Skip to main content

Ráðstefna á sviði kvenna- og kynjasögu

Ráðstefna á sviði kvenna- og kynjasögu - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
7. júní 2024 9:00 til 8. júní 2024 18:00
Hvar 
Nánar 
Aðgangur ókeypis

Haldin á Seyðisfirði og Egilsstöðum 7.–8. júní 2024.

Ráðstefnudagskrá verður fjölbreytt að efni á sviði kvennasögu (Women's history) og kynjasögu (Gender Studies). Þessar fræðigreinar hafa sett svip á rannsóknir innan hugvísinda og félagsvísinda síðustu áratugi, áhaft áhrif á stjórnmál og samfélagsgerð, verið kenndar í háskólum, rannsóknir birtar og ráðstefnur haldnar. Nú er komið að því að halda eina slíka á Austurlandi. 

Fyrirlestrar ná yfir ýmis viðfangsefni og margskonar rannsóknasjónarhorn. Um ráðstefnuhald sér Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Austurlandi, í samvinnu við Tækniminjasafn Austurlands, Minjasafn Austurlands og Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands. Auk þess leggja einstaklingar og fyrirtæki viðburðinum lið með ýmsum hætti.

Dagskrá föstudaginn 7. júní:

9.00 Rúta til Seyðisfjarðar frá Hótel Berjaya (Komið áður á flugvöll að sækja ráðstefnugesti sem koma með flugi þá um morguninn. Ath. Það þarf að skrá sig í rútuna með því að senda tilkynningu um það fyrir 15. maí á netfangið unnurk@hi.is).

9.45 til 10.00 – Setningarorð

10:00 til 11.30 – Fyrirlestrar

  • Sigríður Matthíasdóttir og Þorgerður J. Einarsdóttir: Athafnakona sviðsetur sig. Rannsókn á persónulegum heimildum Pálínu Waage, veitinga- og verslunarkonu á Seyðisfirði.
  • Þorgerður J. Einarsdóttir: Þórdís Bergsdóttir, Lárurnar og athafnasemi kvenna á Seyðisfirði.
  • Unnur B. Karlsdóttir: Áhrif kvenna í Verkamannafélaginu Fram á Seyðisfirði.

11.30 til 11.50 – Heimildamynd um útgáfu kvennablaðsins Framsókn á Seyðisfirði

11.50 til 12.40 – Matarhlé

12.40 til 14.10 – Fyrirlestrar

  • Harpa Rún Ásmundsdóttir og Ása Ester Sigurðardóttir - Konur í sáttabókum 1798–1936.
  • Sigurgeir Guðjónsson: Jóhanna María - Að slá utanum. Meðferðin á andlega veiku fólki á 19. öld og byrjun 20. aldar.
  • Erla Dóris Halldórsdóttir: Berklar meðal austfirskra kvenna á árunum 1910–1940.
  • 10 til 14:25 – Kaffihlé
  • 14:25 til 15.55 – Fyrirlestrar
    • Björg Hjartardóttir: Ferðasaga Margrétar. Um vestur-íslensku kvenréttindakonuna og ritstýruna Margréti J. Benediktsson og Íslandsferð hennar árið 1930.
    • Marion Lerner: Fröken í Berlín eða hámenntaður kvenþýðandi, höfundur og þjóðfræðingur? Margarethe Lehmann-Filhés og starf hennar í þágu íslenskrar menningar.
    • Rannveig Þórhallsdóttir og Rannveig Traustadóttir: Konur á landnámstíma á Austurlandi.

16.10 til 17.30 – Móttaka í Tækniminjasafninu Búðareyri.

17.45  Brottför til Egilsstaða

19.30 til 20.30  Ráðstefnukvöldverður á Hótel Berjaya.

Dagskrá laugardaginn 8. júní á Hótel Berjaya á Egilsstöðum

9.00 til 10.30 – Fyrirlestrar

  • Sigurjón B Hafsteinsson og Arnar Árnason: Hús, híbýli, húsfreyja. Kynjað sjónarhorn á útrýmingu torfhúsa.
  • Erla Hulda Halldórsdóttir: Þórunn, Guðlaug eða Málmfríður. Saga kvenna og sýnileikinn
  • Kristín Svava Tómasdóttir: Jóhanna Knudsen og átökin um ástandið.

