Skip to main content
1. september 2015

Fyrsti prófessor í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands

„Ég er mjög ánægð með nýju stöðuna, því framgangur endurspeglar ákveðna vinnu og velgengni á sviði rannsókna og kennslu,“ segir Kristín Briem sem fékk framgang í stöðu prófessors í sjúkraþjálfun við Læknadeild Háskóla Íslands þann 1. júlí síðastliðinn. Kristín er fyrst til að gegna stöðu prófessors í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands en námsbraut í sjúkraþjálfun var stofnuð við Læknadeild haustið 1976.

Kristín hefur starfað sem sjúkraþjálfari bæði hér á landi og í Bandaríkjunum. Hún lauk námi í sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands árið 1992 og meistaraprófi í bæklunarsjúkraþjálfun frá St. Augustine háskólanum í Bandaríkjunum árið 2002. Síðar lauk hún doktorsnámi í lífaflfræði og hreyfivísindum við Delaware háskóla í Bandaríkjunum þar sem hún starfaði samhliða á kennsluklínik skólans sem sjúkraþjálfari og klíniskur kennari. Kristín hóf störf við Háskóla Íslands árið 2008 og hefur tekið virkan þátt í starfi námsbrautar í sjúkraþjálfun innan skólans. Hún hefur jafnframt birt fjölda vísindagreina í innlend og erlend fræðitímarit.

Heilluð af stærðfræði og mannslíkamanum

„Þegar ég var unglingur sá ég fyrir mér að vinna við stærðfræði í einhverri mynd, en heillaðist svo af mannslíkamanum og þeim þáttum sem knýja hreyfingu milli líkamshluta eða hamla henni. Eftir að ég útskrifaðist tók ég að starfa sem sjúkraþjálfari en þrátt fyrir aukna klíníska reynslu vöknuðu ýmsar spurningar og aukinn áhugi á rannsóknum. Þannig hlaut námsferillinn að halda áfram í rannsóknartengdu framhaldsnámi á sviði bæklunar og hreyfivísinda/lífaflfræði, þar sem ég fann stærðfræðina aftur,“ segir Kristín um námsvalið en helstu rannsóknarsvið hennar eru hreyfivísindi og notkun þrívíddarhreyfigreiningar. Margar rannsóknir hennar hafa einblínt á hnén í tengslum við áverka, forvarnir, endurhæfingu og slitgigt.

Hún segir að hlutverk sjúkraþjálfara sé í sífelldri þróun sem helst í hendur við aðra samfélagsþróun. „Segja má að markmið sjúkraþjálfara, óháð starfsvettvangi, sé að heilsuefling, forvarnir, greining og meðferð leiði til sem bestrar færni skjólstæðings til að hreyfa og athafna sig. Slíkt hefur jákvæð áhrif á möguleika viðkomandi til virkrar þátttöku í samfélaginu og á lífsgæði.“ Aðspurð hvort að hlutverk sjúkraþjálfara eigi eftir að breytast í framtíðinni svarar hún: „Það sem virðist aðkallandi í dag er að efla starfsvettvang sjúkraþjálfara innan heilsugæslunnar, þ.e. að veita t.d. beinan aðgang að þjónustu sjúkraþjálfara þegar fólk leitar til heilsugæslunnar vegna stoðkerfiskvilla,“ en ætla má að þúsundir einstaklinga hér á landi glími við stoðkerfisvandamál af ýmsum toga.

Valskona sem grípur í harmónikku við og við

Eiginmaður Kristínar er Björn Malmquist fréttamaður sem er nú í ársleyfi við störf í Kabúl á vegum Íslensku friðargæslunnar. Þau eiga tvö börn, Finn Helga 17 ára sem er við skiptinám í Japan og Eddu Katrínu 16 ára nema við Menntaskólann í Hamrahlíð. Kristín nýtur þess að vera með sínum nánustu og gjarnan tengist slík samvera útivist og öðrum gleðistundum. „Þá á ég það til að grípa í nikkuna ef einhver nennir að syngja en ég er einmitt í gömlum vinahópi Valskvenna sem hefur ofurtrú á eigin ágæti hvað varðar skemmtun og söng. Einnig starfa ég ásamt góðum kjarna foreldra í Barna- og unglingaráði íþróttafélagsins í okkar hverfi,“ segir hinn nýskipaði prófessor að lokum.

Í tilefni af framgangi Kristínar verður hún með kynningarfyrirlestur fimmtudaginn 5. nóvember kl. 15 í Læknagarði, Vatnsmýrarvegi 16. Nánari upplýsingar um viðburðinn. 

 

Mynd af Kristínu Briem
Mynd af Kristínu Briem