Skip to main content

Reglur nr. 888-2016

Reglur um viðurkenningu Háskóla Íslands á akademísku hæfi starfsmanna á Landspítala og veitingu akademískrar nafnbótar, nr. 888/2016.

með síðari breytingum

1. gr.  Veiting akademískrar nafnbótar.

Markmið með veitingu akademískrar nafnbótar er að styrkja og dýpka samstarf Landspítala (og eftir atvikum annara heilbrigðisstofnana) og Háskóla Íslands á sviði rannsókna og kennslu, með því að starfsmönnum Landspítala í klínískum og paraklínískum störfum gefist færi á að sinna akademískum verkefnum í samstarfi við Háskóla Íslands, sem stuðlað geta að aukinni rannsóknavirkni í þágu háskólans og spítalans og birtingu vísindagreina í nafni beggja stofnana.

Háskólamenntuðum starfsmönnum Landspítala (LSH), sem gegna klínískum eða paraklínískum störfum í að a.m.k. 70% starfshlutfalli, er heimilt að sækja um viðurkenningu Háskóla Íslands (HÍ) á akademísku hæfi sínu, enda séu þeir ekki þegar ráðnir til HÍ í starf háskólakennara eða sérfræðings þar sem hæfnisdóms er krafist.

Háskólarektor gefur út viðurkenningu á akademísku hæfi, að fengnu mati valnefndar og vísinda- og nýsköpunarsviðs Háskóla Íslands, sbr. 5. grein, og tillögu forseta Heilbrigðis­vísindasviðs eða eftir atvikum forseta annars fræðasviðs HÍ ásamt forseta viðkomandi háskóladeildar.

Viðurkenning á akademísku hæfi veitir akademíska nafnbót eftir því sem mælt er fyrir um í reglum þessum. Akademískri nafnbót verður ekki jafnað til ráðningar í starf háskóla­kennara eða sérfræðings við HÍ, sbr. 17. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og III. kafla reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands, og nafnbótin veitir ekki önnur réttindi en þau sem kveðið er á um í reglum þessum.

Þeir sem ráðnir eru til HÍ og hafa hlotið hæfnisdóm geta ekki sótt um viðurkenningu á akademísku hæfi sínu samkvæmt þessum reglum.

2. gr.  Akademísk nafnbót.

Akademísk nafnbót er veitt í tengslum við einhverja af deildum Heilbrigðisvísindasviðs HÍ, þ.e. Læknadeild, [Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild,]1 Tannlæknadeild, Lyfjafræðideild, Sálfræðideild og Matvæla- og næringarfræðideild.

Nafnbótin er veitt á grundvelli mats valnefndar og vísinda- og nýsköpunarsviðs HÍ. Starfsmaður LSH sem ráðinn hefur verið til þess að gegna klínískum eða paraklínískum störfum við spítalann og hefur öðlast viðurkenningu á akademísku hæfi og telst ótvírætt uppfylla skilyrði til að gegna lektorsstarfi, dósentsstarfi eða prófessorsstarfi, má kalla sig klínískan lektor o.s.frv.

Heimilt er að veita starfsmönnum heilbrigðisstofnana, annarra en LSH, akademískar nafnbætur, sbr. 1. mgr., enda sé gert ráð fyrir því í samstarfssamningi sem HÍ hefur gert við viðkomandi stofnun.

Enn fremur er heimilt að veita akademískar nafnbætur við aðrar deildir Háskóla Íslands, enda gegni sá starfsmaður sem um nafnbótina sækir starfi við LSH eða aðra heilbrigðis­stofnun, sem fyllilega er sambærilegt við störf þau sem skilgreind eru í 2. mgr. 1. gr.
1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 514/2022.

3. gr.  Umsókn um viðurkenningu á akademísku hæfi.

Landspítali og eftir atvikum aðrar heilbrigðisstofnanir í samráði við vísinda- og nýsköpunarsvið kynna reglulega að unnt sé að sækja um akademíska nafnbót. Fram komi að tekið sé við umsóknum í viðkomandi háskóladeild og hvaða reglur gildi um meðferð þeirra, m.a. að umsækjendur skuli gera grein fyrir samstarfi eða fyrirhuguðu samstarfi við Háskóla Íslands og eftir atvikum við aðra háskóla, tiltaka samstarfsaðila, samstarfsverkefni og helstu markmið þeirra. Umsókn skal uppfylla sömu skilyrði og hverju sinni eru í gildi varðandi umsóknir um laus störf og framgang, sbr. 37. og 38. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

Mæli deild með umsókn um viðurkenningu skal vísa henni til vísinda- og nýsköpunar­sviðs Háskóla Íslands ásamt rökstuðningi sem tekur mið af sjónarmiðum sem fram koma í 1. mgr. 1. gr. Vísinda- og nýsköpunarsvið staðfestir við umsækjanda móttöku umsóknar og tilgreinir hvenær áætlað er að niðurstaða liggi fyrir.

4. gr.  Skipun valnefndar.

Rektor og forstjóri LSH skipa til þriggja ára í senn valnefnd þriggja sérfræðinga. Þar af skipar rektor tvo og skal annar vera formaður nefndarinnar. Í valnefndina má þá eina skipa sem metnir hafa verið hæfir til að gegna starfi prófessors. Um sérstakt hæfi nefndarmanna fer eftir II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Vísinda- og nýsköpunarsvið HÍ metur umsóknir ásamt valnefndinni með sama hætti og gildir um umsóknir gestakennara, sbr. verklagsreglur um akademísk gestastörf við Háskóla Íslands.

Formaður skiptir verkum milli nefndarmanna. Vísinda- og nýsköpunarsvið er valnefnd­inni til aðstoðar.

