skýjaþjónusta og upplýsingaöryggisstefnu. Nemendur þurfa að þekkja og skilja lög, reglur og kenningar sem tengjast persónuvernd, upplýsingaöryggi og rafrænum vörsluútgáfum. Nemendur þurfa að hafa þekkingu á gerð vinnsluskráa um persónugreinanleg gögn og gerð áhættumats um meðferð persónuupplýsinga auk verklýsinga og vinnuleiðbeininga. Unnin verða hagnýt verkefni í nánu samstarfi við ýmis fyrirtæki og stofnanir.

X

Miðlunarleiðir II: Munnleg framsetning, sýningar, stafræn miðlun (HMM242F)

Í Miðlunarleiðum II á vorönn er unnið með eftirfarandi miðlunarleiðir: a) munnleg framsetning og b) sýningar á menningarsögulegu efni. Stafræn miðlun verður fléttuð inn í báða þætti. 

Nemendur fara yfir grunnatriði í munnlegri framsetningu og æfa sig í minni og stærri hópum. Einnig verður farið yfir grunnatriði varðandi skipulagingu á ráðstefnum og málþingum og stjórnun þeirra. Stafræn miðlun verður fléttuð inn í kynningarhluta þessa viðfangsefnis. Við lok þess þáttar er haldin ráðstefna þar sem allir nemendur kynna verkefni sín. Að honum loknum tekur við þáttur um sýningar með tengingu við stafræna miðlun. Fjallað verður um grunnatriði sýninga og ólíkar leiðir við framsetningu mynda og texta og hvaða reglur gilda um framsetningu texta á netinu. Nemendur vinna við hagnýt verkefni í þessu samhengi.  Samhliða verður farið yfir grunnatriði í stafrænni miðlun, hverjar eru helstu miðlunarleiðir, kostir og gallar. 

Engin próf eru í námskeiðinu. Þess í stað vinna nemendur verkefni, einstaklings- og hópverkefni. Þau eru eftirfarandi:

  1. fyrirlestur á ráðstefnu og önnur verkefni í því samhengi
  2. Sýningagreining og hagnýtt verkefni í tengslum við sýningar á vegum Borgarsögusafns
  3. Stafræn miðlun verður fléttuð inn í báða þætti. Áhersla er lögð á sameiginleg þemu og hópavinnu í námskeiðinu.

Námskeiðið er ekki kennt í fjarnámi.

X

Sjónrænar rannsóknaraðferðir (FMÞ001M)

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist aðferðarfræðilega þekkingu, skilning og verklega færni til að greina myndir og önnur sjónræn rannsóknargögn (ljósmyndir, kvikmyndir, teikningar, auglýsingar, netmiðla, o.s.frv.). Farið verður í ýmsar aðferðir við greiningu á sjónrænu efni og hugað verður að sjónrænum gagnasöfnum og vinnu með þau. Nemendur fá þjálfun í því að kynna sér og leggja sjálfstætt mat á fyrirliggjandi rannsóknir. Námskeiðið byggist upp á hagnýtum verkefnum, þar sem nemendur undirbúa og hanna rannsóknaáætlanir, afla gagna og spreyta sig á greiningu þeirra. Námskeiðið er þverfaglegt og hentar nemendum á hug- og félagsvísindasviði, sem og öðrum sviðum.

X

Menningarminjar, söfn og sýningar (HMM201F)

Námskeiðið er haldið í samstarfi við Borgarsögusafn Reykjavíkur

Rætt er um ólíkar leiðir til að setja fram efni á sýningum. Skoðaðar eru ýmsar tegundir sýninga, rætt um ólíka hugmyndafræði á bak við þær og mismunandi vettvang þeirra. Jafnframt er hugað að helstu þáttum í starfsemi safna, leiðir þeirra til að miðla efni og aðferðafræðina sem byggt er á.

Kennsla fer fram í fyrirlestrum, hópvinnu og umræðum.

