Skip to main content
20. júní 2015

Ræða rektors við brautskráningu kandídata 20. júní

Ræða rektors við brautskráningu kandídata frá Háskóla Íslands laugardaginn 20. júní fylgir hér að neðan.

Forseti Íslands. Fyrrum forseti Íslands. Nýkjörinn rektor Háskóla Íslands, fyrrverandi rektorar.  Kandídatar. Góðir gestir.  

Ég óska ykkur, kæru kandídatar, og fjölskyldum ykkar, hjartanlega til hamingju með daginn! Ég vona sannarlega að hvert sem leið ykkar liggur í lífi og starfi reynist námið við Háskóla Íslands ykkur gott veganesti.  Ég veit að í ykkur blundar brennandi löngun til að bæta samfélagið, bæta heiminn. Ég  vona að námið geri ykkur það betur fært, og ég hvet ykkur til dáða! 

Þegar reynt er að leggja mat á getu okkar til að bæta og styrkja samfélagið er oft vísað til hugtaksins samkeppnishæfni. Það er notað til að meta getu okkar í samanburði við aðrar þjóðir til að tryggja aukin lífsgæði. Meðal þess sem lagt er mat á er árangur í menntun, vísindum og nýsköpun. Með öðrum orðum er reynt að meta framlag velmenntaðra einstaklinga til samfélagsins og þá verðmætasköpun sem verður til í krafti rannsókna. Það er því mikil ábyrgð sem hvílir á háskólum og skólakerfinu öllu.  

Hlutverk háskóla er að skapa umhverfi sem laðar fram ögrandi spurningar, hvetur til þróunar nýrra hugmynda og þenur út mörk þekkingarinnar. Umfram allt eiga háskólar að næra forvitni. Enginn veit hvert vísindin leiða á endanum, þau eru veröld án endimarka en það er það sem gerir vísindin svo spennandi!  

Oft getur verið erfitt að átta sig á gildi vísinda fyrirfram eða hvað ræður forgangi. Af hverju fór maðurinn til að mynda til tunglsins áður en hann setti hjól undir ferðatöskur? Af hverju hannar maðurinn bíla sem aka mannlausir áður en hann útrýmir hungri í heiminum? 

Í vísindastarfi höfum við tvennt að leiðarljósi.  Annars vegar að auka þekkingu sem gæti bætt hlutskipti mannsins í víðum skilningi og búið hann undir framtíðarviðfangsefni.  Hins vegar að leggja af mörkum til að leysa verkefni sem við blasa í dag, annaðhvort í nærsamfélaginu eingöngu eða verkefni sem snerta alla heimsbyggðina, svo sem fátækt, loftslagsbreytingar, fæðuöryggi, átök menningarheima og trúarhópa, þjóðflutninga, heilsufarsógnir og skort á hreinu vatni.  

Oft næst mesti árangur þegar fólk úr ólíkum greinum, með ólíkan bakgrunn, kemur saman til að leita þess sem kallað er þverfræðilegar lausnir. Við höfum einmitt mörg dæmi um það hvernig breiddin í starfi Háskóla Íslands skapar stórkostleg tækifæri við úrlausn verkefna þegar ólíkar greinar vinna saman. 

Ég nefni nýlegt dæmi. Vísindamenn í iðnaðarverkfræði og taugasálfræði leiða nú þróun hátæknibúnaðar til að gera blindum og sjónskertum kleift að skynja umhverfi sitt í þrívídd gegnum hljóð og snertingu. Verkefnið, sem nýlega hlaut 600 milljóna króna styrk frá Evrópusambandinu, gæti haft áhrif á lífsskilyrði þeirra  þrjú hundruð milljóna manna sem eru sjónskertar í heiminum. Af þeim eru 40 milljónir blindar. 

Að undanförnu hefur þverfræðilegum námsleiðum við Háskóla Íslands fjölgað, en nemendur hafa jafnframt aukið breidd í námi með því að taka aukagreinar úr öðrum deildum en sinni eigin, t.d. stærðfræði með heimspeki, japönsku með læknisfræði, vélaverkfræði með ljósmóðurfræði, kínversku með viðskiptafræði. Mörg ykkar stundið tónlist eða aðrar listgreinar með fram námi og þetta eykur líka breidd og skapar tækifæri.

Það hefur verið gaman að sjá frumkvæði stúdenta í nýsköpun.  Það á meðal annars við um hóp kandídata sem útskrifast í dag úr vélaverkfræði, iðnaðarverkfræði, rafmagnsverkfræði, tölvunarfræði, íslensku, blaða- og fréttamennsku auk nemenda úr Listaháskóla Íslands og hafa unnið hafa saman að smíði og kynningu rafknúins kappakstursbíls. Það er vert að þakka  fjölmörgum bakhjörlum í atvinnulífinu sem hafa stutt dyggilega við við þetta verkefni. Kappakstursbíllinn keppir í sumar á Silverstone Formula 1 brautinni. 

Í tímaritinu Nature var því nýlega haldið fram að mestur árangur í nýsköpun verði þegar vísindamenn, stúdentar og atvinnulíf eru í nábýli.  Vísindagarðar Háskóla Íslands í Vatnsmýri eru hugsaðir sem slíkur vettvangur. Íslensk erfðagreining var fyrst fyrirtækja til að byggja aðsetur á svæði Vísindagarða.  Þar er nú að rísa þróunarkjarni lyfjafyrirtækisins Alvogen sem tekur til starfa síðar á árinu. Í vikunni skrifuðum við undir samning við leikjafyrirtækið CCP um að byggja upp aðsetur á Vísindagarðalóðinni. Í sama húsi verður jafnframt rými fyrir fjölmörg sprotafyrirtæki og starfsemi á sviði upplýsingatækni og tölvuvísinda. Glæsilegir stúdentagarðar voru vígðir á Vísindagarðalóðinni árið 2013. Samfélag af þessu tagi hefur aðdráttarafl sem nauðsynlegt er í samkeppni þjóða um hæfileikaríkasta fólkið. Þetta svæði er að verða segull fyrir kröftuga nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi og gaman að sjá að þekkingarfyrirtækin skynja og vilja nýta breidd í starfi skólans sem uppsprettu spennandi tækifæra.  Lykillinn að árangursríkri uppbyggingu á þessu sviði er traust samstarf Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar.  

