Skip to main content
30. maí 2017

Ofþyngd í barnæsku eykur hættu á þunglyndi

""

Þeir sem eru of þungir í barnæsku eiga mun fremur á hættu að glíma við þunglyndi en þeir sem verða of þungir á fullorðinsárum. Þetta sýna niðurstöður nýrrar rannsóknar vísindamanna í alþjóðlega verkefninu MooDFOOD en þær voru kynntar á European Congress on Obesity nýverið, en um er að ræða eina stærstu árlegu ráðstefnuna um offitu í Evrópu.

MooDFOOD-verkefnið (Multi-country collaborative project on the role of diet, food-related behaviour, and obesity in the prevention of depression) hefur staðið yfir frá árinu 2014  og að því koma fjórtán rannsóknahópar frá níu löndum, þar á meðal frá Háskóla Íslands. Markmið verkefnisins er að auka skilning á því hvort og þá með hvaða hætti næringarástand og fæðuvenjur tengjast offitu og þunglyndi.

Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor í næringarfræði og forstöðumaður Rannsóknastofu í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala, stýrir rannsókninni hér á landi. Það er jafnframt unnið í nánu samstarfi við Hjartavernd en gögn úr bæði Hóprannsókn og Öldrunarrannsókn (AGES) Hjartaverndar hafa verið nýtt við vinnuna ásamt gögnum sem starfsfólk Rannsóknastofu í næringarfræði hefur aflað.

Þrettán ára of feit börn fjórum sinnum líklegri til að glíma við þunglyndi 

Fyrri rannsóknir hafa sýnt að þeir sem glíma við offitu eru líklegri til þess að verða þunglyndir. Fáar rannsóknir hafa hins vegar beinst að því hvort ofþyngd í æsku auki líkur á þunglyndi síðar á lífsleiðinni. Rannsóknina, sem kynnt var á European Congress on Obesity, vann Deborah Gibson-Smith, doktorsnemi við Læknasetur Vrije-háskóla í Amterdam, í samstarfi við Rannsóknastofu í næringarfræði við Háskóla Íslands, en Deborah dvaldi hér á landi fyrr á árinu. 

Könnuð voru tengsl ofþyngdar í æsku og þunglyndis síðar á ævinni hjá nærri 900 einstaklingum sem tekið höfðu þátt í AGES-rannsókninni. Horft var til þyngdar og hæðar þátttakenda við átta ára, 13 ára, 50 ára og 75 ára aldur og kannað hvort þeir hefðu verið greindir með þunglyndi einhvern tíma á ævinni.

Rannsóknin leiddi í ljós að ofþyngd í barnæsku er mun meiri áhættuþáttur fyrir þunglyndi en það að verða of þungur/feitur fyrst á fullorðinsárum.  Þannig eru þeir sem eru of feitir við átta ára aldur þrisvar sinnum líklegri til þess að þróa með sér alvarlegt þunglyndi einhvern tíma á lífsleiðinni en þeir sem þyngjast á fullorðinsárum. Þá eru þeir sem eru of feitir við þrettán ára aldur fjórum sinnum líklegri til þess að þróa með sér meiri háttar þunglyndi en áðurnefndur samanburðarhópur. Sama gilti um þá sem glímdu við ofþyngd bæði í æsku og á fullorðinsárum. 

Aðstandendur rannsóknarinnar draga þá ályktun af rannsókninni að skýringar á tengslum ofþyngdar og þunglyndis sé m.a. að finna í þáttum sem tengjast æsku fólks en það þurfi að skoða nánar. Þeir benda enn fremur á að vegna aukinnar fjölgunar of feitra fullorðinna í heiminum og aukinna áhrifa samfélagsmiðla á líkamsímynd fólk sé afar mikilvægt að átta sig á tengslum offitu og ofþyngdar í æsku og þunglyndis enda hafi hvort tveggja mikil áhrif á lífsgæði fólks. 

Skoða einnig tengsl heildarmataræðis og hættu á þunglyndi

Sem fyrr segir kynnti Deborah Gibson-Smith rannsóknina á einni stærstu árlegu ráðstefnu um offitu í Evrópu fyrr í mánuðinum en þess má geta að henni var boðið að kynna rannsóknina sérstaklega á blaðamannafundi sem haldinn var í tengslum við ráðstefnuna. 

Við þetta má bæta að aðstandendur MooDFOOD hér á landi eru að ljúka rannsókn á tengslum heildarmataræðis frá unglingsárum til fullorðinsára og hættu á þunglyndi. Niðurstöðurnar verða kynntar síðar á þessu ári. Íslenski MooDFOOD-hópurinn hafði áður birt tvær vísindagreinar, sem benda til þess að hætta á þunglyndi og einkennum þunglyndis sé aukin ef styrkur D-vítamíns og omega-3 fitusýra í blóði er lágur. 

Frekari upplýsingar um MooDFOOD-verkefnið má finna á heimasíðu þess

Ingibjörg Gunnarsdóttir