Skip to main content
21. febrúar 2015

Ræða rektors við brautskráningu í Háskólabíói

Ræða Kristína Ingólfsdóttur, rektors Háskóla Íslands, við brautskráningu kandídata í Háskólabíói laugardaginn 21. febrúar fylgir hér á eftir:

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, Frú Vigdís Finnbogadóttir, fræðasviðsforsetar, deildarforsetar, kandídatar og aðrir góðir gestir.

Ég óska ykkur, kæru kandídatar, hjartanlega til hamingju með daginn og þann áfanga sem hann markar í lífi ykkar. Ég vona að dvölin í Háskóla Íslands reynist ykkur gott veganesti á lífsleiðinni. Þekkingin sem þið farið með héðan er afl, og ég vona að þið berið gæfu til að beita því ávallt til góðs.

Um aldir hefur vorkoman verið okkur Íslendingum tilhlökkunarefni - að sjá lífið kvikna á ný eftir erfiðan vetur.  Á eilífri hringferð sinni um sólina breytir jörðin nú möndulhalla sínum og hallar okkur sem búum á norðurhveli í átt að sólinni.  Það vorar senn, og maríuerlan er að búa sig til ferðar frá Vestur Afríku.  Hún verður komin í hlaðvarpann til mín í Borgarfirði upp úr miðjum apríl, og verður þá búin að fljúga 5.500 kílómetra vegalengd frá vetrarstöðvum sínum.  Síðsumars flýgur hún svo aftur suður á bóginn.  Hvað í ósköpunum knýr lífveru sem vegur 30 grömm, sem er jafnmikið og tvær matskeiðar af vatni, til að fljúga samtals 11 þúsund kílómetra vegalengd á hverju ári?  Til að skilja þetta til hlítar þyrfti að leita til sérfræðinga í fjölmörgum fræðigreinum - líffræðinga til að skilja lífsferilinn, eðlisfræðinga til að skilja ratvísina, efnafræðinga til að skilja orkubúskapinn, verkfræðinga til að skilja vænghönnun fuglsins og veðurfræðinga til að skilja hvernig maríuerlan nýtir sér vindafar til að létta ferðalagið. Og síðast en ekki síst þyrftum við að leita til stærðfræðinga því stærðfræðin er sá grunnur sem allar hinar greinarnar nýta.  Ráðgátan um flug maríuerlunnar er kannski ekki brýnasta tilvistarspurning sem við stöndum frammi fyrir, en ég gríp til þessa dæmis af smáfugli sem er mér kær gleðigjafi til að varpa ljósi á hvernig samvinna fræðigreina hjálpar okkur að leysa úr flóknum viðfangsefnum. 

Þið hafið tekið við prófskírteinum hér í dag úr ótalmörgum greinum.  Það sýnir skýrt hina miklu breidd í starfi skólans. Hún sést líka í  nýútkomnu Tímariti Háskóla Íslands sem var lagt í sæti ykkar. Breiddin skapar stórkostleg tækifæri til sóknar og til sköpunar nýrra verðmæta.

Í öllum greinum fræða og vísinda hefur verið lögð áhersla á sérhæfingu, þannig að þekkingarleitin verði dýpri og markvissari.  Stundum er sagt í gríni að vegna þessarar sérhæfingar- viti háskólafólk sífellt meira og meira- um minna og minna- og muni að lokum vita allt um ekkert!  En dýpri skilningur á þröngum sérsviðum skapar ný tækifæri og getur leitt af sér nýja tegund af breidd í háskólastarfinu þegar fólk með djúpa þekkingu af ólíkum fagsviðum kemur saman.