10.30 til 10.45 – Kaffihlé

10.45 til 12.15 – Fyrirlestrar

  • Hrafnkell Lárusson: Konur á kjörskrám til Alþingis 1873–1903.
  • Ragnheiður Kristjánsdóttir: Konur á kjörstað, 1915–1946.
  • Sigurborg Hilmarsdóttir: Kvenréttindafélag Eskifjarðar 1950–1963.

12.15 til 13.30 – Matarhlé

13.30 til 15.00 - Fyrirlestrar

  • Rósa Magnúsdóttir: Krísur í kvennahreyfingu sósíalista á sjötta áratug síðustu aldar.
  • Valgerður Pálmadóttir: Íslenskar kvennahreyfingar á síðari hluta 20. aldar og átök um stríð, frið og stjórnmál.
  • Gerður G. Óskarsdóttir: Kvennabarátta á Austurlandi undir Rauðsokkaanda 1975–1983.

15.00 til 15.15 – Kaffihlé

15.15 til 16.00 – Fyrirlestur

  • Rakel Adolphsdóttir: Femínísk sagnfræði sem hreyfiafl. Kvenna- og kynjasaga á tímamótum.

16.00 til 17.00 – Pallborðsumræður

17.00 – Ráðstefnuslit

17.15 til 18.00 – Móttaka og sýning í Safnahúsinu á Egilsstöðum

Útdrættir erinda:

Sigríður Matthíasdóttir og Þorgerður J. Einarsdóttir: Athafnakona sviðsetur sig.  Rannsókn á persónulegum heimildum Pálínu Waage, veitinga- og verslunarkonu á Seyðisfirði. 

Pálína Waage (1864-1935) verslunarkona á Seyðisfirði lauk ritun sjálfsævisögu sinnar árið 1924, sextug að aldri. Í fyrirlestrinum höldum við fram að eitt meginmarkmiða hennar með ritun sjálfsævisögunnar hafi verið að „sviðsetja sig“ sem athafnakonu. Þetta er í andstöðu við þá hugmynd að konur hafi löngum „keypt og selt“ og „braskað með varning“ án þess að það tengdist beint menningarlegri merkingu viðskipta. Athafnasemi Pálínu virðist hafa verið meðvituð þannig að hún tengdi gerendahæfni sína á sviði viðskipta almennum hugmyndum athafnamennsku, t.d. um frumkvöðulinn sem ryður braut og ögrar kringumstæðum til þess að hagnast (Sigríður Matthíasdóttir og Þorgerður J. Einarsdóttir 2018 og 2022; Kay 2009). Um leið verða leidd að því rök að ekki sé hægt að líta á viðskiptalega sjálfsmynd hennar sem einhvers konar fasta eða stöðuga sjálfsmynd, t.d. að hún hafi alltaf stefnt að því að leggja stund á viðskipti, eða litið á  viðskiptahæfileika sem kjarnann í sinni sjálfsmynd. Þvert á móti teljum við að sjálfsmynd Pálínu sem meðvitaðrar athafnakonu beri að túlka sem niðurstöðuna af lífi hennar, fremur en eitthvað sem hún ætlaði sér upphaflega að gera. Við munum ræða þetta ferli og tengja m.a. hugtakinu „lifuð reynsla“ og reynslu sem félagslega mótuðu fyrirbæri.

Þorgerður J. Einarsdóttir: Þórdís Bergsdóttir, Lárurnar og athafnasemi kvenna á Seyðisfirði.

Vinna kvenna og þáttur þeirra í framleiðslu og nýsköpun hefur verið með margvíslegum hætti í gegnum söguna en oft á tíðum hefur þetta framlag verið lítt sýnilegt og viðurkennt. Aðgreiningin í einkasvið og opinbert svið hefur átt drjúgan þátt í að dylja framlag kvenna, en ekki síður menningarbundnar hugmyndir um kynjaskiptingu starfa og kynjuð formerki hugtaka eins og athafnamennska. Í erindinu verður fjallað um Þórdísi Bergsdóttir (1929-2021) sem bjó og starfaði á Seyðisfirði. Fjallað verður um frumkvöðla- og athafnasemi Þórdísar, félagsskapinn Lárurnar, Ullarvinnsluna frú Láru og þá framleiðslu og starfsemi sem þar fór fram. Í erindinu er ljósi varpað á hvernig Lárurnar og Ullarvinnsla frú Láru með Þórdísi í fararbroddi stuðluðu að því að færa störf kvenna sem unnin voru innan heimilisins út í hið opinbera rými, styrkja atvinnulíf á Seyðisfirði, skapa launuð störf og byggja brú á milli einkasviðsins og opinbera sviðsins. Verkefnið er hluti af H2020 CENTRINNO sem styrkt er af Evrópusambandinu 2020-2024. 

