Skip to main content
6. júní 2016

Háskólastarfi á Íslandi stefnt í voða

""

Á fundi sínum 2. júní sl. samþykkti háskólaráð Háskóla Íslands eftirfarandi ályktun einróma:

„Háskólaráð Háskóla Íslands lýsir miklum vonbrigðum með að háskólar verði skildir eftir í þeirri sókn til uppbyggingar innviða íslensks samfélags sem fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2017-2021 felur í sér. Þar er gert ráð fyrir verulegri heildarútgjaldaaukningu en það sama á engan veginn við um fjárveitingar til háskóla- og rannsóknastarfs.

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er að finna eftirfarandi um Háskóla Íslands: „Fylgt verður ákvæðum samnings um Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands sem komið var á fót árið 2011 í víðtækri sátt.“ Aldarafmælissjóður hefur það meginmarkmið að tekjur Háskóla Íslands verði sambærilegar við tekjur háskóla á öðrum Norðurlöndum.

Ítrekað hefur réttilega komið fram í orðum mennta- og menningarmálaráðherra að háskólastigið á Íslandi sé verulega vanfjármagnað. Þetta staðfestir samanburður við háskóla á Norðurlöndum og skýrslur OECD um fjármögnun háskólanáms með óyggjandi hætti. 

Í samþykktri stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs, sem lýtur formennsku forsætisráðherra og þar sem sex aðrir ráðherrar eiga sæti, segir að framlag á hvern háskólanema skuli vera sambærilegt við það sem gerist á Norðurlöndum árið 2020. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2017-2021 er ekkert sem styður við þessa samþykkt, nema ætlunin sé að fækka nemendum sem eiga kost á háskólanámi hérlendis um mörg þúsund og halda fjárveitingum óbreyttum og/eða hefja almenna töku skólagjalda. Ef ætlunin er að fara þessa leið er það meiri háttar stefnubreyting sem hlýtur að kalla á upplýsta umræðu um möguleika nemenda til háskólanáms hérlendis og þarfir íslensks atvinnulífs og samfélags á 21. öld. Slík umræða hefur ekki farið fram.

Í fjárhagsáætlun Háskóla Íslands sem staðfest var af mennta- og menningarmálaráðuneytinu í febrúar sl. er gert ráð fyrir 300 m.kr. rekstrarhalla á yfirstandandi ári. Því er ljóst að starfsemi Háskólans hvílir á mjög veikum fjárhagslegum grunni og er henni stefnt í bráða hættu nema til komi auknar fjárveitingar. Á þetta var bent í vandaðri matsskýrslu um Háskólann sem alþjóðlegur sérfræðingahópur á vegum Gæðaráðs háskóla sendi frá sér sl. vor. Þessi staðreynd er stjórnvöldum kunn.

Fyrir skömmu var gert opinbert að Háskóli Íslands er nú í 222. sæti á hinum virta matslista Times Higher Education World University Ranking yfir fremstu háskóla heims og í 13. sæti meðal háskóla á Norðurlöndum. Þessum árangri hefur verið náð með faglegum metnaði og þrotlausu framlagi starfsmanna og stúdenta. Árangur Háskólans hefur vakið verðskuldaða athygli á erlendri grund og opnað honum ómetanleg tækifæri til samstarfs. 

Viðurkennt er um allan heim að menntun er lykill að velsæld þjóða og rannsóknir eru drifkraftur framfara. Með þetta að leiðarljósi hefur Háskóli Íslands nýlega markað sér framsækna og metnaðarfulla stefnu fyrir tímabilið 2016-2021 undir kjörorðunum „Öflugur háskóli – farsælt samfélag“. Meðal áherslna stefnunnar er framsækin sýn á nám og kennslu sem býr nemendur undir þátttöku í atvinnu- og þjóðlífi og þekkingarsköpun þar sem tekist er á við áskoranir samtímans. Í ljósi þessa er fyrirliggjandi tillaga að fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar ekki einungis vonbrigði heldur mun hún, verði hún samþykkt óbreytt, hafa verulega neikvæð áhrif á tækifæri nemenda til háskólanáms, vísindastarf, framþróun í atvinnusköpun og samkeppnisstöðu Íslands til framtíðar.

Háskólaráð Háskóla Íslands skorar á ríkisstjórnina og Alþingi að endurskoða fimm ára fjármálaáætlun sína fyrir árin 2017-2021 í ljósi þessa.“

Aðalbygging Háskóla Íslands
Aðalbygging Háskóla Íslands