Skip to main content
21. febrúar 2015

Leggja þarf stóraukna áherslu á stærðfræðimenntun

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, sagði við brautskráningu hátt í 480 kandídata í dag að mjög brýnt væri að auka áherslu á stærðfræðikennslu á öllum stigum íslenska skólakerfisins. Stærðfræði hefði orðið undirstöðugrein á vaxandi fjölda fræðasviða og í atvinnulífi.  Því þyrfti að auka áherslu á stærðfræði í kennaranámi og finna nýjar leiðir til að vekja áhuga barna og unglinga á stærðfræði.  Kristín sagði að þegar næsta haust muni Háskóli Íslands hrinda í framkvæmd breytingum á námi stærðfræðikennara í samstarfi Menntavísindasviðs og Verkfræði- og náttúruvísindasviðs.

Í ræðunni kom fram að unnið væri að því að gera nemendum skólans í öllum greinum fært að styrkja stærðfræðikunnáttu sína. Kristín sagði frá þróun innan skólans á nýjum hugbúnaði til vefstuddrar kennslu í stærðfræði og tölfræði.  Kerfið er þegar komið í notkun innan skólans og í nokkrum framhaldsskólum.  Það er opið öllum án endurgjalds bæði í skólakerfinu og atvinnulífinu þar sem er vaxandi þörf fyrir stærðfræðiþekkingu.

Kristín lagði áherslu á mikilvægi breiddar í starfi Háskóla Íslands. Það skapaði jarðveg fyrir frjóa þekkingarsköpun þegar saman kæmu hópar vísindamanna og stúdenta úr ólíkum greinum.  Slík samvinna ólíkra fræðigreina væri mikilvæg af tveimur ástæðum. Annars vegar til þess að fást við verkefni sem við okkur blasa í dag og hins vegar til að leggja grunn að úrvinnslu verkefna framtíðar og nýrri verðmætasköpun.

Gott dæmi um hið fyrrnefnda væri samvinna vísindamanna og doktorsnema úr mörgum greinum vegna eldgossins í Holuhrauni.  „Vísindamennirnir hafa náð framúrskarandi árangri í rannsóknum á alþjóðavísu en sinna af jafnmikilli alvöru samfélagslegum skyldum - samstarfi við stjórnvöld, Almannavarnir og lögreglu, ráðgjöf við íbúa í grennd gossins, miðlun til erlendra vísindamanna, miðlun til almennings gegnum netið og í fyrirlestrum og viðtölum við innlenda og erlenda fjölmiðla,“ sagði Kristín í ávarpi sínu í dag.

Kristín gerði enn fremur mikilvægi kennarastarfsins að sérstöku umræðuefni. Kennarar gegni einhverju mikilvægasta starfi í landinu og það sé afar brýnt að vekja áhuga ungs fólks á kennaranámi.  Hún benti á að kennarar þyrftu nú að fást við áhrif samfélagsbreytinga, svo sem breytt fjölskyldumynstur, fjölbreyttari samsetningu nemendahópa og afleiðingar tækni- og netbyltingar.  Kristín sagði að verið væri að hrinda í framkvæmd aðgerðaráætlun til að efla kennaranámið í heild. Getu nemenda hefði hrakað á vissum sviðum á borð við læsi og þekkingu í náttúrufræði og stærðfræði en á sama tíma hefði ungt fólk öðlast þekkingu á nýjum sviðum á borð við tölvutækni, þar sem foreldrar þeirra og kennarar stæðu þeim jafnvel að baki.

lagði áherslu á mikilvægi breiddar í starfi Háskóla Íslands. Það skapaði jarðveg fyrir frjóa þekkingarsköpun þegar saman kæmu hópar vísindamanna og stúdenta úr ólíkum greinum.
lagði áherslu á mikilvægi breiddar í starfi Háskóla Íslands. Það skapaði jarðveg fyrir frjóa þekkingarsköpun þegar saman kæmu hópar vísindamanna og stúdenta úr ólíkum greinum.