Háskóli Íslands

Með fróðleik í fararnesti - Á slóðum kræklingsins í Hvalfirði

Hvenær hefst þessi viðburður: 
29. apríl 2017 - 12:00
Háskóli Íslands
Háskóli Íslands og Ferðafélag barnanna efna til kræklingaferðar í Hvalfjörð laugardaginn 29. apríl kl. 12. Brottför verður á einkabílum frá skrifstofu FÍ, Mörkinni 6. 
 
Þessi ganga hefur notið mikillar hylli undanfarin ár enda er kræklingur herramannsmatur. Það þarf samt að vita hvenær má tína hann og borða og hvernig á að elda hann. Gísli Már Gíslason, prófessor í vatnalíffræði, og Halldór Pálmar Halldórsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum, leiða og fræða þátttakendur og töfra fram veislu í fjörunni í Hvalfirði. Þátttakendur mæti í stígvélum, með ílát fyrir kræklinginn og gjarnan með hlýja vettlinga og góða gúmmíhanska. Áætlað er að ferðin taki um þrjár klukkustundir. 
 
Gangan er hluti af verkefni Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands, Með fróðleik í fararnesti, sem hófst á aldarafmæli skólans árið 2011. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskólans blandast saman í þessum áhugaverðu gönguferðum. Markmiðið með þeim er að vekja áhuga almennings á fræðslu og hollri útivist og fjölga valkostum í þeim efnum. Um leið er vakin athygli og vonandi áhugi á fjölbreyttri starfsemi Háskóla Íslands og Ferðafélagsins.
 
Þátttaka ókeypis og allir velkomnir.
 
Næstu ferðir:
Þriðjudaginn 2. maí kl. 17 - Eldfjalla- og gjótukönnun í Búrfellsgjá
Þriðjudaginn 13. júní kl. 17 - Pöddulíf í Elliðaárdal
Þriðjudaginn 21. júní kl. 16 - Álfaganga um Jónsmessu
Laugardaginn 26. ágúst kl. 11 - Sveppasöfnun í Heiðmörk
Laugardadinn 9. september kl. 11 - Holdsveiki og Hallgerður langbrók
Laugardaginn 23. september kl. 11 - Margt býr í Öskjuhlíðinni
Laugardaginn 7. október kl. 13.30 - Fjöruferð í Gróttu
Þú ert að nota: drupalcl2.rhi.hi.is