Skip to main content
22. janúar 2016

Ásgeir Jónsson nýr forseti Hagfræðideildar

""

Ásgeir Jónsson, dósent við Háskóla Íslands, hefur verið kjörinn deildarforseti Hagfræðideildar fram til sumars 2018 og hefur þegar tekið við af Tór Einarssyni. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir mun gegna stöðu varaforseta deildarinnar fram til 1.júlí 2016.

Auk stöðu deildarforseta er Ásgeir umsjónarmaður meistaranáms í fjármálahagfræði við sömu deild. Þau verkefni sem Ásgeir hefur unnið að eru meðal annars tengd alþjóðafjármálum, peningahagfræði, hagsögu, orkuhagfræði, fasteignamarkaðinum, byggðahagfræði og almennri þjóðhagfræði. 

Ásgeir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1990, BS-prófi í hagfræði frá Hagfræðideild Háskóla Íslands árið 1994 og síðan doktorsprófi í hagfræði með áherslu á peningahagfræði, alþjóðaviðskipti og hagsögu frá Indiana University árið 2001.

Ásgeir hóf starfsferilinn sem hagfræðingur hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún árið 1994 og ritstjóri Vísbendingar árið1995 þar til hann hélt utan til náms. Árið 2000 hóf hann störf hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og varð lektor hjá Hagfræðideild HÍ árið 2004. Hann tók við starfi sem aðalhagfræðingur Kaupþings í ársbyrjun 2004, var forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings á árunum 2006-2008 og gegndi síðan sömu stöðu hjá Arion banka á árunum 2008-2011.

Ásgeir Jónsson nýr forseti Hagfræðideildar
Ásgeir Jónsson nýr forseti Hagfræðideildar