Skip to main content
12. janúar 2016

Sumarvinna fyrir nemendur við sjálfstæðar rannsóknir

""

Nýsköpunarsjóður námsmanna auglýsir eftir umsóknum um styrki til rannsóknarvinnu háskólanema sumarið 2016. Umsóknarfrestur er til 10. febrúar kl. 16.

Markmið Nýsköpunarsjóðs námsmanna er að gefa háskólum, rannsóknarstofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða háskólanema í grunn- og meistaranámi í sumarvinnu við rannsóknar- og þróunarverkefni.

Styrkir verða veittir til rannsóknar- og þróunarverkefna sem líkleg þykja til að stuðla að nýsköpun og auknum tengslum háskóla, stofnana og fyrirtækja. Umsóknir um styrki eru metnar með hliðsjón af möguleikum til hagnýtingar í atvinnulífi og nýnæmi fyrir þekkingu í viðkomandi fræðigrein. Verkefnin skulu leyst af hendi með sjálfstæðri og faglegri vinnu námsmanns undir leiðsögn ábyrgðarmanna. Styrkir eru ekki veittir til lokaverkefna námsmanna.

Bæði háskólanemar í grunn- og meistaranámi og sérfræðingar innan fyrirtækja, stofnana og háskóla, sem óska eftir að ráða háskólanema í sumarvinnu við rannsóknir, geta sótt um styrki í Nýsköpunarsjóð námsmanna.

Þess má geta að fimm verkefni, sem unnin eru á vegum Nýsköpunarsjóðs námsmanna, eru ár hvert tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Í fyrra hlaut Benedikt Atli Jónsson, þá BS-nemi í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands, verðlaunin fyrir verkefnið „Sjálfvirkt gæðamat augnbotnamynda“ sem hann vann fyrir tilstyrk Nýsköpunarsjóðs námsmanna sumarið 2014. 

Nánari upplýsingar um Nýsköpunarsjóð námsmanna og rafræn umsóknareyðublöð er að finna á heimasíðu Rannís. Þar er jafnframt að finna reglur og leiðbeiningar varðandi sjóðinn.

Frekari upplýsingar veitir Ægir Þór Þórsson, aegir.thor.thorsson@rannis.is, sími 515 5819.

Nemendur við Odda
Nemendur við Odda