Unnur B. Karlsdóttir: Kvennadeild Verkamannafélagsins Fram á Seyðisfirði 1932 fram til um 1950. Tilurð og baráttumál.

Samtök verkamanna voru fyrst stofnuð á Seyðisfirði í lok 19. aldar og svo endurreist skömmu eftir aldamótin 1900. Á ýmsu gekk á brautryðjendaárunum og baráttumálin voru ótalmörg á tímum þegar vaxandi verkamannastétt glímdi við réttleysi af öllu tagi. Þetta var í senn kjarabarátta og stéttabarátta eins og þekkt er í sögu árdaga verkalýðshreyfinga heimsins. Karlar voru brautryðjendur enda var Verkamannafélagið Fram á Seyðisfirði stofnað áður en konur höfðu þegnréttindi að fullu í íslensku samfélagi. En þær voru að sjálfsögðu engu að síður þátttakendur í íslensku atvinnulífi, báru byrðar í lífsbaráttu alþýðunnar ekki síður en karlar. Þar kom því að konur gengu til liðs við Verkamannafélagið Fram en svo fór að stofnuð var sérstök kvennadeild innan félagsins. Í erindinu er skoðuð ástæða þess að sú leið var farin og jafnframt hugað að helstu baráttumálum kvennadeildarinnar og skoðað hvort og þá hvernig hún færði margt í verkalýðsbaráttu á Seyðisfirði í nýjan farveg.

Harpa Rún Ásmundsdóttir og Ása Ester Sigurðardóttir - Konur í sáttabókum 1798–1936.

Árið 1798 urðu sáttanefndir hluti af íslensku réttarkerfi og í kjölfarið voru stofnaðar slíkar nefndir sem höfðu það hlutverk að létta undir með störfum héraðsdómara með því að miðla málum milli einstaklinga og koma á sáttum í ýmsum ágreiningsefnum. Gjörðabækur þessara nefnda eru gjöfular heimildir um hversdagslíf Íslendinga og veita meðal annars áhugaverða innsýn inn í líf kvenna í íslensku sveitasamfélagi. Bækurnar eru einstakar heimildir um réttarstöðu kvenna þar sem margar nýttu sér sáttanefndirnar til að sækja rétt sinn. Í erindinu verða gjörðabækur sáttanefnda kynntar og áhersla lögð á að sýna hvernig þær nýtast sem heimildir um líf og stöðu kvenna á tímabilinu 1798–1936. Áhersla verður lögð á varðveittar sáttabækur úr Múlasýslum og dregin fram fjölbreytt og áhugaverð mál þar sem konur eru ýmist kærendur, ákærðar eða koma við sögu á annan hátt.

Sigurgeir Guðjónsson: Jóhanna María - Að slá utanum. Meðferðin á andlega veiku fólki á 19. öld og byrjun 20. aldar.

J.R. Hüberz nefndi í riti sínu frá 1843, Om dårevæsenets indretning i Danmark, að 36 einstaklingar á Íslandi þyrftu gæslu. Frá gamalli tíð hafði geðveikt fólk á Íslandi verið látið í klefa eða búr eins og J.R nefnir. „Að slá utanum“ þann geðveika vísar til þess þegar klefi eða búr var smíðað og viðkomandi lokaður þar inni. Í spítalaleysinu á Íslandi var slíkum úrræðum beitt fram eftir 19. öldinni þegar fólk var mjög andlega veikt. Svo seint sem árið 1901 má sjá í gögnum milliþinganefndarinnar að Jóhanna María Eyjólfsdóttir (1866–1906), á Höfða í Vallahreppi var höfð í virki, eins og það var kallað. Í þessu erindi er ætlunin að varpa ljósi á hvernig hreppsnefnd Vallahrepps brást við í veikindum Jóhönnu Maríu. Þar mynda fátækralöggjöfin frá árinu 1834 og sveitastjórnarlögin frá 1872 baksvið framvindunar. Umskipti urðu með milliþinganefndinni í fátækramálum sem starfaði á árabilinu 1901- 1905. Skýrt er hvað fólst í þeim umbreytingum og hvernig það sneri að Jóhönnu Maríu og bætti mögulega kjör hennar.

