Skip to main content
20. júní 2015

Vísindagarðar segull fyrir nýsköpun og frumkvöðlastarf

Í síðustu brautskráningarræðu sinni við Háskóla Íslands nú í morgun hvatti Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor stjórnvöld til að stórauka fjárfestingu í menntun, vísindum og nýsköpun. Kristín, sem lýkur 10 ára rektorstíð í lok þessa mánaðar, kvaddi í dag 2081 kandídat frá öllum fræðasviðum skólans. Við brautskráninguna vakti hún athygli á því að Íslendingar verðu meira fjármagni til kaupa á gosdrykkjum og sælgæti en varið sé til starfsemi Háskóla Íslands á fjárlögum.  

Kristín Ingólfsdóttir rektor lagði sérstaka áherslu á mikilvægi nýsköpunar í starfi skólans og fagnaði því að Vísindagarðar Háskóla Íslands væru orðnir segull fyrir kröftug nýsköpunarfyrirtæki og frumkvöðlastarfsemi. Með komu tölvuleikjafyrirtækisins CCP og fjölda sprotafyrirtækja í nýtt hús á lóð Vísindagarða á næstu misserum styrktist sá kjarni sem þar væri fyrir með sambýli háskólans, Íslenskrar erfðagreiningar, lyfjafyrirtækisins Alvogen og glæsilegra stúdentagarða. Hún sagði að samfélag af þessu tagi hefði það aðdráttarafl sem nauðsynlegt væri í samkeppni þjóða um hæfileikaríkasta fólkið og hún fagnaði því að þekkingarfyrirtækin skynjuðu og vildu nýta þá breidd og kraft sem væri í starfi skólans.

Kristín vakti sérstaka athygli á aukinni samvinnu ólíkra fræðigreina í rannsóknum og í nýsköpun. Hún benti á að þetta væri þróun sem nú ætti sér stað hvarvetna í heiminum við úrlausn verkefna sem snerta til að mynda heilsufarsógnir, loftslagsbreytingar og fæðuöryggi. Hún nefndi dæmi af rannsóknarverkefni, sem hlotið hefði 600 milljóna króna styrk Evrópusambandsins, þar sem vísindamenn við Háskóla Íslands á sviði iðnaðarverkfræði og taugasálfræði leiði alþjóðlegan hóp í þróun á hátæknibúnaði sem geri blindum og sjónskertum fært að skynja umhverfi sitt í þrívídd með því að nota hljóðbylgjur og snertingu. 

Kristín benti í ræðu sinni á að skipta mætti tekjum háskólans í tvo hluta. Annars vegar væru um fimm milljarða króna sértekjur skólans, einkum rannsóknastyrkir, sem aflað sé í alþjóðlegri samkeppni, en einnig kæmu rausnarleg framlög frá velgjörðarmönnum.  Hins vegar sagði hún beint framlag ríkisins til skólans í fjárlögum liðlega 12 milljarða króna.  Hún sagði að það væru vitaskuld miklir fjármunir fyrir samfélagið, en Íslendingar keyptu sælgæti og gosdrykki fyrir þriðjungi hærri fjárhæð árlega en ríkið leggi til verðmætaskapandi starfsemi í Háskóla Íslands.  Hún nefndi einnig að Íslendingar keyptu kartöfluflögur fyrir tvisvar sinnum hærri fjárhæð en varið sé til Læknadeildar.  Rektor kvaðst í ræðunni hafa góða lyst bæði á súkkulaði og lakkrís, en spurði hvort ekki gæti verið skynsamlegt að setja hlutfallslega meira í menntun og minna í magann.  

Í ræðu sinni vakti Kristín sérstaka athygli á  Rannsóknasetrum Háskóla Íslands, sem starfa nú á níu stöðum á landsbyggðinni, og hvernig mismunandi aðstæður hafi verið nýttar m.a. til rannsókna á náttúruauðlindum sem í sumum tilfellum séu leiðandi í heiminum. Árangurinn megi rekja til náins samstarfs Háskóla Íslands, sveitarfélaga, fyrirtækja, einstaklinga og stofnana í þessum byggðalögum.  Opnast hafi nýjar víddir með þessu í starfsemi skólans og nýir atvinnu- og þróunarmöguleikar skapast í byggðarlögunum.  Kristín nefndi þetta gott dæmi um hvernig höfuðborg og landsbyggð gætu unnið saman án togstreitu þar sem allir njóti góðs af.

Kristín Ingólfsdóttir var skipuð rektor Háskóla Íslands eftir rektorskjör 2005.  Hún var skipuð að nýju í embættið árið 2010.  Frá því að hún tók við sem rektor Háskóla Íslands í júlí 2005 hafa um 24 þúsund nemendur brautskráðst frá skólanum, þar af rösklega tvö þúsund núna í dag.  Miðað við afar góða mætingu kandídata á brautskráningar frá Háskóla Íslands má lauslega áætla að Kristín hafi tekið í höndina hátt í 17 þúsund manns á þessum tíma. Síðastliðið haust tilkynnti Kristín að hún hygðist ekki leita endurkjörs. Nýr rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson, sem kjörinn var í vor, tekur við embætti um næstu mánaðamót. 

Rektor hvatti í ræðu sinni m.a. til stóraukinnar fjárfestingar í menntun og vísindum og bendti á að Íslendingar verðu nú meiri fjármunum til kaupa á sælgæti og gosdrykkjum en til starfsemi Háskóla Íslands.
Rektor hvatti í ræðu sinni m.a. til stóraukinnar fjárfestingar í menntun og vísindum og bendti á að Íslendingar verðu nú meiri fjármunum til kaupa á sælgæti og gosdrykkjum en til starfsemi Háskóla Íslands.