Háskóli Íslands hefur frá stofnun átt sér marga velgjörðarmenn. Hugur einstaklinga, fyrirtækja og stofnana sem hafa lagt skólanum lið skiptir verulegu máli og ég vil nota þetta tækifæri til að þakka fyrir ómetanlegan rausnarskap og vinsemd í garð skólans. Tekið hefur verið saman yfirlit um allar gjafir sem skólanum hafa borist frá stofnárinu 1911 og markmið skólans er að gera þær sýnilegri og um leið votta velgjörðarmönnum virðingu og þakklæti. Fyrsta skrefið eru stuttir yfirlitskaflar á forsíðu á vef skólans um framlag hvers og eins og söguna á bak við hverja gjöf.

Ef háskólar hér á landi eiga að leggja af mörkum til að treysta velsæld, samfélagslegt réttlæti og samkeppnishæfni landsins verður samfélagið að fjárfesta í starfseminni.  Sú fjárfesting mun skila sér margfalt.

Háskóli Íslands aflar sjálfur um 5 milljarða króna sértekna á hverju ári, mest í harðri samkeppni um alþjóðlega rannsóknastyrki. Þessir fjármunir koma inn í þjóðarbúið í formi gjaldeyristekna.  Einnig skipta sértekjur vegna stuðnings velgjörðarmanna verulegu og vaxandi máli. Framlag ríkisins til Háskóla Íslands í fjárlögum er liðlega 12 milljarðar króna. Þetta eru miklir fjármunir fyrir samfélagið. En setjum þá í samhengi við önnur útgjöld okkar skattgreiðenda. Við Íslendingar kaupum á hverju ári nammi og gos fyrir um 16 milljarða króna, þ.e.a.s. þriðjungi meira en við leggjum til allrar þeirra verðmætaskapandi starfsemi sem fram fer í Háskóla Íslands. Við kaupum kartöfluflögur og skrúfur fyrir tvisvar sinnum hærri fjárhæð en við verjum til Læknadeildar. Ekki misskilja – ég er alls ekki að leggja til að við hættum að borða súkkulaði og lakkrís.  Mér finnst fátt betra.  En gæti ekki verið skynsamlegt að setja hlutfallslega meira í menntun og minna í magann?  

Það er Háskóla Íslands mikilvægt að halda tengslum við byggðir landsins. Rannsóknasetur Háskóla Íslands starfa nú á 9 stöðum á landinu í nánu sambandi við háskólann í höfuðborginni. Á rannsóknasetrunum eru m.a. stundaðar rannsóknir á auðlindum – sjávarfangi, fuglum, hvölum og hreindýrum. Einstakar aðstæður á hverjum stað eru nýttar til rannsókna sem í sumum tilfellum eru leiðandi á heimsvísu.  Fyrir vikið skapast ný vídd í starfsemi Háskóla Íslands, tækifæri fyrir stúdenta og kennara, og ný tækifæri fyrir viðkomandi byggðalög þar sem til verður þekkingarkjarni og ný tegund starfa. Haldin eru námskeið fyrir nemendur og vísindamenn hvaðanæva úr heiminum í samvinnu við deildir skólans. Innlendum og erlendum gestum fjölgar og gestirnir auðga mannlífið og styrkja. Rannsóknasetrin eru mikilvægur hlekkur í þeirri keðju þekkingar- og verðmætasköpunar sem skólinn vill treysta, ekki síst nú á tímum mikilla breytinga í byggða- og atvinnumálum. Ég nefni þetta sem dæmi um árangur sem náðst hefur með samstilltu átaki háskóla, sveitarfélaga, fyrirtækja, stofnana og einstaklinga án þeirrar togstreitu sem stundum gætir í samskiptum höfuðborgar og landsbyggðar. Allir njóta góðs af.                                                                                      

Kæru kandidatar,

Þið eruð einstök kynslóð. Þið eruð kynslóðin sem fæddist með internetinu. Þessi ótrúlega tækni hefur vaxið, þróast og orðið alltumlykjandi á ykkar líftíma. Það gefur ykkur einstaka stöðu, ótrúlegan aðgang að upplýsingum og magnaða möguleika til samskipta sem engin kynslóð hefur áður haft. Það gefur ykkur einstakt færi til að nýta þekkingu og þjálfun sem þið hafið öðlast. Ég vona að þið berið gæfu til að þið nýta þessa möguleika, þessi tækifæri til samskipta og þessa þekkingu, til góðra verka til þess að bæta samfélagið sem þið fáið í arf. 

Í dag er stund til að fagna mikilvægum áfanga en þegar fagnaðarlátunum linnir og þið hafið glaðst í faðmi fjölskyldu og vina vil ég hvetja ykkur til að huga að markmiðum í næsta kafla lífsins og hafa þá hugfast að það skiptir ekki bara máli hvert þið náið í lífinu heldur ekki síður hvernig þið gerið það. 

Af augljósum ástæðum munuð þið sem brautskráist hér í dag ætíð hafa sérstaka stöðu í mínum huga. Ég kveð ykkur, þakka ykkur fyrir samfylgdina og óska þess að þið lifið lífi ykkar vel.