Erla Dóris Halldórsdóttir: Berklar meðal austfirskra kvenna á árunum 1910–1940.

Berklar er lífshættulegur smitsjúkdómur af völdum bakteríu og berst á milli manna um öndunarfæri. Smit berst ekki nema frá þeim sem hafa sjúkdómseinkenni, það er hósta. Berklabakterían getur hreiðrað um sig í ýmsum líffærum líkamans en algengastir eru þó þeir sem valda sjúkdómum í lungum. Enginn annar smitsjúkdómur á Íslandi olli jafnmiklum dauða á þriðja og fjórða áratug 20. aldar en berklaveiki. Dánarhlutfall berklasjúkdóma var eitt það hæsta í Evrópu. Í fyrirlestrinum verður fjallað um berklaveiki meðal austfirskra kvenna á árunum frá 1910 til 1940 og leitað svara við því hvaða afleiðingar þessi smitsjúkdómur hafði á líf kvennanna þar á umræddu tímabili. Hvaða meðferð stóð þeim til boða og hvernig vegnaði þeim? Árið 1910 tók til starfa fyrsta heilsuhælið fyrir berklaveika, Heilsuhælið á Vífilsstöðum. Leitað verður svara við því hvort og hversu margar austfirskar konur dvöldu þar til lækninga. Eru til frásagnir af austfirskum berklaveikum konum á umræddu tímabili? Skildu þær eftir sig sendibréf, dagbækur eða aðrar heimildir? Sama spurning kann að vakna varðandi Kristneshæli, heilsuhæli fyrir berklaveika á Norðurlandi sem tók til starfa 1927.

Björg Hjartardóttir: Ferðasaga Margrétar. Um vestur-íslensku kvenréttindakonuna og ritstýruna Margréti J. Benediktsson og Íslandsferð hennar árið 1930.

Vestur-íslenska kvenréttindakonan og ritstýran Margrét J. Benedictsson (1866-1956) skrifaði ferðasögu þegar hún heimsótti Ísland á Alþingishátíð árið 1930. Vinir og velunnarar Margrétar vestanhafs söfnuðu fyrir farinu til að þakka fyrir framlag hennar „í þarfir mannréttinda.“ Margrét ritstýrði kvennablaðinu Freyju, sem gefið var út í Manitoba á árunum 1898-1910, en blaðið var helgað baráttunni fyrir framförum og réttindum kvenna, með sérstaka áherslu á kosningaréttinn. Ferðalagið var langt og ferðaðist ritstýran til Íslands frá Blaine í Washingtonfylki í Bandaríkjunum á bíl, í lest og á skipinu Montcalm ásamt fleiri Íslendingum. Ferðasagan er hluti af örfáum heimildum sem til eru um Margréti á Handritasafni Landsbókasafns Íslands en í kjölfarið á Íslandsför sinni birti hún hana jafnframt í Heimskringlu á árunum 1930–1932. Í ferðasögunni má finna upplifun hennar á landi og þjóð eftir fjörutíu og fimm ára fjarveru. Heimsóknir í Unuhús og heimahús fjölskyldu og vina í Reykjavík, samskipti við íslenskar kvenréttindakonur, sígarettur og veislur ber meðal annars á góma. Á ferðalagi sínu um landið og á æskuslóðir skrifar Margrét um náttúrufegurð Íslands, rifjar upp æskuárin og tengingu sína við föðurlandið.

Marion Lerner: Fröken í Berlín eða hámenntaður kvenþýðandi, höfundur og þjóðfræðingur? Margarethe Lehmann-Filhés og starf hennar í þágu íslenskrar menningar.

