Skip to main content
28. febrúar 2024

Trúarbragðafræði í boði sem aukagrein

Trúarbragðafræði í boði sem aukagrein - á vefsíðu Háskóla Íslands

Frá og með næsta hausti verður hægt að taka trúarbragðafræði sem 60 eininga aukagrein á BA-stigi við Háskóla Íslands. Í námsleiðinni verður nemendum boðið upp á mikinn sveigjanleika og þeir geta mótað nám sitt í samræmi við eigin áhuga. Eina skilyrðið er að helmingur námsins (30 e) þarf að vera tekinn í námskeiðum innan Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar. Nám í trúarbragðafræði mun gagnast fólki á fjölbreytilegum starfsvettvangi, t.d. í fjölmiðlum, innan alþjóðastofnana og -samtaka, í stjórnmálum, í menntakerfinu eða hvarvetna þar sem ólíkar lífsskoðanir, trúarlegar sem ótrúarlegar, mætast. Hægt er að sækja um grunnnám við Háskóla Íslands til 5. júní.

Haraldur Hreinsson, lektor í sögu kristni og trúarbragðafræði við Háskóla Íslands, segir að nám í trúarbragðafræðum sé sérstaklega spennandi nú um stundir vegna þeirra miklu breytinga sem nú eiga sér stað á hinu trúarlega sviði á Íslandi þar sem hið trúarlega landslag verði sífellt fjölbreyttara.

Haraldur Hreinsson, lektor í sögu kristni og trúarbragðafræði við Háskóla Íslands, segir að námið sé sérstaklega spennandi nú um stundir vegna þeirra miklu breytinga sem nú eiga sér stað á hinu trúarlega sviði á Íslandi, líkt og annars staðar í Norður-Evrópu. Hið trúarlega landslag verði sífellt fjölbreyttara: „Fólk með ólíkan trúarlegan bakgrunn flyst í auknum mæli og af ólíkum ástæðum til Íslands. Á sama tíma fjölgar einnig í þeim hópi fólks sem kýs að standa utan allra lífsskoðunarfélaga. Samhliða þessari þróun hefur ráðandi staða lútherskra meirihlutakirkna gjörbreyst. Nám í trúarbragðafræði gefur fólki innsýn í hinn margslungna veruleika trúarbragða og annarra lífsskoðana. Markmið námsins er að gera nemendum kleift að skilja þátt trúarbragða í samfélagi og menningu með því að greina hann með fræðilegum kenningum og aðferðum. Nemendur kynnast mörgum af fjölmennustu trúarbrögðum heims og hvernig þau hafa áhrif á samfélög fólks og menningu með fjölbreytilegum hætti og fléttast saman við hin ýmsu svið mannlífsins, t.d. stjórnmál, menntun, lög, listir og vísindi.“

Við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands er einnig hægt að leggja stund á guðfræðinám á BA-stigi, bæði sem fullt 180 eininga nám og sem 60 eininga aukagrein. Þá er í boði við deildina að ljúka framhaldsnámi í guðfræði, djáknafræði og námi til prests.

Kennslustund í Inngangi að guðfræðilegri siðfræði. Kennari er Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor og forseti Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands.