Skip to main content
18. mars 2024

Tilnefnd til Edduverðlauna

Tilnefnd til Edduverðlauna - á vefsíðu Háskóla Íslands

Uppskrift: Lífið eftir dauðann í leikstjórn og framleiðslu Bergþóru Ólafar Björnsdóttur hefur verið tilnefnd til Edduverðlauna í flokki heimildastuttmynda ársins. Bergþóra gerði myndina þegar hún var í ritlistarnámi við Háskóla Íslands og tók valnámskeiðið Skapandi heimildamyndagerð í námsgreininni Hagnýt menningarmiðlun. Bergþóra var 22 ára þegar hún missti árs gamla dóttur sína og myndin er persónuleg saga um hugleiðingar móður sem þarf að finna leið til að halda áfram með lífið eftir það áfall. Bergþóra segist gjarnan spurð að því hvernig henni hafi tekist að halda áfram með lífið og svarið sé í rauninni einfalt: „Það er náttúrulega ekkert annað í boði. En einn lykill að hamingjunni liggur í að njóta litlu hversdagslegu hlutanna. Finna þakklætið í hversdeginum.“ 

Aðspurð segir Bergþóra að námið hafi reynst henni mjög vel í því sköpunarferli sem gerð myndarinnar var. „Nám er í fyrsta lagi frábær vettvangur til að prófa alls konar og leyfa sér að mistakast, prófa þá annað og/eða reyna aftur. Við hugsum líka um verkin okkar sem „verk í vinnslu“ en þannig er minni pressa á að skila inn fullkláruðu „meistaraverki.“ Fullkomnunarárátta býr sennilega í okkur flestum en hún er bara til trafala og nauðsynlegt að losa sig við hana sem fyrst. Á sama tíma lærist það að „setja punktinn“ á verkið sitt og standa með því eins og það er. Námið er einnig mjög fjölbreytt og er rík áhersla lögð á að við nemendur séum öll ólíkir einstaklingar. Það er bæði frelsandi og hvetjandi, því þá skapast rými til að sleppa tökunum á samanburði við aðra nemendur og læra um leið að treysta því að verkið eigi jafn mikið erindi og önnur verk. Við förum líka yfir verk hvors annars og gefum uppbyggilega gagnrýni, þannig skapast traust og tengslanet sem er dýrmætt að eiga í skapandi geira.“

Uppskrift: Lífið eftir dauðann er tilnefnd til Edduverðlauna í flokki heimildastuttmynda ársins. Kvikmyndaverðlaun Eddunnar verða veitt 13. apríl næstkomandi í beinni útsendingu á RÚV. Inga Auðbjörg Straumland hannaði veggspjald myndarinnar

Bergþóra segir tvímælalaust óhætt að mæla með þessu námi fyrir þau sem hafi áhuga á skrifum og kvikmyndagerð, enda hafi hún fengið tækifæri til að gera þessa mynd í námskeiði í Hagnýtri menningarmiðlun sem heitir Skapandi heimildamyndagerð. „Námskeiðið er skemmtilegt og fræðandi og opnaði nýjar víddir í frásagnarstíl hjá mér,“ segir Bergþóra og bætir við að þannig sé því einnig farið í öðrum námskeiðum, hvort sem um ræði handritaskrif fyrir leiksvið eða kvikmyndagerð, ljóðaskrif eða sjálfsævisögur, svo fátt eitt sé nefnt. Allir áfangarnir hafi opnað fyrir eitthvað nýtt hjá henni og hvatt hana til sköpunar.

Tvö ný verkefni eru í vinnslu hjá Bergþóru um þessar mundir. „Annað þeirra er handrit að kvikmynd og hitt er handrit að barnabók. Mér finnst ágætt að hafa tvö mismunandi verkefni í gangi í einu til að geta skipt á milli.“

Í spilaranum hér að neðan er hægt að horfa á viðtal við Bergþóru sem birt var á klapptre.is. 

Bergþóra Ólöf Björnsdóttir