Feminísk þýðingafræði styðst við ýmsa aðferðafræði og nálgast viðfangsefni sín frá mismunandi sjónarhornum. Meðal annars leggur hún áherslu á að rannsaka ævi og störf kvenþýðenda, vinnuaðstæður þeirra, viðtökur á verkum þeirra og viðhorf og framkomu samstarfsaðila. Mikil gróska er í rannsóknum á skjalasöfnum kvenþýðenda. Erindið fjallar um störf þýðandans og fræðikonunnar Margarethe Lehmann-Filhés (1852–1911). Hún var búsett í Berlín, stundaði rannsóknir á sviði þjóðfræði og fornleifafræði og var virk í vísindalegum félögum. Hún var sjálflærð í íslensku, stóð í bréfaskiptum við íslenska menntamenn og þýddi úr íslensku yfir á þýsku. Þannig valdi hún íslensk ævintýri til þýðingar og útgáfu og þýddi safn íslenskra ljóða. Einnig birti hún þýðingar á íslenskum smásögum, m.a. í tímariti borgaralegu kvenréttindahreyfingarinnar í Þýskalandi. Hún samdi áhrifamikla bók um íslenskt handverk, nánar tiltekið um spjaldvefnað, á þýsku en skrifaði í kjölfar grein um þetta efni á íslensku. Í erindinu verður merkileg þróun rakin sem greina má í starfi Margarethe Lehmann-Filhés. Sem þýðandi íslenskra fræðigreina á sviði landafræði, fornleifafræði og þjóðfræði vann hún í upphafi ósýnilega og nafnlaus bak við tjöldin, en kom smám saman fram á sjónarsviðið sem sjálfstæður fræðiþýðandi, höfundur og gagnrýnandi.

Rannveig Þórhallsdóttir og Rannveig Traustadóttir: Konur á landnámstíma á Austurlandi.

Hér verður sjónum beint að konum á landnámstíma á Austurlandi og hverju fornleifafræðin bætir við þá mynd sem við höfum úr Íslendingasögum; til að mynda hvernig konurnar voru búnar í sinni hinstu ferð, hvað ísótópagreiningar segja okkur um mataræði, aldur og uppruna og hvað birtar rannsóknir á híbýlum frá landnámstíma geta bætt við þekkingu okkar um líf og störf kvenna á tímabilinu. Fjallað verður um „fjallkonuna“ á Vestdalsheiði, „bláklæddu konuna“ á Litlu-Ketilsstöðum í  Hjaltastaðaþinghá og kvengröfina í Firði, Seyðisfirði, auk tenginga við Droplaugarsonasögu, Fljótsdælu og Hrafnkelssögu Freysgoða. 

Sigurjón B Hafsteinsson og Arnar Árnason: Hús, híbýli, húsfreyja. Kynjað sjónarhorn á útrýmingu torfhúsa.

Haustið 1944 var haldið þing í Reykjavík um byggingamál í hinu nýja lýðveldi. Flestir sem þar tóku til máls voru karlmenn sem töluðu fjálglega um það þjóðþrifaverk að útrýma torfbæjum og að flytja ætti fólk í mannsæmandi húsnæði byggt úr varanlegri efnivið en torfi og grjóti. Talað var um torfbæinn sem táknmynd þeirrar örbirgðar sem Ísland og Íslendingar máttu þola aldirnar undir erlendum yfirráðum. Tveir gestir þingsins töluðu þó öðru máli, kvenkyns þátttakendur samkomunnar. Þær Ragnhildur Pétursdóttir og Hulda Stefánsdóttir, bentu á að konur væru ekki hafðar með í ráðum þegar hin nýju hús væru byggð þrátt fyrir að þær ynnu þar innadyra mesta vinnuna.Þær bentu líka á hversu illa hin nýju steinsteyptu hús féllu inn í lag lands, ólíkt hinum notalega torfbæ. Kenna má viðhorf þeirra Ragnhildar og Huldu við rómantík og nostalgíu og segja má að skoðanir þeirra hafi ekki fengið mikinn hljómgrunn á málþinginu. Í þessu erindi fjöllum við um það hvernig reynslu og röddum kvenna var úthýst í byggingamálum hins nýja lýðveldsins, hvernig sú úthýsing var gerð með vísan í rómantík og nostalgíu og með tilvísun í tilfinningasemi sem konum var ætluð.

