Skip to main content
13. maí 2015

Háskólalestin á RÚV í kvöld

Í kvöld verður sýndur á RÚV afar frísklegur sjónvarpsþáttur fyrir alla fjölskylduna um verðlaunaverkefnið Háskólalestina. Þetta skemmtilega verkefni Háskóla Íslands hlaut vísindamiðlunarverðlaun Rannís árið 2012. Í þættinum í kvöld er slegist í för með Háskólalestinni á áfangastaði hennar síðastliðið sumar. Spjallað er við afar hressa nemendur í Háskólalestinni og gesti í vísindaveislu hennar á Hólmavík, á Snæfellsnesi og í Vestmannaeyjum.

Þátturinn er fullur af fjöri og fræðum en áhorfendur fá t.d. að kynnast Sprengjugengi Háskóla Íslands að störfum, sem hlaut einmitt vísindamiðlunarverðlaun Rannís árið 2013. Sprengjugengið er afar öflugt teymi efnafræðinema sem kynnir vísindin með lífi og látum.

Þá fá áhorfendur innsýn í hið magnaða sköpunarverk Bjarkar Guðmundsdóttur, Biophiliu, en kennsluverkefni sem á því byggir hlaut Evrópuverðlaun í vísindamiðlun árið 2012. Kennsluverkefnið er unnið í samstarfi Bjarkar, Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar. Biophilia er heildstætt listaverk með tónlist og textum sem skírskota til náttúruvísinda og fylgir sérstakt app hverju lagi sem gefur færi á að skynja tónlistina og vísindin á algerlega nýjan hátt.

Þá verður kíkt í tíma í lestinni í eðlisfræði, japönsku, efnafræði, vísindaheimspeki og stjörnufræði en allt þetta er skoðað í nýju ljósi. 

Háskólalestin hefur haldið á meira en tuttugu staði um land allt frá aldarafmæli Háskóla Íslands árið 2011. Tímamótunum var þá m.a. fagnað með því að ýta lestinni af stað og ferðaðist hún þá um landið og heimsótti fjölmarga staði við miklar vinsældir. Lestin hefur síðan haldið í ferðir árlega þar sem áhersla er lögð á lifandi vísindamiðlun til fólks á öllum aldri með fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna.

Í Háskólalestinni eru fjölþættir vísindaviðburðir þar sem margir leggjast á eitt við að uppfræða þátttakendur og skemmta þeim í leiðinni og draga með því mikilvægi rannsókna og nýsköpunar fram í dagsljósið. Í lestinni eru m.a. vísindamenn Háskóla Íslands, kennarar og framhaldsnemendur.

Dagskrárgerð er í höndum Jóns Arnar Guðbjartssonar og Björns Gíslasonar, sem báðir starfa á markaðs- og samskiptasviði Háskóla Íslands, og Konráðs Gylfasonar kvikmyndagerðarmanns.

Sjón er sögu ríkari. Ekki missa af þessum frísklega þætti sem hefur undur vísindanna í háskerpu.

Í kvöld klukkan 19:55 á RÚV.

Í Háskólalestinni er lögð áhersla á lifandi vísindamiðlun til fólks á öllum aldri með fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna.
Sprengjugengið er afar öflugt teymi efnafræðinema sem kynnir vísindin með lífi og látum og gengið hefur ferðast með lestinni um landið.
Í þættinum fá áhorfendur  innsýn í hið magnaða sköpunarverk Bjarkar Guðmundsdóttur, Biophiliu, en kennsluverkefni sem á því byggir hlaut Evrópuverðlaun í vísindamiðlun árið 2012. Kennsluverkefnið er unnið í samstarfi Bjarkar, Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar. Curver Thoroddsen fjöllistamaður hefur m.a. komið að miðluninni í Háskólalestinni.
Háskólalestin fer líka inn í grunnskóla á þeim stöðum sem sóttir eru heim og býður upp á valin námskeið úr Háskóla unga fólksins fyrir elstu grunnskólanemana.
Í Háskólalestinni er lögð áhersla á lifandi vísindamiðlun til fólks á öllum aldri með fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna.
Sprengjugengið er afar öflugt teymi efnafræðinema sem kynnir vísindin með lífi og látum og gengið hefur ferðast með lestinni um landið.
Í þættinum fá áhorfendur  innsýn í hið magnaða sköpunarverk Bjarkar Guðmundsdóttur, Biophiliu, en kennsluverkefni sem á því byggir hlaut Evrópuverðlaun í vísindamiðlun árið 2012. Kennsluverkefnið er unnið í samstarfi Bjarkar, Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar. Curver Thoroddsen fjöllistamaður hefur m.a. komið að miðluninni í Háskólalestinni.
Háskólalestin fer líka inn í grunnskóla á þeim stöðum sem sóttir eru heim og býður upp á valin námskeið úr Háskóla unga fólksins fyrir elstu grunnskólanemana.