Skip to main content

Gefur karlkynsþolendum kynferðisofbeldis rödd

Skortur á þekkingu á kynferðisofbeldi gagnvart drengjum og afleiðingum þess var kveikjan að meistaraverkefni Hilmars Jóns Stefánssonar í félagsráðgjöf. „Markmið rannsóknarinnar var í fyrsta lagi að gefa karlkynsþolendum rödd sem veitir innsýn í hvernig karlar hafa upplifað áhrif kynferðisofbeldis á líf sitt, bæði sem drengir og fullorðnir. Í öðru lagi er markmiðið að opna umræðuna um kvenkynsgerendur í kynferðisafbrotum gagnvart börnum,“ segir Hilmar og bætir við að lítil umræða hafi farið fram um þess konar brot. 

Hilmar Jón Stefánsson

Hilmar segir vísindalegt gildi rannsóknarinnar fyrst og fremst felast í að stuðla að aukinni þekkingu á kynferðisofbeldi kvenna gagnvart drengjum.

Hilmar Jón Stefánsson

Hilmar tók viðtöl við fimm karlkynsþolendur kynferðisofbeldis þar sem gerandinn hafði verið kona. „Það kom á óvart hversu ungir viðmælendurnir voru þegar kynferðisofbeldið átti sér stað. Enginn af þeim var kominn á kynþroskaaldur, algengast var að þeir væru á aldrinum 7 til 11 ára við fyrsta brot. Það er einnig áhugavert að konurnar sem brutu gegn þeim eiga það allar sameiginlegt að hafa brotið gegn fleiri en einni manneskju, að sögn viðmælenda, og voru einar að verki,“ segir Hilmar. 

Hann bendir enn fremur á að viðmælendur hans hafi átt það sameiginlegt að enginn þeirra sagði frá kynferðisofbeldinu áður en hann náði 18 ára aldri. „Flestir þögðu langt fram á fullorðinsár með tilheyrandi vanlíðan. Hún hafði ýmsar birtingarmyndir, svo sem þunglyndi, skömm, sektarkennd, kvíða, félagsfælni, sjálfsskaðandi hegðun, lélega sjálfsmynd, það að eiga erfitt með að setja öðrum mörk og erfiðleika í kynlífi og nánum samböndum,“ útskýrir Hilmar. 

Hilmar segir vísindalegt gildi rannsóknarinnar fyrst og fremst felast í að stuðla að aukinni þekkingu á kynferðisofbeldi kvenna gagnvart drengjum. „Erlendar rannsóknir hafa sýnt að afleiðingar slíks ofbeldis eru ekki síður alvarlegar en þegar gerandinn er karl. Vonandi munu niðurstöður þessarar rannsóknar verða skref í þá átt að opna umræðuna um kynferðisofbeldi gagnvart drengjum og vekja áhuga annarra til frekari rannsókna á þessu málefni,“ segir Hilmar að lokum. 

Leiðbeinandi: Freydís Jóna Freysteinsdóttir, dósent við Félagsráðgjafardeild. 

Tengt efni