Erla Hulda Halldórsdóttir: Þórunn, Guðlaug eða Málmfríður. Saga kvenna og sýnileikinn

Í íslenskum æviskrám segir um Björn Vigfússon prest á Eiðum að fyrri kona hans (1801) hafi verið Guðlaug dóttir Guðmundar Péturssonar sýslumanns í Krossavík. Innan sviga segir: „(hún hafði átt barn í lausaleik, en fekk 17. maí 1800 uppreisn og leyfi til að giftast manni andlegrar stéttar).“ Guðlaug hét reyndar Þórunn og er ekki eina dæmið um það þegar nöfn kvenna fara á milli mála eða saga þeirra er sett innan sviga. Í fyrirlestrinum verður rætt um sögu kvenna og sýnileika í tengslum við rannsókn á ævi Sigríðar Pálsdóttur (1809–1871). Hún var dóttir Páls Guðmundssonar (d. 1815) sýslumanns á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu. Hann var af ætt harðdrægra sýslumanna í marga ættliði og bróðir áðurnefndrar Þórunnar sem átti barn í lausaleik. Sigríður og Þórunn systir hennar ólust upp hjá móður sinnar, Malene Jensdóttur, og ömmu, Sigríði Ørum, á því sem kalla mætti kvennaheimilið á Hallfreðarstöðum. Allt í kringum þær á Héraði og í Vopnafirði voru frændkonur sem ráku heimili af myndarbrag, stóðu fyrir búi eða bjuggu við ómegð og lítil efni. Í fyrirlestrinum segir frá nokkrum þessara kvenna og því hvernig fjallað er um þær í sögubókum, ef nokkuð.

Kristín Svava Tómasdóttir: Jóhanna Knudsen og átökin um ástandið.

Undanfarna áratugi hafa rannsóknir á ástandinu svokallaða á hernámsárum seinni heimsstyrjaldar blómstrað innan íslenskrar sagnfræði. Þar hefur tiltekin persóna verið miðlægur en sumpart dularfullur þátttakandi: Jóhanna Knudsen hjúkrunarkona, sem framkvæmdi umfangsmikla rannsókn á siðferðisástandinu í Reykjavík og varð fyrsta lögreglukona landsins sem forstöðukona ungmennaeftirlitsins. Auk ötullar framgöngu í þessum störfum tjáði Jóhanna sig um ástandsmálin í bréfum og blaðagreinum, oft býsna harkalega. Líf og störf Jóhönnu hafa þó ekki verið rannsökuð sérstaklega til þessa og ekki verið fyllilega ljóst hvernig hjúkrunarkona sem áður hafði lítt látið til sín taka á opinberum vettvangi varð lykilmanneskja í viðbrögðum stjórnvalda við ástandinu. Erindið mun byggja á yfirstandandi rannsókn höfundar á ævi Jóhönnu Knudsen. Saga hennar er athyglisvert viðfangsefni í kvenna- og kynjasögulegum skilningi. Hún er öðrum þræði til marks um aukna framrás kvenna á hið opinbera svið en Jóhanna hefur jafnframt orðið hálfgerð táknmynd þess hvernig ströngum siðgæðisviðmiðum var beitt til að leggja hömlur á frelsi kvenna. Gegnum sögu Jóhönnu verður rýnt í samstöðu og ágreining um ástandsmálin, innan stjórnkerfisins og þjóðfélagsins en ekki síst innan kvennahreyfingarinnar. Hvað knúði Jóhönnu Knudsen áfram, hverjir voru samherjar hennar og andstæðingar og á hvaða forsendum voru átakalínurnar dregnar?

Hrafnkell Lárusson: Konur á kjörskrám til Alþingis 1873–1903.

Konur fengu í fyrsta sinn kosningarétt til Alþingis við alþingiskosningarnar árið 1915. Engu að síður má finna vel á annað hundrað nöfn kvenna á kjörskrám Alþingis á árabilinu 1873-1903. Aðeins um fimmtungur þeirra var strikaður út. Þó engin merki séu þess að nein þessara kvenna hafi reynt að neyta atkvæðisréttar við alþingiskosningar vekur það athygli að nöfn þeirra hafi verið á kjörskrám. Í erindinu verður greint frá markmiðum rannsóknarverkefnins „Hverjir völdu fulltrúa fólksins?“ sem miðar að því að rannsaka kjörsókn og félagslegan bakgrunn frambjóðenda og kjósenda á árabilinu 1873-1903. Einnig verður rætt um austfirskar konur sem fengu nöfn sín skráð á kjörskrá á tímabilinu og leitað skýringa á því hvers vegna nöfn þeirra voru þar. 

