Skip to main content
14. júní 2016

Fögnuðu nýju tímariti og nýjum farvegi

Fögnuðu nýju tímariti og nýjum farvegi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Útgáfu nýs Tímarits um uppeldi og menntun var fagnað á Menntavísindasviði Háskóla Íslands í dag að viðstöddu fjölmenni. Tímaritið er byggt á grunni tveggja eldri tímarita; Uppeldis og menntunar sem Menntavísindasvið Háskóla Íslands gaf út og Tímarits um menntarannsóknir, sem gefið var út af Félagi um menntarannsóknir. Við sama tilefni var formlega tekið í notkun móttökukerfið „Open Journal System“ þar sem höfundar geta sent inn handrit til ritrýningar. 

Ritstjórar tímaritsins eru tveir, Hermína Gunnþórsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Háskóla Íslands. Í ritnefnd sitja þrír fulltrúar frá Menntavísindasviði og tveir frá Félagi um menntarannsóknir og er hlutverk hennar að vera ráðgefandi og setja tímaritinu ritstjórnarstefnu. Ritnefndina skipa: Erlingur S. Jóhannsson, prófessor við Háskóla Íslands, Freyja Birgisdóttir, dósent við Háskóla Íslands, Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, Helga Rut Guðmundsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, og Ólafur Páll Jónsson, prófessor við Háskóla Íslands.

Í fyrsta tölublaði tímaritsins eru sjö ritrýndar fræðigreinar um ólík efni í menntavísindum eftir þrettán höfunda, auk tveggja ritdóma. Meðal umfjöllunarefna eru skilnaðarbörn, afburðanemendur, saga náms- og starfsráðgjafa á Íslandi og mismunandi gengi nemenda í PISA í stærðfræði eftir stærð skóla.

Áformað er að tímaritið komi út í rafrænu formi tvisvar á ári og verður hvort hefti um sig prentað og sent áskrifendum. Auk þess verður ritið í boði í lausasölu.

Myndir frá viðburðinum

Ritstjórar Tímarits um uppeldi og menntun ásamt fulltrúum ritnefndar. Frá vinstri: Hermína Gunnþórsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Háskóla Íslands, Ólafur Páll Jónsson, prófessor við Háskóla Íslands og Helga Rut Guðmundsdóttir, dósent við Háskóla Íslands.
""