Skip to main content
31. mars 2017

Öflugra samstarf við Greiningar- og ráðgjafarstöðina

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands (HÍ), og Soffía Lárusdóttir, forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins (GRR), undirrituðu á dögunum nýjan samning um aukið samstarf stofnananna. Það felur m.a. í sér möguleika fyrir nemendur Háskólans til verklegs náms hjá Greiningar- og ráðgjafarstöðinni og eflingu rannsókna sem tengjast greiningu og ráðgjöf fyrir börn með raskanir.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins annast greiningu barna og unglinga með alvarlega þroskaröskun, veitir faglega aðstoð og ráðgjöf til bæði barna, aðstandenda þeirra og samstarfsaðila vegna þessa og veitir börnum með óvenjuflókna eða sjaldgæfa fötlun langtímaeftirfylgd. Innan GRR eru jafnframt stundaðar rannsóknir sem tengjast hlutverki miðstöðvarinnar. 

Markmið hins nýja samnings milli HÍ og GRR eru m.a. að styrkja nýliðun fagfólks í starfi með fötluðum börnum og tryggja að báðir aðilar hafi greiðan og gagnkvæman aðgang að sérþekkingur hvorrar stofnunar fyrir sig. Þá er samningnum einnig ætlað að stuðla að framgangi vísindarannsókna í fagreinum innan félags- og heilbrigðisvísinda sem tengjast greiningu, ráðgjöf og úrræðum fyrir fötluð börn.

Samkvæmt  samningnum geta háskóladeildir eða einstaka kennarar innan Háskólans leitað til starfsmanna GRR um leiðsögn nemenda í verklegu námi eða kennslu innan skólans. Þá er ætlunin að skapa aðstöðu fyrir rannsóknartengt nám sem tengist starfssviði GRR. Starfsmenn stofnunarinnar munu enn fremur geta sótt endurmenntun innan HÍ og sótt um mat á hæfi til að gegna akademísku starfi við skólann. 

Samningurinn er til fimm ára og tekur við af fyrri samningi stofnananna. Sjö manna samstarfsnefnd hefur umsjón með framkvæmd samningsins.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands (HÍ), og Soffía Lárusdóttir, forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafarmiðstöðvar ríkisins (GRR)
Fulltrúar samningsaðila að lokinni undirritun í Háskóla Íslands.