Ragnheiður Kristjánsdóttir: Konur á kjörstað, 1915–1946.

Kosningaþátttaka kvenna var dræm fyrstu árin eftir að þær fengu rétt til að kjósa til Alþingis árið 1915, og sumar höfðu hreinlega ekki kosningarétt. Í erindinu verður fjallað um þær formlegu og óformlegu hindranir sem stóðu í vegi fyrir því að konur mættu á kjörstað. Fjallað verður um erlendar og innlendar rannsóknir á takmörkunum kosningaréttar með áherslu á kjörstaðinn sem pólitískt rými. Skoðaðir verða valdir kjörstaðir á Austurlandi eftir því sem heimildir leyfa.

Sigurborg Hilmarsdóttir: Kvenréttindafélag Eskifjarðar 1950–1963.

Anna Sigurðardóttir (1908-1996), sem síðar stofnaði og rak Kvennasögusafnið, var skólastjórafrú á Eskifirði frá 1939-1957. Árið 1950 gekkst hún fyrir stofnun Kvenréttindafélags Eskifjarðar sem varð einskonar deild í Kvenréttindafélagi Íslands og eina kvenréttindafélag landsins, utan Reykjavíkur. Stofnfélagar voru 11 konur en flestar urðu félagskonur um 30. Fundargerðarbækur félagsins frá 1950 til 1955 eru varðveittar og einnig ýmis fleiri gögn þess. Fundargerðarbækur eftir 1955 eru því miður glataðar. Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir sögu og starfi félagsins og þeirri hugmyndafræði sem Anna kynnti félagssystrum sínum og áhrifunum sem félagið hafði á samfélagið í þessu 700 manna sjávarþorpi.

Rósa Magnúsdóttir: Krísur í kvennahreyfingu sósíalista á sjötta áratug síðustu aldar.

Erindið fjallar um deilur í kvennahreyfingu sósíalista á vinstri vængnum, það er í Kvenfélagi sósíalista, Menningar- og friðarsamtökum íslenskra kvenna og Húsmæðradeild MÍR en samkvæmt heimildum var þar reglulega „allt í volde“ eins og Þóra Vigfúsdóttir skrifaði, og svo virðist sem hópar innan þessara félaga hafi deilt bæði um málefni og framkvæmd þeirra. Einnig verður fjallað um áhrif og áherslur íslenskra sósíalista í Kvenréttindafélagi Íslands á sjötta áratugnum. Inn í allar þessar deilur fléttast stéttaátök; pólitískur skoðanamunur og togstreita milli þéttbýlis og landsbyggðar. Rannsóknin er enn á frumstigi en stuðst verður við persónulegar heimildir kvenna eins og Þóru Vigfúsdóttur, Nönnu Ólafsdóttur og fleiri kvenna á vinstri vængnum.

Valgerður Pálmadóttir: Íslenskar kvennahreyfingar á síðari hluta 20. aldar og átök um stríð, frið og stjórnmál.

Í erindinu verður sjónum beint að afstöðu íslenskra kvennahreyfinga til NATÓ, herstöðvarinnar og þátttöku kvenna í friðarhreyfingum á Íslandi 1949-1986. Ísland er stofnaðili að NATÓ en þjóðin var lengi klofin í afstöðunni til samtakanna og til herstöðvarinnar í Keflavík. Löng hefð er fyrir þverpólitísku samstarfi kvennahreyfinga á Íslandi og hafa samtök kvenna á Íslandi oft staðsett sig handan hefðbundinnar flokkspólitíkur.  Ljóst er þó að hin ýmsu pólitísku mál hafa verið erfið fyrir kvennahreyfinguna og orðið uppspretta átaka – friðarmál og afstaðan til NATÓ er eitt þeirra og lituðust þau óneitanlega af kalda stríðinu. Konur tóku einnig mikinn þátt í friðarhreyfingunni á Íslandi en raddir þeirra hafa ekki fengið mikið rými í sagnaritun og fræðilegri umfjöllun um kalda stríðið og átökin um NATÓ. Í ljósi átaka og sívaxandi skautunar á alþjóðavettvangi hefur orðræða um nýtt kalt stríð fengið byr undir báða vængi. Friðarhugtakið hefur í auknum mæli orðið hugmyndafræðilega gildishlaðið og hverfist um tvískiptingu heimsins í frjáls lýðræðisríki og alræðisríki valdníðslu og kúgunar. Myndin minnir óneitanlega á kalda stríðið sem setur gagnrýni á hervæðingu og friðarbaráttu á Vesturlöndum þröngar skorður. Í erindinu verður fjallað um hvernig kalda stríðið hafði áhrif á samtök kvenna á Íslandi, kvennabaráttu, þverpólitískt samstarf og samstöðu meðal kvenna.

