Skip to main content

Með fróðleik í fararnesti – sveppaferð í Heiðmörk

Með fróðleik í fararnesti – sveppaferð í Heiðmörk - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
1. september 2018 10:00 til 13:00
Hvar 

Heiðmörk

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Háskóli Íslands og Ferðafélag barnanna, undirdeild Ferðafélags Íslands, standa saman að árlegri ferð á slóðir sveppa í Heiðmörk laugardaginn 1. september kl. 10. Leitað verður að gómsætum sveppum undir styrkri leiðsögn Gísla Más Gíslasonar, prófessors við Háskóla Íslands, og samstarfsfólks hans. Ferðin er öllum opin og er þátttaka ókeypis.

Háskólinn og Ferðafélagið hafa undanfarin ár staðið fyrir ferðum í Heiðmörk á þessum tíma árs þegar hægt er að sækja ýmiss konar góðgæti út í náttúruna, eins og sveppi og ber. Þær hafa verið afar vel sóttar. Það er hins vegar ekki hægt að borða alla sveppi í íslenskri náttúru og því mikilvægt að fá aðstoð kunnáttufólks við að greina þá ætu frá þeim eitruðu.

Hist verður á bílastæði við Rauðahóla í Heiðmörk kl. 10 laugardaginn 1. september. Áætlað er að ferðin taki á bilinu tvær til þrjár klukkustundir.

Sveppaferðin í Heiðmörk er liður í áralöngu samstarfi Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands um gönguferðir undir yfirskriftinni „Með fróðleik í fararnesti“. Það má rekja aftur til ársins 2011 þegar Háskólinn fagnaði aldarafmæli sínu. Markmiðið með ferðunum er að nýta bæði reynslu og þekkingu fararstjóra Ferðafélagsins og þekkingu kennara og vísindamanna Háskólans í stuttum en áhugaverðum ferðum fyrir almenning á og í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Ferðirnar hafa verið opnar öllum og ókeypis.

Hin árlega sveppaferð Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands í Heiðmörk verður laugardaginn 1. september kl. 10.

Með fróðleik í fararnesti – sveppaferð í Heiðmörk