Háskóli Íslands

Jóga á Íslandi

Hvenær hefst þessi viðburður: 
17. maí 2017 - 13:20
Staðsetning viðburðar: 
Nánari staðsetning: 
Stofa 106
Háskóli Íslands

Bjarni Randver Sigurvinsson doktorsnemi kynnir niðurstöður rannsókna sinna á stöðu jóga í íslensku samfélagi með sérstaka áherslu á kristna kirkju. Andmælandi verður sr. Kristinn Ágúst Friðfinnsson formaður Lífsspekifélags Íslands.

Erindið er haldið í stofu 106 í Odda kl. 13:20-15:00. Allir velkomnir.

Jóga á Íslandi

Jóga var kynnt til sögunnar meðal Íslendinga snemma á 20. öldinni af guðspekifélögum eins og Þórbergi Þórðarsyni rithöfundi en það var ekki fyrr en á sjöunda áratugnum sem fyrstu jógahreyfingarnar hófu starfsemi í landinu og farið var að bjóða upp á jógaiðkun að ráði meðal landsmanna. Með nýaldarvakningunni á níunda áratugnum jókst áhugi á jóga til muna og er jógaiðkun í einni eða annarri mynd nú útbreidd um land allt og nær til íþróttafélaga, líkamsræktarstöðva, hjúkrunar- og heilsustofnana, skóla og þjóðkirkjunnar.

Þrátt fyrir þetta hefur jóga ekki alltaf þótt sjálfsagður hlutur í íslensku þjóðfélagi og sætti bæði iðkunin og hugmyndafræðin að baki henni harðri gagnrýni úr ýmsum áttum út alla 20. öldina. Fyrsta jógabókin sem kom út í íslenskri þýðingu var hædd í fjölmiðlum, Guðspekifélagar vöruðu margir við hathajóga  vel fram yfir miðja öldina og voru mun áhugasamari um hugleiðslu, dulspeki, búddhisma og advaita vedanta, vissar jógahreyfingar voru tengdar við glæpi og hryðjuverk, jóga sætti tortryggni úr heilbrigðisgeiranum, þjóðkirkjan varaði ítrekað við jóga og jafnvel jógahreyfingar vöruðu ýmsar hverjar við hverri annarri. Þótt jóga þyki víða sjálfsagður hlutur í dag eru enn ýmsir hópar í samfélaginu sem eru andsnúnir allri slíkri iðkun.

Í erindinu verður rætt um helstu stefnur innan jóga og þær jógahreyfingar sem helst hafa komið við sögu í landinu og reynt að varpa ljósi á hvers vegna þær urðu svona umdeildar en náðu síðan útbreiddri samfélagslegri viðurkenningu. Í þeirri greiningu verður sérstaklega tekið mið af trúarlífsfélagsfræðilegum kenningum um mismunandi formgerðir félagslegra hreyfinga og álitamálum um hvernig skilgreina beri trúarhugtakið en meðal þess sem tekist hefur verið á um er hvort allt sem kennt er við jóga sé raunverulegt jóga og hvort jóga sé eða geti verið trúarlegt. Þetta er allt spurningar sem eru sérlega áhugaverðar í tengslum við jógaiðkun í skólum og öðrum opinberum stofnunum í íslensku fjölmenningarsamfélagi.

Þú ert að nota: drupalcl1.rhi.hi.is