Gerður G. Óskarsdóttir: Kvennabarátta á Austurlandi undir Rauðsokkaanda 1975–1983.

Áhrif Rauðsokkahreyfingarinnar sem starfaði árin 1970-1983 teygðu sig með margvíslegum hætti um landið, m.a. til Austurlands, og vöktu fjölda kvenna til meðvitundar um stöðu sína og möguleika. Varpað verður ljósi á kvennabaráttu á Austurlandi á tímum hreyfingarinnar, einkum í Neskaupstað og á Egilsstöðum, í því markmiði að vekja athygli á og varðveita sögu þessa tímabils í kvenfrelsisbaráttunni. Byggt er á efni sem varðveitt er á Kvennasögusafni Íslands og Skjalasafni Neskaupstaðar. Fjallað verður um heimsóknir Rauðsokka frá Reykjavík til Neskaupstaðar og Egilsstaða, ráðstefnur þeirra og fundi, auk námskeiðs um stöðu kvenna. Kvennaárið 1975 og kvennafríið á Austurlandi 24. október 1975 er rætt. Sérstaklega verður dregið fram starf Jafnréttisnefndar Neskaupstaðar á þessum árum og tengsl hennar við aðrar jafnréttisnefndir og fleiri aðila. Þar má nefna könnun á stöðu kynja og niðurstöður hennar sem kynntar voru í sameiginlegri skýrslu fjögurra bæjarfélaga og með fimm myndskreyttum bæklingum sem dreift var meðal bæjarbúa í Neskaupstað. Jafnframt má nefna fundi um verkalýðsmál, fyrirlestrahald og menningarviðburði. Loks verður lýst námskeiði margra austfirskra aðila um kvennasögu haldið á Eiðum sumarið 1983. Þetta dæmi um jafnréttisbaráttu á tilteknu svæði og tíma dregur fram þörf og áhuga kvenna á að skoða stöðu sína og möguleika þegar tilefni og rými gefst.

Rakel Adolphsdóttir: Femínísk sagnfræði sem hreyfiafl. Kvenna- og kynjasaga á tímamótum.

Söguleg þekking hefur áhrif á hugmyndir okkar um okkur sjálf, okkar uppruna og okkar menningu. Það fylgir því mikið vald að velja hvaða sjónarhorni sögunnar er miðlað. Kvenna- og kynjasaga ögrar hefðbundnu karllægu sjónarhorni viðtekinnar söguskoðunar. Þannig tekst henni að bjóða fjölbreyttari hópi að samsvara sig með þjóðarsögunni. Framfaraskref hafa verið tekin undanfarna hálfa öld til að rétta úr kútnum en þó heyrast raddir sem telja kvenna- og kynjasögu vera barn síns tíma og við það að verða úrelt sem fyrirbæri. Það er orkufrekt að þurfa að vinna stöðugt gegn feðraveldinu sem kerfisbundið vill gleypa og kæfa kvenna- og kynjasögu, jaðarsetja hana enn frekar en jafnframt friðþægja með lágmarksviðleitni. Hvað getur þróast og blómstrað þegar því er haldið niðri og í lágmarki? Kvenna- og kynjasaga þarf að vera femínísk til að geta umbreytt því hvernig söguþekking er uppbyggð. Það er ekki nóg að einfaldlega huga að samtvinnun heldur er nauðsynlegt að raungera hana til að koma í veg fyrir frekari kúgun jaðar- og minnihlutahópa. Þá er mikilvægt að huga að flóknum valdatengslum í þeim efnum. Hvaða sögu erum við að segja og miðla? Hvernig varðveitum við og segjum sögu femínískra hreyfinga fortíðarinnar? Hvernig tryggjum við yfirfærslu femínískrar söguþekkingar á milli kynslóða? Hvernig er hægt að ná utan um og greina femínískar hreyfingar nútímans og ekki síst, hvernig getum við hlúð að femínískum framtíðarsýnum?