Heimilt er rektor og forstjóra að skipa mann „ad hoc“ til þess að fjalla um einstaka umsókn ef hæfisskilyrði krefjast þess. Ef umsækjandi er af öðru fræðasviði en Heilbrigðis­vísindasviði er rektor heimilt að skipa tvo menn af fræðasviði umsækjanda tímabundið í valnefnd til að meta þá umsókn.

Valnefndinni er heimilt að leita álits eins til tveggja viðurkenndra sérfræðinga á fræðasviði umsækjenda.

5. gr.  Málsmeðferð.

Vísinda- og nýsköpunarsvið tekur á móti umsóknum frá háskóladeildum um viðurkenningu á akademísku hæfi og sannreynir hvort umsækjandi uppfyllir skilyrði samkvæmt reglum þessum. Ef fyrir liggur að umsækjandi uppfyllir ekki akademísk hæfisskilyrði, er sviðstjóra vísinda- og nýsköpunarsviðs heimilt f.h. rektors að hafna umsókninni. Að öðrum kosti vísar vísinda- og nýsköpunarsvið umsókninni til meðferðar hjá valnefnd.

Um mat á hæfi umsækjanda og meðferð valnefndar og vísinda- og nýsköpunarsviðs HÍ á málinu að öðru leyti, gilda eftir því sem við á:

  1. Reglur fyrir Háskóla Íslands, nr. 569/2009, III. kafli.
  2. [Reglur um framgang akademísks starfsfólks við Háskóla Íslands, nr. 1300/2020.]1
  3. Reglur læknadeildar Háskóla Íslands um ráðningu og framgang starfsmanna með hæfnisdóm, nr. 498/2002.

Þegar álit valnefndar liggur fyrir skal forseti Heilbrigðisvísindasviðs eða eftir atvikum forseti annars fræðasviðs HÍ ásamt forseta viðkomandi deildar gera tillögu til rektors um hvort gefa skuli út viðurkenningu á hæfi umsækjanda og hvaða akademíska nafnbót skuli veita. Með tillögunni fylgi í öllum tilvikum drög samnings á milli umsækjanda og forseta Heilbrigðisvísindasviðs f.h. viðkomandi deildar, þar sem fram komi markmið samstarfs og réttindi og skyldur sem við geta átt, sbr. 6. gr. Rektor veitir akademíska nafnbót að uppfylltum settum skilyrðum.

Viðurkenning á akademísku hæfi gildir í fimm ár frá veitingu nafnbótar, en fellur niður láti viðkomandi af störfum við LSH eða heilbrigðisstofnun sem HÍ hefur gert samstarfs­samning við eða ef nafnbótarhafi tekur við akademísku starfi við Háskóla Íslands. Að fimm árum liðnum getur valnefnd með samþykki rektors framlengt akademísku nafnbótina ótímabundið. Í slíkum tilvikum getur valnefnd kallað eftir upplýsingum um það hvernig til hefur tekist við að uppfylla sett samningsmarkmið. Umsóknir um framgang úr lektorsnafnbót í dósentsnafnbót eða dósentsnafnbót í prófessorsnafnbót skulu teknar til umfjöllunar  með sama hætti og um væri að ræða nýja umsókn.
1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 493/2021.

6. gr. Samningur um akademíska nafnbót.

Þegar fyrir liggur viðurkenning rektors á akademísku hæfi umsækjanda gengur forseti fræðasviðs, að höfðu samráði við viðkomandi deildarforseta og framkvæmdastjóra lækninga og hjúkrunar á LSH, frá samningi við viðkomandi starfsmann LSH um þau akademísku réttindi og skyldur sem nafnbót hans fylgja, svo sem um þátttöku í kennslu og rannsóknum. Þar komi fram að hvaða verkefnum skal unnið, hverjir eru samstarfsaðilar og hver markmiðin eru með samstarfinu, að birting vísindagreina sé í nafni beggja stofnana og eftir atvikum önnur atriði, svo sem kennsla, stjórnun, aðstaða, aðgangur að gögnum og tækjum. Þá skal kveðið á um að viðkomandi starfsmaður hlíti reglum um gæðamat á störfum, eftir því sem við getur átt. Nafnbótarhafa er meðal annars skylt að skila árlegri skýrslu um störf sín til vísinda- og nýsköpunarsviðs HÍ.

Samningurinn er til fimm ára í senn og fylgir nafnbótinni sem veitt hefur verið. Valnefnd fer reglulega yfir gildandi samninga og metur í samráði við vísinda- og nýsköpunarsvið virkni þeirra og ávinning.

Í desember ár hvert skulu valnefnd og vísinda- og nýsköpunarsvið kynna fyrir stýrihópi HÍ og LSH, stjórn Landspítalans og háskólaráði hverjum hefur verið veitt akademísk nafnbót á liðnu ári og árangur samstarfsins.

Akademískri nafnbót fylgir ekki réttur til þess að sækja um framlög úr rannsóknar­sjóðum HÍ og vinnumatssjóði. Deild getur heimilað styrki úr sérstökum sjóðum í vörslu deildar, samkvæmt skipulagsskrá viðkomandi sjóðs.

Um seturétt á deildarfundum og önnur slík atriði fer eftir reglum hverrar deildar.

7. gr.  Gildistaka og endurskoðun.

Reglur þessar, sem háskólaráð hefur sett á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og samstarfssamnings, dags. 3. desember 2012, milli Háskóla Íslands og Landspítala, öðlast gildi 1. janúar 2017. Reglurnar skulu endurskoðaðar fyrir lok árs 2020 í samráði við Landspítala. Við gildistöku reglnanna falla úr gildi reglur nr. 212/2011 um viðurkenningu Háskóla Íslands á akademísku hæfi starfsmanna á Landspítala og veitingu akademískrar nafnbótar.

Háskóla Íslands, 14. október 2016.