Skip to main content
20. júlí 2017

Hátt í þrjátíu styrkir til doktorsrannsókna

Doktorssjóðir Háskóla Íslands veittu á vormánuðum 29 styrki til rannsókna doktorsnema við skólann. Rannsóknarverkefnin ná yfir afar fjölbreytt fræðasvið, allt frá kortlagningu jarðskjálftahreyfinga í þéttbýli á Íslandi til rannsókna á Króka-Refs sögu.

Umsóknir um doktorsstyrki þetta árið reyndust 146 en unnt var að styrkja 29 þeirra sem fyrr segir. Rannsóknasjóður Háskóla Íslands veitti 20 styrki og Háskólasjóður Eimskipafélags Íslands veitti níu.

Rannsóknirnar sem styrktar voru tengjast afar fjölbreyttum fræðasviðum innan skólans, félagsráðgjöf, fötlunarfræði, kynjafræði, matvælafræði, næringarfræði, lífvísindum, íslenskum bókmenntum og málfræði, sagnfræði, fornleifafræði, heimspeki, íþrótta- og heilsufræði, uppeldis- og menntunarfræði, fjölmenningu, vélaverkfræði, jarðeðlisfræði, líffræði, efnafræði, eðlisfræði, rafmagns- og tölvuverkfræði, stærðfræði og umhverfis- og byggingarverkfræði.

Rannsóknirnar snerta m.a. lífsgæði og þátttöku fatlaðra barna og unglinga, fæðingarorlof og fjölskyldugerð, vinnslu bragðefna úr íslensku þangi, áhrif næringardrykkja á lífsgæði sjúklinga með langvinna lungnaþembu, ævintýri í íslenskum fornbókmenntum, áhrif eldvirkni á heilsufar Íslendinga á sögulegum tíma, tengsl svefns og námsárangurs hjá ungum Íslendingum, náms- og kennsluhætti í framhaldsskólum, kortlagningu jarðskjálftahreyfinga í þéttbýli hér á landi, reiknilíkönum fyrir lyfjalosun úr augnlinsum og gerviaugasteinum og áhrifum skyldleikaæxlunar og stofnstærðar á haförninn á Íslandi.

Háskólasjóður H/f Eimskipafélags Íslands og Rannsóknasjóður Háskóla Íslands hafa á undanförnum árum stutt dyggilega við doktorsnám við Háskóla Íslands og átt mikinn þátt í eflingu þess og um leið háskólans sem rannsóknastofnunar.

Háskólasjóður H/f Eimskipafélags Íslands á sér langa sögu en hann var stofnaður sjöunda áratug síðustu aldar. Stofnfé sjóðsins var hlutabréfaeign Vestur-Íslendinga í Eimskipafélaginu en þeir vildu með gjöfinni stuðla að velgengni Háskóla Íslands og styrkja efnilega stúdenta til náms við skólann og um leið minnast þátttöku Vestur-Íslendinga í stofnun Eimskipafélagsins. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum í núverandi mynd fór fram fyrir rúmum áratug og frá þeim tíma hafa yfir 130 doktorsnemar notið styrks úr sjóðnum.

Rannsóknasjóður Háskóla Íslands hefur verið starfræktur í um 35 ár en hefur í tæpan áratug úthlutað styrkjum til doktorsnema og leiðbeinenda þeirra með það fyrir augum að efla doktorsnám við Háskóla Íslands. Óhætt er að segja að það hafi tekist því fjöldi brautskráðra doktora frá skólanum hefur vaxið hröðum skrefum á undanförnum árum. Alls hafa á þriðja hundrað doktorsnemar fengið úthlutað úr Rannsóknasjóðnum frá upphafi.

Nánari upplýsingar um doktorsverkefnin sem fengu styrk að þessu sinni er að finna á vef styrktarsjóða Háskóla Íslands