Skip to main content
20. júní 2016

Betri árangur í stærðfræði hjá stórum skólum 

Betri árangur í stærðfræði hjá stórum skólum  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ný athugun sýnir að gengi nemenda í stærðfræði er marktækt betra í stórum skólum en litlum hér á landi. Þetta er mat íslensks rannsóknarteymis sem birti nýlega niðurstöður sínar í Tímariti um uppeldi og menntum sem gefið er út í samstarfi Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Félags um menntarannsóknir.

Matið er byggt á athugun á niðurstöðum PISA árið 2012 í stærðfræði sem Freyja Hreinsdóttir dósent og Kristín Bjarnadóttir, prófessor emeríta við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, stóðu að. Niðurstöður benda til þess að hátt starfshlutfall við stærðfræðikennslu, löng starfsreynsla og sér í lagi samfella í kennslu stuðli að góðum árangri nemenda.

Starfsreynsla skiptir meira máli en menntun

Til að grafast fyrir um hugsanlegar ástæður þessa var gerð könnun meðal stærðfræðikennara valinna skóla hér á landi. „Við skoðuðum nokkrar mögulegar skýringar. Svo virðist sem mismunandi menntun kennara geti ekki skýrt þennan mun. Hins vegar þá skiptir starfsreynsla við stærðfræðikennslu hugsanlega máli og þá sérstaklega sú starfsreynsla sem fæst af því að kenna viðkomandi nemendahópi lengi og oft. Það skiptir líka máli að kennarar þekki vel námsefni sem á undan er komið og það sem mun taka við. Enn fremur gæti skipt máli að kennarar í stórum skólum eru frekar í fullu starfi við að stærðfræðikennslu og hafa meiri möguleika á teymisvinnu,“ segir Freyja Hreinsdóttir.

Aðspurð segir hún að niðurstöðurnar hafi ekki komið sér á óvart. „Þetta er svipuð niðurstaða og fékkst þegar skoðaðar voru niðurstöður úr PISA 2003 á Íslandi og í Danmörku.“ Hún bendir á að sveitarfélög mættu hafa þetta í huga við skipulag skóla, þ.e.a.s. hvort heppilegra væri að hafa safnskóla á unglingastigi, þar sem því verður við komið, fremur en að leggja áherslu á að hafa nemendur í sama skólanum öll skólaárin með tiltölulega fámenna árganga. „Það mætti einnig íhuga að setja kennslu í einstökum fögum í hendur faggreinakennara, fremur en umsjónarkennara í meira mæli á miðstigi. Þannig myndu fleiri kennarar hafa kennslu í einstökum faggreinum að aðalstarfi en það gæti ef til vill stuðlað að betri námsárangri. Í fámennum sveitafélögum mætti styrkja faggreinakennara í samstarfi og teymisvinnu með kennurum annars staðar í sömu fögum t.d. með námstefnum og fjarfundum.“

Stærðfræðilæsi svipað og á Norðurlöndum

Árangur íslenskra nemenda í PISA í stærðfræði hefur sveiflast nokkuð í gegnum tíðina. En hvar standa íslenskir nemendur í samanburði við nágrannaríkin? „Meðalárangur í stærðfræðilæsi í PISA 2012 var 494 stig. Meðalárangur á Íslandi var einu stigi minna eða 493 stig sem er vel innan vikmarka og svipað og í Danmörku (500) og Noregi (489), ögn hærra en í Svíþjóð (478 stig) en töluvert lægra en í Finnlandi (519 stig),“ segir Freyja að endingu en nýjar niðurstöður PISA munu birtast síðar á þessu ári. 

Þess má geta að PISA er alþjóðleg rannsókn á hæfni og getu 15 ára nemenda í lestri, náttúrufræði, stærðfræði og þrautalausn. Rannsóknin er á vegum OECD og var framkvæmd í 65 löndum árið 2012.

"Freyja Hreinsdóttir, dósent og Kristín Bjarnadóttir, prófessor emeríta við Menntavísindasvið Háskóla Íslands."
"Freyja Hreinsdóttir, dósent og Kristín Bjarnadóttir, prófessor emeríta við Menntavísindasvið Háskóla Íslands."