X

Flækjur? Vistfræði arfleifða og safna (SAF018M)

Námskeiðið Flækjur? Vistfræði arfleifða og safna leiðir nemendur í þverfaglegan fræðaheim þar sem samtvinnun menningar og náttúru og vistfræði arfleifða og safna eru tekin til sérstakrar athugunar. Hugmyndir um jafnan gerendamátt og tengsl mannlegra og ómannlegra þátta verða lögð til grundvallar með því að kynna fyrir nemendum kenningar pósthúmanisma (posthumanism) og nýefnishyggju (new materialism) með tilvísun í vistfræði arfleifða og hlutverk safna í samtímanum. Sérstaklega verður dregið fram hvernig hægt er að líta á arfleifð sem meira en mannlega smíð og fyrirbæri sem hvetur til hugrenningatengsla og hugmyndasköpunar fremur en óvirkt viðfangsefni. Innlend dæmi verða dregin fram í námskeiðinu sem byggir að hluta á rannsóknarleiddri kennslu.

X

Skapandi heimildamyndir (HMM220F)

Fjallað verður um helstu tegundir heimildamynda, aðferðir, þróun þeirra og tilgang.

Nemendur læra að skrifa handrit að stuttri heimildamynd og að hugsa allt ferli heimildamyndagerðar, frá grunnhugmynd að fullbúinni mynd, ástunda fagleg vinnubrögð og læra að skipuleggja tökur.

Nemendur ættu einnig að ná tökum á grunnatriðum í kvikmyndatöku og klippingu. Í því samhengi verður unnið eitt verkefni á síma til að ná tökum á tækniatriðum í klippi. Allir nemendur þurfa að skila að minnsta kosti einni fullbúinni stuttri heimildamynd, handriti og æfingaverkefni í klippi. Nemendur ræða nálgun og efnistök verkefna sinna við samnemendur og kennara.

Í námskeiðinu verða sýndar heimildamyndir, bæði brot úr þeim og í fullri lengd, þar sem rætt verður um hugmyndirnar bak við myndirnar, listrænar ákvarðanir, tilgang og siðfræði heimildamynda. Áhersla er lögð á sjálfstæð vinnubrögð.

Tökur fara fram í mars og þurfa að vera búnar fyrir 30. mars, en þá hitta nemendur kennara í klippiherberginu í Odda.

Ekki er ætlast til að nemendur kaupi neinar bækur fyrir þetta námskeið en nauðsynlegt er að þeir hafi sjálfir flakkara til að geyma efnið sitt á og SD kort í myndavélar fyrir eigin upptökur. Einnig er mælt með að nemendur séu með góð heyrnatól.

Námskeiðið er kennt í lotum. Nemendur vinna að heimildamynd alla önnina og í lok annar verður frumsýning í Bíó Paradís.

Námskeiðið er ekki kennt í fjarnámi.

X

Lista- og hönnunarsaga, söfn og menntun (LVG102F)

Mætingarskylda: Kennslan fer fram í fjarkennslu í rauntíma á netinu auk tveggja staðlotna og þáttöku í útfærslu/framkvæmd vinnusmiðju (1x laugardag).

Megináhersla verður lögð á að veita innsýn í sögu lista frá 1900 til nútímans: Fjallað verður um þær stílhreyfingar og listamenn, sem settu stærstan svip á tímabilið og íslensk dæmi fléttuð inn eftir því sem við á. Fjallað verður um hina ólíku stíla og strauma eins og þeir birtast í myndlist og hönnun og stöðu listamanna og hlutverk listarinnar á þessu tímabili.

Þá verður fjallað um samfélagslega stöðu listarinnar, markaðsvæðingu og þróun listhugtaksins og breytt hlutverk listamannsins á þessu tímabili.

Skapaður er vettvangur þar sem áherslan er á samstarf og samtal skóla og safna sín á milli. Áhersla er lögð á að veita nemendum innsýn í störf lista- og minjasafna og kennslufræði þeirra gagnvart skólum og fá nemendur þannig aukna hæfni til að nýta sér þau sem fræðslustofnanir. 

Nemendum gefst kostur á að raungera og þróa hugmyndir sínar og vinna m.a. smiðju í tengslum við sýningu þar sem börn á grunnskólaaldri eru þáttakendur í skapandi starfi. 

