Skip to main content

Heilsufar og aðgengi að heilbrigðisþjónustu

Sigríður Haraldsdóttir, doktorsnemi í lýðheilsuvísindum

„Það er sérstaklega áríðandi að rannsaka og fylgjast með aðgengi að heilbrigðisþjónustu á tímum niðurskurðar til að nauðsynleg endurskipulagning þjónustunnar hafi ekki ójöfnuð í för með sér,“ segir Sigríður Haraldsdóttir, doktorsnemi í lýðheilsuvísindum.

Sigríður lauk meistaraprófi í heilsulandfræði frá York University í Toronto í Kanada og er sviðsstjóri heilbrigðistölfræðisviðs hjá Landlæknisembættinu. Hún rannsakar heilsufar eftir búsetu annars vegar og hins vegar aðgengi að heilbrigðisþjónustu eftir búsetu. Rannsóknin er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi og niðurstöður koma til með að nýtast stjórnvöldum og heilbrigðisyfirvöldum við ákvarðanatöku, að sögn Sigríðar.
 

Sigríður Haraldsdóttir

„Það er sérstaklega áríðandi að rannsaka og fylgjast með aðgengi að heilbrigðisþjónustu á tímum niðurskurðar til að nauðsynleg endurskipulagning þjónustunnar hafi ekki ójöfnuð í för með sér“

Sigríður Haraldsdóttir

Sigríður notar nýlegar niðurstöður tveggja umfangsmikilla kannana Lýðheilsustöðvar meðal 6.000 Íslendinga til að skoða hvort svæðisbundinn munur sé á heilsufari á Íslandi. „Íbúar utan höfuðborgarsvæðisins meta heilsu sína lakari en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega líkamlega heilsu. Minni munur er á andlegri heilsu að mati þátttakenda. Í þeim tilvikum þar sem sjúkdómar tengdust búsetu voru minni líkur á að læknir hefði greint sjúkdóminn á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og vekur það óneitanlega spurningar um aðgengi að tiltekinni heilbrigðisþjónustu.“

Hinn hluti rannsóknarinnar snýr að því að greina framboð og notkun heilbrigðisþjónustu á öllu landinu. Til þess verks notar Sigríður m.a. vistunarskrá sjúkrahúsa, sem er ein af heilbrigðisskrám landlæknis. „Að mínu mati þarf fyrst að skilgreina hvers konar heilbrigðisþjónusta er nauðsynleg að lágmarki á landsbyggðinni áður en ráðist er í miklar breytingar. Sjúkrahús, heilsugæslustöðvar, sérfræðiþjónusta, sjúkraflutningar o.fl. eru allt mikilvægir hlutar  heilbrigðiskerfisins sem þarf að skoða heildstætt,“ segir hún og bendir á að heilbrigðisþjónustan sé eins og menntun, öflugt tæki samfélagsins til að jafna stöðu þegnanna.

Innblásturinn að verkefninu sækir Sigríður til þess markmiðs laga að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma. „Við höfum í gegnum tíðina lítið reynt að mæla aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu með tilliti til búsetu. Fullkomlega jafnt landfræðilegt aðgengi að allri heilbrigðisþjónustu í okkar strjálbýla landi er óraunhæft markmið. Í því ljósi skiptir það miklu máli að finna út hvort og að hvaða marki mismunandi aðgengi, mælt til dæmis með ferðatíma eða fjarlægð frá þjónustunni, hefur áhrif á heilsu okkar.“

Leiðbeinandi: Sigurður Guðmundsson, prófessor og forseti Heilbrigðisvísindasviðs.