Skip to main content
22. mars 2016

Vinsælt pólskunám við Háskóla Íslands

Á haustmisseri 2015 var í fyrsta sinn boðið upp á pólskunám við Háskóla Íslands og hefur námið notið mikilli vinsælda. Um er að ræða tvö byrjendanámskeið fyrir nemendur við skólann sem kennd eru á sex vikum. Það eru Tungumálamiðstöð Háskóla Íslands og Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda sem standa að námskeiðunum í samvinnu við Háskólann í Varsjá og með styrk frá EFTA. Boðið verður upp á pólskunámskeið á komandi haustmisseri og á vormisseri 2017. (Hægt er að nálgast nánari upplýsingar hjá Tungumálamiðstöð, ems@hi.is).

Anna Rabczuk, nýprófessor við Háskólann í Varsjá, kom hingað til lands til að kenna námskeiðin. Hún segir að þegar hún hafi komið til landsins hafi hún þekkt tvo Íslendinga og báða bara af góðu. Þess vegna hafi hún haft á tilfinningunni að Íslandsdvölin yrði annasöm en líka góða skemmtun, en þar hafi hún haft rangt fyrir sér: „ Þetta reyndist ekki bara mikil vinna og góð skemmtun heldur einnig frábært ævintýri. Ég fullyrði í fullri einlægni að þetta hefur verið frábær reynsla. Ég sé nemendur mína ná framförum á milli tíma og þegar ég hitti þá á göngum skólans þá heilsa þeir mér á pólsku. Ég er mjög stolt af þeim. Þar að auki hef ég fengið að upplifa þetta allt í undraverðu umhverfi og undraverðri náttúru Íslands. Þannig að ég er mjög hamingjusöm með þetta allt saman.“

Anna segir nemendur sína vera miklu betur að sér um Pólland og pólska menningu en hún bjóst við. „Sumir þeirra vita meira um Pólland en meðal Pólverji. Einn nemandi minn sagðist elska pólsku vegna þess að hún væri miklu auðveldari og rökréttari en íslenska. Ég verð að viðurkenna að þetta var í fyrsta skipti sem ég heyri því haldið fram að pólska sé léttari en annað tungumál. Ég á eftir að vitna oft í þennan nemanda í kennslustundum.”

Aðspurð hvers vegna Íslendingar sýni pólskunámi svo mikinn áhuga segir Anna að ástæðan sé augljós. „Pólverjar eru stærsti minnihlutahópurinn á Íslandi. Ég met það mikils að nemendur mínir vilji tengjast pólska samfélaginu. Sumir þeirra segjast eiga marga pólska nágranna sem þeir vilji geta heilsað og kynnst betur. Besta leiðin til þess er að tala pólsku. Ég held að ef allir deildu þessu viðhorfi til minnihlutahópa þá væri heimurinn betri. Aðrir leggja stund á pólskunám vegna þess að þeir eiga pólskan maka og svo eru það þeir sem hafa einfaldlega mikinn áhuga á Póllandi.“

En er eitthvað sem Háskóli Íslands getur gert til að styðja við pólska minnihlutann á Íslandi? Þeirri spurning svarar Anna játandi. „Í fyrsta lagi gæti háskólinn tryggt að pólskunámið verði áfram í boði við Tungumálamiðstöð skólans. Stúdentum sem sýna náminu áhuga fer fjölgandi því að á fyrsta misseri skráðu tuttugu nemendur sig til þátttöku en á seinna misserinu voru þeir sextíu. Annað sem skólinn gæti gert er að halda áfram að sýna pólskar myndir og efna til spurningaleikja um Pólverja og Pólland. Að lokinni einni slíkri sýningu kom pólsk kona að máli við mig og sagðist vera yfir sig ánægð með tiltækið. Hún hafði búið á Íslandi í sautján ár og þetta væri í fyrsta skipti sem hún hefði komið í stærstu menntastofnun landsins og í fyrsta sinn sem hún hefði séð pólska mynd á breiðtjaldi. Þessi heimsókn í háskólann var þannig ómetanleg upplifun fyrir hana.“ Að síðustu nefnir Anna að háskólinn ætti að halda íslenskum nemendum vel upplýstum um möguleika á skipti- og sumarnámi í Póllandi.

Anna Rabczuk með nemendum sínum við Háskóla Íslands.
Anna Rabczuk með nemendum sínum við Háskóla Íslands.