Skip to main content
31. maí 2016

Ein merkasta vísindakona heims á leið til landsins

""

„Jane Goodall er fyrirmynd þegar kemur af því hvernig vísindamenn geta haft samfélagsleg áhrif. Koma hennar til landsins og sú dagskrá sem hún stendur fyrir mun veita vísindasamfélaginu innblástur um hvernig við getum nýtt þekkingu okkar til að hafa áhrif á samfélagið í heild,“ segir Bryndís Marteinsdóttir, nýdoktor við Líffræðistofu Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands, um eina merkustu og ástsælustu vísindakonu heims sem heimsækir Ísland dagana 12.-16. júní. Goodall heldur m.a. erindi í Háskólabíói 15. júní kl. 17 sem opið er öllum.

Fjölbreyttur hópur skipuleggur komu Goodall til landsins, þar á meðal Alþjóðamálastofnun, Líffræðistofa, Stofnun Sæmundar fróða og umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands. Auk aðila innan Háskóla Íslands koma Landgræðsluskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna, Landvernd, Líffræðifélag Íslands, Vakandi og áhugafólk um dýravernd að heimsókninni. 

Rannveig Magnúsdóttir. MYND/Kristinn Ingvarsson

„Það hafa margir lagt hönd á plóg við að undirbúa heimsókn Jane Goodall til Íslands og hana hefur lengi langað til að koma hingað,“ segir Rannveig Magnúsdóttir, verkefnisstjóri hjá Landvernd og doktor í líffræði frá Háskóla Íslands. Sjálf hlýddi hún fyrst á Goodall flytja erindi á viðburði í London í desember 2010. „Erindi Jane hafði mikil áhrif á mig og þegar ég flutti aftur til Íslands nokkrum vikum síðar var eitt af því fyrsta sem ég gerði að stofna Roots & Shoots útibú við Háskóla Íslands en Goodall stofnaði þá hreyfingu til þess að virkja ungmenni í baráttunni fyrir umhverfisvernd.  Verkefnið hefur farið hægt af stað en það varð þó til þess að aðilar frá Jane Goodall Institute höfðu samband við mig í ársbyrjun 2014. Í kjölfarið stofnaði ég undirbúningshóp fyrir komu hennar en við fengum byr undir báða vængi þegar Sigurður Baldvin Sigurðsson, sem er persónulegur vinur Jane, bættist í hópinn í lok árs 2015,“ segir Rannveig enn fremur um aðdraganda heimsóknarinnar.

Brautryðjandi í rannsóknum á simpönsum

Jane Goodall vakti fyrst athygli fyrir brautryðjendarannsóknir sínar á simpönsum en þær hófust seint á sjötta áratug síðustu aldar. „Rannsóknir Goodall afmáðu eldri línur milli manns og apa. Hún uppgötvaði margs konar einkenni meðal simpansa sem áður höfðu verið eignuð mönnum, eins og skipulagshæfileika, samúð, samhjálp, gleðidansa og kennslu. Rannsóknir hennar í Gomba-þjóðgarðinum sýndu einnig að simpansar geta smíðað og notað verkfæri og að þeir veiða sér kjöt til matar,“ segir Bryndís um vísindaafrek Goodall. 

MYND/Michael Neugebauer 

„Aðferðir hennar þóttu byltingakenndar og vöktu takmarkaða hrifningu vísindasamfélagsins. Einkum þótti það ekki við hæfi að hún skyldi gefa dýrunum nafn í stað númers og að hún hefði fylgst með þeim og litið á þau sem skynsamar tilfinningaverur með eigin persónuleika. En henni tókst að fara sínu fram, þrátt fyrir mótlætið, og hún var sæmd doktorsgráðu fyrir störf sín án þess að hafa áður stundað nám í háskóla,“ bætir Rannveig við.

Stærsta nafnið í náttúruvernd í heiminum

Goodall hefur látið mikið til sín taka í baráttunni fyrir verndun og velferð dýra og jarðarinnar allrar, m.a. í gegnum Stofnun Jane Goodall (The Jane Goodall Institute). Þá er hún einnig friðarfulltrúi Sameinuðu þjóðanna og heldur fyrirlestra um allan heim þar sem hún leggur höfuðáherslu á umhverfisvernd. Aðspurð um framlag Goodall til dýra- og náttúruverndarbaráttunnar bendir Bryndís á að Goodall hafi við rannsóknir sínar á simpönsum horft upp á skógareyðingu allt í kringum Gomba-þjóðgarðinn og áttað sig á því að eina leiðin fyrir vísindamenn til að bjarga þeim lífverum sem þeim er annt um væri að vera virkur í samfélagslegri umræðu, nokkurs konar rödd náttúrunnar. 