Stærðfræði og heimspeki eru greinar sem við fyrstu sýn virðast ekki eiga mikið sameiginlegt, en byggja þó báðar á rökfræði.  Í hefðbundnu háskólaskipulagi eru afar fáir  snertifletir milli kennara og nemenda í stærðfræði og heimspeki.  Þetta hefur verið að breytast. Í Oxford háskólanum í Bretlandi höfðu heimspekistúdentar frumkvæði að því að boðið var uppá nýjar námsleiðir þar sem aðferðum stærðfræðinnar er beitt í heimspekinámi til að brjóta til mergjar spurningar um eðli mannsins og vísinda.  Þeir sem útskrifast úr slíku námi hafa haldið til margvíslegra starfa þar sem stærðfræðikunnáttan nýtist við greiningu og gagnavinnu og eykur skilning á tækni, og heimspekiþekkingin til að skilgreina og leysa erfið verkefni og kryfja ágreiningsmál.  

Hér við Háskóla Íslands hefur verið byggður upp slíkur vettvangur rannsókna og kennslu í kringum norðurslóðir.  Þar koma saman vísindamenn og stúdentar úr umhverfis- og auðlindafræði, jarðfræði, landfræði, félagsfræði, stjórnmálafræði, hagfræði, lögfræði, líffræði, sagnfræði, lýðheilsuvísindum og fleiri greinum.  Með sama hætti hefur verið skapaður vettvangur til samstarfs um orkuvísindi, sjávarútveg, fjarkönnun, miðaldafræði, ferðamál, þróunarsamvinnu og lífvísindi.  Með því að auka þannig innbyrðis tengsl fólks úr ólíkum greinum innan skólans hér í Reykjavík og Rannsóknasetrum hans víða um land, verður til frjótt umhverfi fyrir samvinnu og nýja nálgun og úrlausn viðfangsefna.

Gott dæmi um mikilvægi samvinnu vísindamanna og doktorsnema úr mörgum ólíkum greinum eru verkefni tengd eldgosinu í Holuhrauni. Þarna er jafnframt stórkostlegt dæmi um samspil vísinda og samfélagslegt framlag.   Vísindamennirnir hafa náð framúrskarandi árangri í rannsóknum á alþjóðavísu en sinna af jafnmikilli alvöru samfélagslegum skyldum - samstarfi við stjórnvöld, Almannavarnir og lögreglu, ráðgjöf við íbúa í grennd gossins, miðlun til erlendra vísindamanna, miðlun til almennings gegnum netið og í fyrirlestrum, og viðtölum við innlenda og erlenda fjölmiðla.

Ég nefndi hér að framan námsleiðir þar sem tvinnað er saman stærðfræði og heimspeki.  Það verður æ ljósara hversu víða þræðir stærðfræðinnar liggja og hversu mikilvægir þeir eru til að þræða saman aðrar greinar.  Stærðfræði er augljóslega undirstöðugrein í tæknigreinum, raunvísindum og heilbrigðisvísindum. En mikilvægi hennar eykst sífellt í mörgum greinum félagsvísinda, hugvísinda og menntavísinda.  Með aukinni nýtingu tölvutækni verður gagnavinnsla og reiknigeta sífellt mikilvægari í þessum greinum, auk þess sem hugbúnaðarþróun er orðinn mikilvægur liður í greinum eins og tungumálakennslu og rannsóknum í tungutækni.

Þrátt fyrir að vera slík undirstöðugrein, eru margir hræddir við stærðfræðina.  Því verðum við að breyta og það verk verður að byrja á yngri skólastigum. 

Það er sérstakt áhersluverkefni háskólans að efla menntun stærðfræðikennara á öllum skólastigum, bjóða starfandi kennurum endurmenntun, þróa stærðfræðina til samstarfs við aðrar greinar innan háskólans og auka vitund um mikilvægi stærðfræði í samfélaginu. 

Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði hafa Gunnar Stefánsson prófessor og Anna Helga Jónsdóttir doktorsnemi ásamt samstarfsaðilum þróað hugbúnað til vefstuddrar kennslu í stærðfræði og tölfræði sem auðveldar þetta starf.  Kerfið heitir Tutor-web og er notað til að kenna ólíkum nemendahópum innan skólans, auk þess sem samstarf er hafið við nokkra framhaldsskóla. Það hefur jafnframt verið notað við kennslu í Kenya, Ghana og Suður-Afríku.  Kerfið er mjög hvetjandi - nemendur fá verkefni  til að leysa og fá strax endurgjöf ásamt útskýringum.  Tutor-web er öllum opið án endurgjalds.  Það getur nýst starfsfólki og stúdentum af ólíkum fræðasviðum sem þurfa á sífellt meiri stærðfræðiþekkingu að halda. Það er aðgengilegt fyrir almenning sem vill styrkja þekkingu sína í þessari grundvallargrein. 

