Skip to main content
12. október 2016

Vigdís heiðursdoktor við Sorbonne-háskóla

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og velgjörðarsendiherra UNESCO fyrir tungumál, var sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Sorbonne-háskóla í París í gær, þriðjudaginn 11. október. Með nafnbótinni vill Sorbonne-háskóli heiðra Vigdísi fyrir ævistarf hennar, einkum einstakt framlag í þágu jafnréttismála, tungumála og menningar og fyrir að hafa brotið blað í veraldarsögunni, þegar hún, fyrst kvenna, var kjörin forseti í lýðræðislegum kosningum. Þá er tekið til starfa hennar í þágu háskólastarfs og tengsla við vísindasamfélagið víða um heim.     

Það var norrænudeildin sem lagði til við rektor Sorbonne-háskóla að Vigdís yrði sæmd nafnbótinni og veitti hún heiðursdoktorsskjalinu viðtöku í gær í hátíðarsal háskólans, að viðstöddu miklu fjölmenni. Í tilefni af því að Université Sorbonne Paris IV í hugvísindum og Université Pierre et Marie Curie í raunvísindum verða sameinaðir á næsta ári í einn háskóla, Université de Sorbonne, var ákveðið að veita nokkrum einstaklingum sem skarað hafa fram úr á heimsvísu heiðursdoktorsnafnbót fyrir framlag til læknavísinda, raunvísinda og hugvísinda, meðal annarra Vigdísi og Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs.  

Að lokinni athöfninni fluttu þær Vigdís Finnbogadóttir og Gro Harlem Brundtland fyrirlestra við norrænudeild Sorbonne-háskóla og komust færri að en vildu. Vigdís flutti fyrirlestur sinn á frönsku og bar hann yfirskriftina  „Vous l'avez entendu? La révélation de la grève des femmes de 1975“. Í máli sínu gerði hún grein fyrir kvennafrídeginum á Íslandi, aðdraganda hans og áhrifum, auk þess sem hún gerði tungumál og menningu að umtalsefni og mikilvægi þekkingar á þeim sviðum fyrir farsæl samskipti á milli menningarheima. Í fyrirlestri sínum „Equality and Environment. Crucial and Integrated Parts of Sustainable Development“, fjallaði Gro Harlem Brundtland um umhverfismál og sjálfbærni. 

Nemendur og vísindamenn í norrænum fræðum við Sorbonne-háskóla fjölmenntu á fyrirlestrana og gáfu margir sig á tal við Vigdísi að fyrirlestrunum loknum.  

Í lok dags stóð sendiherra Íslands í Frakklandi, Kristján Andri Stefánsson, fyrir móttöku til heiðurs Vigdísi í sendiherrabústaðnum í París. Meðal gesta voru rektorar háskólanna beggja sem að útnefningunni stóðu og fjöldi franskra fyrrverandi og núverandi samstarfsaðila Vigdísar auk Íslendinga í París.  

Vigdís Finnbogadóttir er heiðursdoktor við rúmlega tuttugu háskóla, þar á meðal við Háskóla Íslands, en bæði Verkfræðideild (2000) og Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda (2010) hafa sæmt hana heiðursdoktorsnafnbót. Nánari upplýsingar um viðurkenningar og nafnbætur Vigdísar má sjá á heimasíðu hennar.

Með Vigdísi í för til Parísar var dóttir hennar Ástríður Magnúsdóttir og Guðrún Kristinsdóttir, verkefnisstjóri Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands.

Háskóli Íslands óskar Vigdísi innilega til hamingju með heiðursdoktorsnafnbótina.

Vigdís Finnbogadóttir ásamt Karl Gadelii, prófessor við norrænudeild Sorbonne-háskóla, sem tilnefndi Vigdísi sem heiðursdoktor við skólann.
Vigdís Finnbogadóttir er hér ásamt Hélène Mazo, samstarfskonu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, og Guðrúnu Kristinsdóttur, verkefnisstjóra við stofnunina.
Vigdís Finnbogadóttir
Barthélémy Jobert og  Pierre Chambaz, rektorar háskólanna tveggja, afhenda Vigdísi heiðursdoktorsskjalið í hátíðasal Sorbonne-háskóla.
Vigdís Finnbogadóttir ásamt Karl Gadelii, prófessor við norrænudeild Sorbonne-háskóla, sem tilnefndi Vigdísi sem heiðursdoktor við skólann.
Vigdís Finnbogadóttir er hér ásamt Hélène Mazo, samstarfskonu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, og Guðrúnu Kristinsdóttur, verkefnisstjóra við stofnunina.
Vigdís Finnbogadóttir
Barthélémy Jobert og  Pierre Chambaz, rektorar háskólanna tveggja, afhenda Vigdísi heiðursdoktorsskjalið í hátíðasal Sorbonne-háskóla.