Háskóli Íslands

Metaðsókn verður að Háskóla Íslands næsta vetur

Metaðsókn verður að Háskóla Íslands næsta vetur. Umsóknum um skólavist, bæði í grunnnám og framhaldsnám, hefur fjölgað um 20%. Kristín Ingólfsdóttir rektor sagði við útskrift kandídata í dag að þessi mikla aðsókn endurspeglaði það traust sem skólinn nyti hjá þjóðinni og þann árangur sem náðst hefði í uppbyggingu náms og rannsókna undanfarin ár. Vorbrautskráning kandídata frá Háskóla Íslands fór fram í Laugardalshöll í dag en þetta er stærsta brautskráning frá Háskóla Íslands frá upphafi. Vegna fjölda kandídata var brautskráningin í tvennu lagi. Heildarfjöldi kandídata sem brautskráðist í dag er 1.539. Skýringuna á fjölda kandídata er að finna í þeim mikla vexti sem verið hefur í Háskóla Íslands. Háskólinn stækkaði t.a.m. um fjórðung við sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands 1. júlí í fyrra og svo um 10% við inntöku nýnema um síðustu áramót. Í morgun brautskráðust kandídatar sem voru að ljúka framhaldsnámi að loknu grunnnámi, þ.e. diplóma- og viðbótarnámi á framhaldsstigi, meistaranámi og kandídatsnámi. Vorbrautskráning kandídata sem voru að ljúka grunnnámi, þ.e. BA, BS eða BEd námi frá Háskóla Íslands fór einnig fram í Laugardalshöll eftir hádegið. Kristín Ingólfsdóttir rektor rakti í ávarpi sínu til kandídata í dag að skólinn væri að ná öllum markmiðum sem sett hefðu verið í stefnu sem mótuð hefði verið fyrir tímabilið 2006 – 2011. Til dæmis væru horfur á að fjöldi úrskrifaðra doktora myndi fimmfaldast á þessum fimm árum eins og að var stefnt. Fjöldi brautskráðra doktora verður þá um helmingur þess sem gerist í löndum Evrópu, þar sem atvinnulífið knýr á um eflingu doktorsnáms vegna mikilvægis þess í nýsköpun og verðmætasköpun. Kristín nefndi glögg dæmi um áhrif doktorsverkefna við HÍ á atvinnuuppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Í Finnlandi, Svíþjóð og Þýskalandi útskrifast árlega um 100 doktorsnemar á hverja 330 þúsund íbúa. Norðmenn og Danir kosta kapps um að ná þessu sama marki, ekki síst vegna þrýstings frá atvinnulífinu. Kristín lagði áherslu á að þrátt fyrir að nú yrði að leita sparnaðar í menntakerfinu yrði ekki sóað þeim árangri sem náðst hefði á sviði mennta og rannsókna á undanförnum árum. Hún sagði jafnframt að við endurskoðun mennta- og vísindakerfis sem nú stendur yfir væri brýnt að hafa þrek til að velta við öllum steinum og sækja fram af dirfsku. „Við verðum að hafa vit til þess að hlúa að því sem best er gert og því sem skapar okkur sérstöðu og áþreifanlegan árangur. Ef við náum þannig að styrkja menntakerfið, og nýta það sem lið í að varða leiðina úr þrengingunum, komum við vel undirbúin til leiks þegar þessu samdráttarskeiði lýkur. Til þess verðum við að hugsa stórt, hafa heildarhagsmuni í huga og þor til að taka erfiðar ákvarðanir. Ef menntakerfið fellur hinsvegar í far meðalmennsku verðum við lengi að ná okkur á strik aftur.“
Laugardagur, 20. júní 2009 - 13:53
Þú ert að nota: drupalcl1.rhi.hi.is