Bryndís Marteinsdóttir. MYND/Kristinn Ingvarsson

„Á seinustu árum hefur Jane Goddall unnið þrautlausa vinnu við að vekja athygli á dýra- og náttúruverndarmálum. Hún er 82 ára en ferðast um heiminn og heldur fyrirlestra og samkomur til að kynna málstaðinn. Í heimsóknum sínum tekst henni að vekja fólk til umhugsunar og virkja það í baráttunni. Að mínu mati er þessi innblástur sem hún veitir fólki merkasta framlag Goodall til dýra- og náttúrverndarbaráttunnar,“ segir Bryndís. 

Rannveig segir það hafa gríðarmikla þýðingu fyrir frjáls félagasamtök eins og Landvernd, sem starfar að umhverfismálum, að fá Goodall hingað til lands. „Jane Goodall er eitt stærsta nafnið í náttúruvernd í heiminum og við teljum að koma hennar til landsins muni hafa mikil áhrif á fólk og jákvæð áhrif á náttúruvernd á Íslandi. Jane hefur orðið táknmynd fyrir góða umgengni við Jörðina, hvort sem er í gegnum sjálfbæra landnýtingu, dýravernd eða baráttu gegn loftslagsbreytingum. Það er því öllum hollt að taka skilaboð hennar til sín og við hjá Landvernd munum breiða boðskap hennar sem víðast,“ segir Rannveig enn fremur.

Virkjar ungmenni í náttúruvernd

Goodall leggur sérstaka áherslu á að ná til ungu kynslóðarinnar í náttúruverndarbaráttunni og stofnaði m.a. áðurnefnda Roots & Shoots hreyfingu í þeim tilgangi. Hreyfingin nær til 150 þúsunda ungmenna í yfir 140 löndum og eflir þau og virkjar til að leggja sitt af mörkum við verndun jarðarinnar. 

Hér á landi mun Goodall hitta börn og ungmenni í þessum tilgangi. Fyrir framhaldsnemendur við Háskóla Íslands og Landgræðsluskóla Sameinuðu Þjóðanna er í boði svonefndur „Master class“ með Goodall þar sem meginuppistaðan eru umræður milli nemenda og hennar.  „Áhugasöm börn sem vilja hitta Jane í eigin persónu geta sótt um í Háskóla unga fólksins, sem haldinn verður dagana 13.-16. júní, því þar verður námskeið helgað henni. Að auki munu börn á sumarnámskeiði Náttúrufræðistofu Kópavogs fá tækifæri til að hitta hana,“ bendir Rannveig á.

MYND/Chris Dickinson 

Sama á við um börn sem taka þátt í Grænfánaverkefni Landverndar. Um er að ræða alþjóðlegt verkefni sem hefur það að markmiði að auka umhverfismennt og styrkja menntun til sjálfbærni í skólum. „Þrír grænfánaskólar á Suðurlandi; Grunnskólinn Hellu, Hvolsskóli og Þjórsárskóli, hafa undanfarin ár unnið að landgræðsluverkefni sem kallast Vistheimtarverkefni Landverndar sem kynnt verður fyrir Jane Goodall þegar hún kemur til landsins. Það má því segja að þetta verkefni sé það fyrsta formlega á Íslandi sem unnið er í nafni Jane Goodall og Roots & Shoots. Þar sem Roots & Shoots er hugsað fyrir fleiri en skólahópa, til dæmis vinahópa, nágranna og fleiri, þá gæti verið vænlegast að stofnað yrði Roots & Shoots útibú á Íslandi sem Landvernd og Grænfánaskólarnir gætu verið í nánu samstarfi við,“ segir Rannveig um áhuga Landverndar á koma á fót öflugri Roots & Shoots hreyfingu hér á landi.

Einn eftirsóttasti fyrirlesari heims

Ljóst má vera af orðum Bryndísar og Rannveigar að hér er á ferðinni kona sem enginn ætti að missa. „Ég hvet alla til að mæta og hlýða á þessa stórmerkilegu konu ræða um áskoranir í náttúruvernd þann 15. júní kl. 17 í Háskólabíói. Þetta tækifæri gefst bara einu sinni,“ segir Bryndís.

MYND/Chase Pickering

„Þrátt fyrir að vera komin yfir áttrætt geislar Jane af orku og ástríðu fyrir náttúrunni og er með húmorinn í lagi. Það er engin tilviljun að hún sé einn eftirsóttasti fyrirlesari í heiminum sem ferðast um 300 daga á ári til að ræða við fólk um umhverfismál. Það verða því algjör forréttindi að fá að hlusta á hana í eigin persónu í Háskólabíói. Þetta verður einstakur viðburður sem ég get lofað að skilur engan eftir ósnortinn,“ bætir Rannveig við. 

Aðgangur að fyrirlestrinum er ókeypis og allir eru velkomnir. 

Nánari upplýsingar má finna á Facebook-síðu heimsóknarinnar og einnig er hægt að skrá sig á opna erindið á Facebook.

Einnig má kynna sér störf Jane Goodall í pistli sem Linda Pétursdóttir og Guðrún Pétursdóttir rituðu og birtist á vef Kvennablaðsins.

Jane Goddall og börn
Jane Goddall og börn