Skip to main content

Verklagsreglur

Verklagsreglur um birtingar vísindagreina í opnum aðgangi

  1. Háskóli Íslands hvetur starfsmenn sína til að birta vísindagreinar sínar í tímaritum sem gefin eru út á vettvangi sem veitir opinn aðgang að greinunum. Háskóli Íslands tekur ekki með beinum hætti þátt í mögulegum kostnaði við birtingar í opnum aðgangi. Akademískum starfsmönnum háskólans er þó eftir atvikum heimilt að nýta rannsóknafé sitt til að greiða þennan kostnað.
     
  2. Eigi síðar en við birtingu skal höfundur vísindagreinar senda vísinda- og nýsköpunarsviði rafrænt afrit af lokagerð greinarinnar. Rafrænt afrit getur verið á PDF formi, með krækju eða öðrum viðeigandi hætti.
     
  3. Háskóla Íslands er heimilt að gera greinarnar aðgengilegar á netinu, sjá þó 4. gr.
     
  4.  Höfundur getur óskað eftir að tiltekin tímaritsgrein verði undanskilin ákvæðum 3. gr. þegar sýnt þykir að ekki sé unnt að birta efni greinarinnar á vettvangi með opnum aðgangi. Slík undanþága getur verið ótímabundin eða falið í sér seinkun birtingar í opnum aðgangi. Eftirtalin sjónarmið eru m.a. lögð til grundvallar við mat á undanþágubeiðnum:

    a) Vísindaleg gæði tímarits. 
    Höfundi stendur til boða að birta vísindagrein í virtu hefðbundnu áskriftartímariti með háan áhrifastuðul (e. impact factor). Það er grundvallar stefnumið Háskóla Íslands að fjölga gæðabirtingum á öllum fræðasviðum háskólans. Í stefnu Háskóla Íslands er lögð rík áhersla á að akademískir starfsmenn velji birtingarvettvang sem gerir strangar fræðilegar kröfur og er líklegur til að auka vísindaleg áhrif rannsóknastarfs skólans. Áhersla á birtingu greina í opnum aðgangi má ekki verða til þess að draga úr áhrifum rannsóknastarfs Háskóla Íslands á innlendum og alþjóðlegum vettvangi. Höfundar sem birta grein í áskriftartímariti með háum áhrifastuðli skulu ef unnt er jafnframt birta greinina í opnu rafrænu varðveislusafni.

    b) Birtingarvettvangur ákveðinn af öðrum. 
    Höfundur þarf að lúta ákvörðun annarra, t.d. stjórnanda rannsóknar eða meðhöfunda, svo sem við erlenda samstarfsháskóla eða rannsóknastofnanir.

    c) Kostnaður. 
    Kostnaður höfundar er talinn óhóflegur eða ekki í samræmi við það sem eðlilegt má teljast.
     

  5. Óskum um undanþágur sbr. 4. gr. skal beina til vísinda- og nýsköpunarsviðs í gegnum heimasíðu sviðsins.
     
  6. Verklagsreglur þessar byggjast á stefnu Háskóla Íslands um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum og lokaverkefnum, sem samþykkt var í háskólaráði 6. febrúar 2014. Vísinda- og nýsköpunarsvið og kennslusvið annast lausn ágreiningsmála sem rísa kunna í tengslum við framkvæmd reglna þessara. Reglurnar taka gildi 1. júlí 2014.