Skip to main content
26. janúar 2016

Fuglafár hlaut Nýsköpunarverðlaun forsetans

""

Verkefnið „Þekkirðu fuglinn? Rannsókn á fuglafræðiþekkingu barna og þróun og gerð spils sem gerir þeim kleift að læra í gegnum leik“ hlaut Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands sem afhent voru við hátíðlega athöfn á Bessastöðum fyrr í dag. Verkefnið er hugarsmíð Birgittu Steingrímsdóttur, líffræðinema við Háskóla Íslands, og Heiðdísar Ingu Hilmarsdóttur, vöruhönnunarnema við Listaháskóla Íslands. 

Verkefnið unnu Birgitta og Heiðdís Inga fyrir tilstilli Nýsköpunarsjóðs námsmanna sumarið 2015 og var það eitt fjögurra verkefna sem tilefnd voru til nýsköpunarverðlaunanna, en nemendur við Háskóla Íslands koma að öllum fjórum verkefnunum.

Viðfangsefni verðlaunaverkefnisins voru af tvennum toga; rannsókn á þekkingu barna á íslenskum fuglum og í framhaldi af því hönnun og gerð spils um fuglana sem kennarar geta nýtt sem námsgagn í náttúrufræði.

„Hugmyndin að spilinu kviknaði þegar við Heiðdís áttuðum okkur á því hversu lítið við vissum í raun um fugla þrátt fyrir að þeir séu mjög áberandi í daglegu umhverfi okkar. Við fórum því að ræða hversu mikilvægt það væri að hefja kennslu um fugla strax á yngstu skólastigunum til að kveikja áhuga hjá börnum,“ segir Birgitta viðtali í Tímariti Háskóla Íslands 2016 sem kemur út nú í febrúar.

Í upphafi síðasta sumars lögðu Birgitta og Heiðdís könnun fyrir tæplega 400 nemendur í 4. bekk á höfuðborgarsvæðinu þar sem athugað var hvort þeir þekktu algengustu og mest einkennandi fugla í náttúru Íslands. Einnig voru kennsluhættir í fuglafræði skoðaðir. Í framhaldi af því tók við hönnun og gerð spilsins Fuglafár sem hefur það að markmiði að hjálpa börnum að þekkja útlit fuglanna og nöfn þeirra. Auk þess fá börnin ýmsar upplýsingar um þá, svo sem þyngd og lengd, fjölda eggja í hreiðri og hvaða ættbálkum þeir tilheyra ásamt skemmtilegum texta um hvern fugl.

Markmið verkefnisins er að stuðla að bættri þekkingu grunnskólabarna á íslenskum fuglum með því að koma fram með nýstárlegar kennsluaðferðir sem auka fræðslu í gegnum leik. Samhliða því að kveikja áhuga barna á fuglunum er vonin sú að Fuglafár stuðli að enn frekari áhuga þeirra á náttúru Íslands og auki skilning á mikilvægi hennar. Spilið hefur verið í prófun í grunnskólum í vetur og fengið góðar undirtektir. Næstu skref eru að hefja framleiðslu og munu umsagnir kennara og nemenda nýtast til betrumbóta svo að spilið verði að enn betra kennslutæki.

Birgitta og Heiðdís Inga unnu verkefnið undir leiðsögn Gunnars Þórs Hallgrímssonar, dósents í dýrafræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, Kristrúnar Thors, sjálfstætt starfandi vöruhönnuðar og stundakennara við Listaháskóla Íslands, og Valgerðar Þórisdóttur, grunnskólakennara í Selásskóla.

Verðlaunin í ár eru púðar úr vörulínunni Notknot eftir Ragnheiði Ösp Sigurðardóttur vöruhönnuð sem framleiðir undir nafninu Umemi. Aðstandendur allra verkefnanna sem tilnefnd voru sem öndvegisverkefni fengu viðurkenningarskjal undirritað af forsetanum.

Háskóli Íslands óskar þeim Birgittu og Heiðdísi Ingu og leiðbeinendum þeirra innilega til hamingju með verðlaunin og sendir sömuleiðis aðstandendum hinna verkefnanna þriggja hamingjuóskir með glæsileg verkefni.

Um Nýsköpunarverðlaunin

Stjórn Nýsköpunarsjóðs námsmanna velur árlega um 10-15 verkefni sem unnin eru á árinu sem úrvalsverkefni. Af þeim eru svo 4-6 verkefni valin sem öndvegisverkefni og hljóta þau tilnefningu til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands.

Þess má geta að Nýsköpunarsjóður námsmanna auglýsir um þessar mundir eftir umsóknum um styrki til rannsóknarvinnu háskólanema fyrir komandi sumar. Umsóknarfrestur er til 10. febrúar kl. 16.

Heiðdís Inga Hilmarsdóttir og Birgitta Steingrímsdóttir
Brynja Þóra Guðnadóttir, Grétar Guðmundsson, Einar Lövdahl Gunnlaugsson, Shauna Laurel Jones, Guðbjörg Runólfsdóttir, Heiðdís Inga Hilmarsdóttir og Birgitta Steingrímsdóttir.
Heiðdís Inga Hilmarsdóttir og Birgitta Steingrímsdóttir og Ólafur Ragnar Grímsson.
Heiðdís Inga Hilmarsdóttir og Birgitta Steingrímsdóttir
Brynja Þóra Guðnadóttir, Grétar Guðmundsson, Einar Lövdahl Gunnlaugsson, Shauna Laurel Jones, Guðbjörg Runólfsdóttir, Heiðdís Inga Hilmarsdóttir og Birgitta Steingrímsdóttir.
Heiðdís Inga Hilmarsdóttir og Birgitta Steingrímsdóttir og Ólafur Ragnar Grímsson.