Skip to main content

Fann heimsins elsta ísbjörn

Íslenskir jarðvísindamenn rannsaka ísbirni á Svalbarða. Vísindavefur BBC hefur fjallað ítarlega um afrek jarðvísindamannsins Ólafs Ingólfssonar, sem er prófessor við Háskóla Íslands. Í rannsóknarleiðangri Ólafs á Svalbarða fannst steingert kjálkabein úr ísbirni sem talið er vera elsti steingervingur ísbjarna sem nokkurn tímann hefur fundist. Kjálkabeinið er um 23 sentímetrar að lengd og er afar vel varðveitt. Vísindamenn hafa hingað til talið að ísbirnir hafi komið fram sem sérstök tegund fyrir um 70 þúsund árum, en kjálkabeinið, sem er líklega úr fullvaxta birnu, er að öllum líkindum 110 til 130 þúsund ára gamalt. Ísbirnir eru í dag á válista norðurslóðadýra og margir telja að hnattræn hlýnun og minnkun hafísþekju geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir ísbjarnastofninn.

Í samtali við BBC segir Ólafur að ísbjörninn hafi upphaflega þróast frá brúnbjörnum sem vegna kólnandi veðurfars á ísöld hafi haldið út á hafísinn á norðurheimskautasvæðunum og sérhæft sig í að veiða sel sér til átu. Ólafur og samstarfsmenn hans telja að ísbirnir hafi verið á heimskautasvæðunum í að minnsta kosti 200 þúsund ár.

Ólafur Ingólfsson, prófessor í Jarðvísindadeild

Í rannsóknarleiðangri Ólafs á Svalbarða fannst steingert kjálkabein úr ísbirni sem talið er vera elsti steingervingur ísbjarna sem nokkurn tímann hefur fundist.

Ólafur Ingólfsson

Ef þessar hugmyndir eru réttar hefur ísbjörnin lifað af stórfelldar umhverfisbreytingar og tímabil þegar jörðin var mun hlýrri en í dag og minni hafís á heimskautasvæðunum. Því er kannski ekki ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af framtíð ísbjarna þótt hnattræn hlýnun geti haft áhrif til minni hafísþekju að sumri á norðurheimskautssvæðunum. Eins lengi og selir og hafís að vetri eru til staðar verða til ísbirnir. Ísbjörnum stafar í dag aðallega ógn af vaxandi mengun.