Skip to main content
4. september 2015

Doktorsnám við Heilbrigðisvísindasvið hlýtur gæðavottun

Tveir fulltrúar frá evrópsku samtökunum ORPHEUS (Organis­ation for PhD Education in Biomedicine and Health Sciences in the European System) hafa undanfarna tvo daga verið í heimsókn við Háskóla Íslands til að ljúka mati á gæðum doktorsnáms við Heilbrigðisvísindasvið.

Í mars 2014 skilaði forseti Heilbrigðisvísindasviðs nefndinni skýrslu um doktorsnám við sviðið. Skýrslan fólst meðal annars í svörum sviðsins við röð spurninga um námið  og í reglum og verkferlum sem varða doktorsnámið, auk upplýsinga á vef sviðsins um doktorsnám. Doktorsnámsnefnd sviðsins hefur unnið lengi að undirbúningi við gæðamatið.

Í úttektinni, sem lauk í dag, föstudaginn 4. september, tók nefndin viðtöl og fundaði með ríflega þrjátíu einstaklingum, þ.e. fulltrúum rannsóknastofnana, leiðbeinendum, doktorsnemum, auk doktorsnámsnefndar sviðsins.

Það er einstaklega ánægjulegt að greina frá því að doktorsnám við Heilbrigðisvísindasvið mun veita viðtöku gæðamerkis ORPHEUS-samtakanna. Í framhaldi af vottuninni verður regluleg eftirlitsskoðun til að tryggja að gæðum í doktorsnámi við sviðið sé haldið við með eðlilegum hætti og þau aukin þar sem þurfa þykir. Háskóli Íslands er fimmti háskólinn í Evrópu til að hljóta vottunina.

Greinargerð samtakanna um úttektina verður birt á vefsíðu Háskóla Íslands innan skamms.

Um ORPHEUS

ORPHEUS eru alþjóðleg samtök sem meta gæði doktorsnáms í líf- og heilbrigðisvísindum við evrópska háskóla. Markmið samtakanna er að standa vörð um að námið sé rannsóknar­tengt, sem og að auka atvinnu­tækifæri útskrifaðra doktora. Fjórir aðrir evrópskir háskólar eru með gæðamerki frá samtökunum, þar á meðal Karolínska stofnunin og Kaupmannahafnarháskóli.

Nánari upplýsingar á vefsíðu samtakanna, orpheus-med.org

""
""