Háskóli Íslands

Sálfræðiráðgjöf háskólanema

Sálfræðiráðgjöf háskólanema er þjálfunarstöð í klínískri sálfræði og er starfrækt á vegum Sálfræðideildar Háskóla Íslands. Ráðgjöfin hefur tvíþætt markmið. Annars vegar að þjálfa framhaldsnema í sálfræði í að sinna klínískum störfum. Hins vegar að veita skjólstæðingum sálfræðiþjónustu, þ.e. háskólanemum og börnum þeirra sem þangað leita eftir slíkri aðstoð.

Í Sálfræðiráðgjöfinni veita cand. psych. –nemendur sálfræðiþjónustu undir faglegri handleiðslu löggiltra sálfræðinga. Ráðgjöfin þjónar því hlutverki að auka þekkingu og hæfni cand. psych. –nemenda í átt til þess að þeir verði fullgildir sálfræðingar. Í ráðgjöfinni veita nemendurnir sálfræðiþjónustu í samræmi við lög og reglur sem gilda um heilbrigðisstarfsmenn. Unnið er út frá sannreyndum og viðurkenndum aðferðum sálfræðinnar og í samræmi við siðareglur sálfræðinga.

Í Sálfræðiráðgjöfinni er unnið að því að hjálpa háskólanemum og börnum þeirra, sem þangað leita eftir aðstoð við að ná markmiðum sínum, s.s. að leysa úr sálrænum vandamálum, breyta hegðun sinni, hugarfari eða lífsstíl. Einnig að bæta samskipti við annað fólk og vinna að öðru því sem stuðlar að góðri heilsu, bættri líðan og heilbrigði.

Háskólanemar geta leitað eftir þjónustu Sálfræðiráðgjafar bæði fyrir sjálfa sig og fyrir börn sín. Fyrir fullorðna er veitt greining og skammtíma samtalsmeðferð auk annars konar ráðgjafar við sálrænum vanda. Um getur verið að ræða ýmiskonar aðlögunarvanda, samskiptaerfðileika, streitu, áföll, kvíða og fælni, óyndi/depurð/þunglyndi, frestunaráráttu, skert sjálfstraust og fleira. Veitt er greining og samtalsmeðferð fyrir börn og unglinga nemenda háskólans ásamt ráðgjöf fyrir foreldra, t.d. ráðgjöf við vanda er snertir erfiðar tilfinningar og hegðunarvandkvæði barna. Einnig er veitt foreldraráðgjöf um þroskavanda barna og uppeldi þeirra.

Fyrirvarar. Sem þjálfunarstöð fyrir sálfræðinema er Sálfræðiráðgjöfin ekki ætluð til þess að fást við alvarlegustu sálmein, s.s. langvinna geðsjúkdóma, eiturlyfjafíkn, eða önnur djúpstæð sálmein sem tilheyra frekar geðdeildum eða öðrum meðferðarstofnunum. Sálfræðiráðgjöfin getur annað takmörkuðum fjölda mála á hverjum vetri og miðast fjöldi mála við námskröfur sem gerðar eru til cand. psych. nemendanna. Það er því ekki víst að allir þeir háskólanemar sem óska eftir þjónustu geti fengið hana.

Sálfræðiráðgjöfin fær skjólstæðinga í gegnum tilvísanir, m.a. frá Náms- og starfsráðsgjöf háskólans, Heilsutorgi háskólanema og frá Þroska og hegðunarstöð fyrir börn. Einnig geta nemendur háskólans, sem óska eftir þjónustu ráðgjafarinnar, hringt beint í síma ráðgjafarinnar (856-2526), hlustað á símsvara og skilið eftir viðeigandi skilaboð í talhólfi. Hringt verður í þá háskólanema sem þess óska, þó með fyrirvara um fjölda innhringinga. Símtölum verður svarað eftir þeirri röð sem þau berast og á tímum sem tekið er við nýjum málum. Fari svo að biðlisti myndist og yfirfyllist verða gerð hlé á inntökum mála og um það gefnar upplýsingar á símsvaranum. Skjólstæðingar fá úthlutað meðferðaraðila þegar við á; cand. psych. –nema, sem veitir þeim viðtöl og bókar áframhaldandi viðtalstíma. Tími fyrir hvert viðtal miðast við 50 mínútur og greiða skjólstæðingar hóflegt gjald fyrir það eða 1500 krónur.

Í þjálfunarskyni eru viðtöl við skjólstæðinga tekin upp í hljóð og mynd til að nemendur geti farið yfir það sem gerðist þar með handleiðara sínum, en eftir það er upptökum eytt. Farið er með upptökur samkvæmt skyldum varðandi trúnað við skjólstæðinga, enda gæta cand. psych. nemendur í ráðgjafarstörfum sínum trúnaðarskyldu bæði samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn og siðareglum sálfræðinga.

Viðtölin fara fram í Sálfræðiráðgjöfinni sem er í húsi Sálfræðideildar að Aragötu 14 og símanúmer þar er 856-2526. Gengið er á bak við húsið og þar niður tröppur, inn um dyr og eftir stuttum gangi inn á biðstofu þar sem viðtalsherbergin eru. Stefnt er að því að viðtöl á hvert mál verði eigi fleiri en 10.

Sálfræðiráðgjöf háskólanema
Forstöðumaður er Gunnar Hrafn Birgisson, PsyD, sérfræðingur í klínískri sálfræði.
Aragata 14 (inngangur bakvið húsið)
Sími 856 2526
 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Sía fyrir ruslpóst
This question is for testing whether or not you are a human visitor and to prevent automated spam submissions.
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.
Þú ert að nota: drupalcl1.rhi.hi.is