Vinnulag: Kennslan fer fram í fjarkennslu í rauntíma á netinu auk tveggja staðlotna og þáttöku í útfærslu/framkvæmd vinnusmiðju (laugardag).

Hópa - og einstaklingsvinna. Listasöfn, minja- og hönnunarsöfn verða heimsótt bæði á eigin vegum og með kennurum.

Námskeiðið krefst sjálfstæðra vinnubragða.

X

Listgagnrýni og sýningarstjórn (LIS805F)

Í námskeiðinu er lagður grundvöllur að virku starfi sýningarstjóra fyrir hagnýt störf á myndlistar- og safnavettvangi. Unnið er á þverfaglegan og gagnrýnin hátt með hugtök og kenningar sem snúa að starfi sýningarstjóra á vettvangi samtímalistar. Í námskeiðinu vinna nemendur í teymum og setja upp sýningu í samstarfi við myndlistarnema eða myndlistarmenn. Nemendur koma til með að beita þekkingu og aðferðum í verki, vinna að undirbúningi, hönnun, textaskrifum og gerð kynningarefnis í tengslum við sýningarhaldið. Námskeiðið er að hluta til unnið í samvinnu við meistaranám í myndlist í LHÍ, auk þess sem nemendur eiga þess kost að eiga í samstarfi við Listasafn Háskóla Íslands og önnur viðurkennd listasöfn.

X

Lesnámskeið í MA- námi (SAF010F)

Lesnámskeið

X

Inngangur að sýningarstjórnun (SAF019F)

Fjallað verður um helstu atriði sýningargerðar og störf sýningarhöfundar, sýningarstjóra og sýningarhönnuðar. Mismunandi aðferðir við sýningastjórnun verða skoðaðar með gagnrýnum hætti og hugmyndafræðilegur grunnur sýninga kannaður. Áhersla verður lögð á frásagnarafbrigði sýninga, handritsgerð og miðlunarleiðir. Einnig verður lögð áhersla á að skoða og greina sýningar listasafna, menningarminjasafna og náttúruminjasafna og kanna með gagnrýnu hugarfari hvernig ólíkar leiðir miðla upplýsingum og upplifunum. Hugað verður að innlendum og erlendum dæmum.

X

Einstaklingsverkefni á safni: Starfsnám (SAF301F)

Starfsnám veitir einstakt tækifæri til að kynna sér fjölbreytta starfsemi safna. Markmið starfsþjálfunar á söfnum er að veita nemendum innsýn í og reynslu af verkefnum safna og flétta þannig saman hagnýta og fræðilega hluta námsins. Við lok starfstímans er gert ráð fyrir að nemandinn þekki vel starfsemi safnsins og geti þar að auki nýtt sér fræðilega þekkingu við lausn á viðfangsefnum. Starfsnámstímabilið er að jafnaði 9 vikur. Starfsnámið er hægt að taka innanlands sem og utan. Sé ætlunin að taka það erlendis, er hægt að sækja um styrk í Erasmus + áætlunina.

X

Lesnámskeið í MA- námi (SAF008F)

Lesnámskeið

X

MA-ritgerð í safnafræði (SAF441L, SAF441L, SAF441L)

Lokaverkefni

X

MA-ritgerð í safnafræði (SAF441L, SAF441L, SAF441L)

Lokaverkefni

X

MA-ritgerð í safnafræði (SAF441L, SAF441L, SAF441L)

Lokaverkefni

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hafðu samband

Nemenda- og kennsluþjónusta Félagsvísindasviðs er á
Þjónustutorgi í Gimli
s. 525 4500 
Netfang: nemFVS@hi.is

Opið virka daga frá 09:00 - 15:00 
Gimli - Sæmundargötu 10, 102 Reykjavík

Bóka viðtal við nemenda- og kennsluþjónustu Félagsvísindasviðs

Safnafræði á samfélagsmiðlum

 Instagram   Facebook

Gimli, Háskóli Íslands

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.