Skip to main content
1. maí 2016

Yfirlýsing um áframhaldandi starfsemi HÍ á Laugarvatni

""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra, Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Helgi Kjartansson, oddviti sveitarstjórnar Bláskógabyggðar, hafa undirritað viljayfirlýsingu um áframhaldandi starf Háskólans á Laugarvatni eftir að nám í íþrótta- og heilsufræði flyst þaðan. Viljayfirlýsingin gerir ráð fyrir að aðstaða verði sköpuð fyrir nemendur og starfsfólk til náms, rannsókna og funda- og ráðstefnuhalda, að komið verði á fót rannsóknasetri á Laugarvatni og að skólinn eigi samstarf við Háskólafélag Suðurlands um námskeiðahald og mögulega fjarkennslu.

Háskólaráð samþykkti einróma í febrúar síðastliðnum að grunnnám í íþrótta- og heilsufræði skyldi flutt frá Laugarvatni til Reykjavíkur og að fyrsta árs nemar myndu hefja nám í Reykjavík í haust en 2. og 3. ár flytjast þangað síðar. Ákvörðunin var tekin að undangenginni ítarlegri skoðun á þeim kostum sem í boði voru fyrir íþrótta- og heilsufræði.

Háskólaráð samþykkti jafnframt að skólinn myndi stefna að því að vera áfram með starfsemi á Laugarvatni og að hún yrði mótuð í samstarfi við stjórnvöld, sveitarstjórn Bláskógabyggðar, Háskólafélag Suðurlands og eftir atvikum fleiri aðila. Í kjölfar viðræðna við þessa aðila var viljayfirlýsing undirrituð á Laugarvatni þann 28. apríl en hún kveður á um að Háskóli Íslands, Bláskógabyggð og Háskólafélag Suðurlands vinni saman að uppbyggingu breyttrar starfsemi Háskólans á Laugarvatni.

Gert er ráð fyrir þremur meginþáttum í samstarfsverkefninu. Í fyrsta lagi er ætlunin að skapa aðstöðu fyrir nemendur, kennara, fræðimenn og aðra starfsmenn HÍ til náms, kennslu, rannsókna og þróunarstarfs utan höfuðborgarsvæðisins. Þannig geti Háskólinn nýtt aðstöðuna á Laugarvatni fyrir styttri námskeið, fundahöld, ráðstefnur og vinnubúðir nemenda og starfsmanna og jafnvel lotunám í greinum eins og íþrótta- og heilsufræði, jarðfræði, umhverfis- og auðlindafræði, ferðamálafræði og kennaranámi. Gert er ráð fyrir að Háskólinn verði með gistiaðstöðu í 30 herbergjum vegna þessa. Þá er stefnt að því að HÍ reki áfram skólahús íþrótta- og heilsufræðinnar og hluta af öðru húsnæði sem kennarar og starfsmenn hafa haft aðgang að.

Í öðru lagi kveður viljayfirlýsingin á um að komið verði á fót rannsóknasetri Háskóla Íslands á Laugarvatni með starfsmönnum í rannsóknarverkefnum sem gætu tengst ferðamálum, landnýtingu eða byggðaþróun. Háskóli Íslands rekur nú þegar sjö rannsóknasetur víða um land og eiga þau í góðu samstarfi við bæði sveitarfélög, skóla og fyrirtæki á þeim stöðum þar sem þau eru starfrækt. Setrin hafa jafnframt nýst nemendum í framhaldsnámi vel til rannsóknavinnu. Rannsóknasetur eru nú þegar rekin á Selfossi og á Höfn í Hornafirði en gert er ráð fyrir að ný starfsstöð á Laugarvatni myndi styðja við starfsemi þeirra og Jarðskjálftamiðstöð Háskóla Íslands á Selfossi. Háskólinn mun leitast við að hafa starfsmenn búsetta á Laugarvatni.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir samstarfi Háskóla Íslands og Háskólafélags Suðurlands um námskeiðahald og mögulega fjarkennslu sem myndi auka möguleika fólks á Suðurlandi til að sækja sér menntun á háskólastigi.

Í viljayfirlýsingunni er tekið fram að tillögurnar séu háðar því að samkomulag náist um fjármögnun starfseminnar milli Háskóla Íslands, stjórnvalda og Bláskógabyggðar. Háskóli Íslands væntir mikils af samstarfinu í framhaldinu.

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Helgi Kjartansson, oddviti sveitarstjórnar Bláskógabyggðar, undirrita viljayfirlýsinguna á Laugarvatni.
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Helgi Kjartansson, oddviti sveitarstjórnar Bláskógabyggðar, undirrita viljayfirlýsinguna á Laugarvatni.