Ég nefndi hér að framan að háskólinn ynni nú sérstaklega að því að styrkja og bæta menntun stærðfræðikennara. Það er aðeins einn liður í stærri áætlun Menntavísindasviðs, í samvinnu við önnur fræðasvið skólans, um breytingar á kennaramenntun sem margar taka gildi þegar í upphafi næsta skólaárs.

Kennarar gegna án efa einhverju mikilvægasta starfi í landinu og það er afar brýnt að vekja áhuga ungs fólks á kennaranámi.  Kennarar geta haft afgerandi og mótandi áhrif á framtíð einstaklinga og þeir leggja grunn að getu nýrra kynslóða til að fást við og fóta sig í veruleika sem verður sífellt flóknari.

Samfélagsbreytingar undanfarinna ára hafa óhjákvæmilega leitt til breytinga á kennarastarfinu.  Upplýsingatækniþróun vegur þar sennilega þyngst,  með öllum þeim gríðarlegu tækifærum, en jafnframt hættum, sem henni fylgja.  Hluti af þessari þróun er að orðið hefur til ósýnileg gjá milli kynslóða, þar sem unga fólkið  hefur uppá eigin spýtur öðlast getu á sviði sem foreldrum þeirra og kennurum er mörgum lokuð bók. Á hinn bóginn hafa breytingarnar líka leitt af sér, að getu nemenda hefur hrakað á öðrum sviðum, og við því þarf að bregðast.  Við þurfum alveg sérstaklega að hafa í huga stöðu og þróun íslenskrar tungu á þessari hraðfleygu tækniöld.  Það er viðeigandi að við brýnum okkur til átaka á því sviði hér í dag, á Alþjóðlegum degi móðurmálsins.

Aðrar samfélagsbreytingar sem hafa áhrif á kennarastarfið eru breytt fjölskyldumynstur og fjölbreyttari samsetning nemendahópa. Það er brýnt að kennarar séu í stakk búnir að leiða saman í samhentan hóp nemendur af ólíkum uppruna, úr ólíkri menningu og trúarbrögðum.  Það er gott til þess að vita að í rannsókn Menntavísindasviðs á lífsviðhorfum framhaldsskólanema kom fram að stór hluti þeirra taldi jákvætt og lærdómsríkt að eiga vini af ólíkum uppruna.  Þetta unga fólk tekur mjög ákveðna afstöðu gegn kynþáttafordómum og er jákvætt gagnvart trúarlegum margbreytileika. Í aðalnámskrá allra skólastiga eru grunnþættir sem eru lykilforsendur í fjölmenningarfræðum.  Þessu er fylgt eftir í kennaranáminu og rannsóknum, bæði á Menntavísindasviði og Félagsvísindasviði. 

Kæru kandídatar
Sá grunnur sem þið hafið lagt með náminu gefur ykkur færi á að færa sífellt út mörk eigin þekkingar og finna svör við þeim spurningum sem á ykkur leita.  Til þess þurfið þið að gera tvennt, annars vegar öðlast þekkingu sem enginn annar hefur - þekkingu á ykkur sjálfum, getu ykkar og takmörkunum.  Hins vegar þurfið þið að setja ykkur markmið og hafa vilja til að fylgja þeim eftir.  Ef örlitla maríuerlan, sem ég vék að í upphafi, getur náð sínum markmiðum með mörg þúsund kílómetra flugi, hljóta  ykkur að vera allir vegir færir!  Ég vona að námið hafi gefið ykkur vængi og að þeir beri ykkur í rétta átt.

Ég þakka ykkur samfylgdina og vona að ykkur farnist öllum vel á þeirri vegferð sem þið eigið fyrir höndum.“