Skip to main content
21. apríl 2017

Veröld – hús Vigdísar opnað að viðstöddu fjölmenni

Veröld – hús Vigdísar, sem helgað verður kennslu, rannsóknum og viðburðum sem tengjast erlendum tungumálum og menningu, var formlega opnað í gær, sumardaginn fyrsta. Efnt var til veglegrar hátíðardagskrár í Háskólabíói af því tilefni auk þess sem sýning, sem er snýr að störfum og hugðarefnum helsta hvatamanns hússins, Vigdísar Finnbogadóttur, var opnuð í hinu nýja húsi.

Nýbyggingin, sem stendur á horni Suðurgötu og Brynjólfsgötu, fékk nafnið Veröld – hús Vigdísar fyrr í vikunni að undangenginni nafnasamkeppni meðal almennings. 

Byggingin mun hýsa Vigdísarstofnun – alþjóðlega miðstöð tungumála og menningar, sem starfrækt er á grundvelli samkomulags milli íslenskra stjórnvalda og Menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Í húsinu er einnig aðstaða fyrir fyrirlestra- og ráðstefnuhald, vinnuaðstaða fyrir erlenda gestafræðimenn og fyrir kennslu og rannsóknir í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands. Í húsinu er Vigdísarstofa, þar sem hægt er að fræðast um sögulegt kjör  Vigdísar Finnbogadóttur í embætti forseta Íslands þann 29. júní 1980 og sérstakt rými ætlað fyrir sýningar um tungumál og menningu. Markmiðið með starfseminni í húsinu er því að auka þekkingu á erlendum tungumálum og menningu og mikilvægi þeirra og miðla henni sem víðast til leikra og lærðra.

Samhent átak fjölmargra aðila

Aðeins eru rúm tvö ár síðan fyrsta skóflustungan að byggingunni var tekin en það var 8. mars 2015, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Hornsteinn var svo lagður að húsinu 19. júní 2016, á réttindadegi kvenna. Segja má að verkefnið hafi frá upphafi fengið afar góðar undirtektir en fyrir eljusemi Vigdísar Finnbogadóttur, velgjörðarsendiherra tungumála hjá Menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, og starfsmanna Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum undanfarin ár er langþráður draumur um tungumálahús orðið að veruleika. Fjölmargir einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök hafa lagt verkefninu lið með fjárhagslegum stuðningi en það hefur einnig notið rausnarlegs stuðnings íslenskra stjórnvalda, Reykjavíkurborgar og Happdrættis Háskóla Íslands.

Hátíðardagskrá helguð tungumálum í Háskólabíói

Við opnun hússins í gær, á sumardaginn fyrsta, var slegið upp mikilli menningarveislu tengdri tungumálum í Háskólabíói. Yfirskrift hátíðardagskrárinnar var „Tungumál ljúka upp heiminum“ og þar fluttu fjölmargir innlendir listamenn og kórar verk á ótal tungumálum. Auk þess ávörpuðu þau Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO, Irina Bokova framkvæmdastjóri UNESCO,  Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Rigmor Dam, mennta- og menningarmálaráðherra Færeyja, Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, Mònica Pereña, forseti Linguapax International, og Auður Ava Ólafsdóttir, rithöfundur og forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands, samkomuna. 

Að lokinni hátíðardagskrá var svo haldið að nýbyggingunni þar sem Jón Atli Benediktsson og Vigdís Finnbogadóttir buðu gestum að ganga í bæinn. Við vígslu hússins var jafnframt opnuð sýningin „SAMTAL – DIALOGUE“ er sem opnunarsýning í sýningarsal hins nýja Vigdísarhúss. Á sýningunni er fjallað í máli og myndum um störf og hugðarefni Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands. Munir á sýningunni eru í eigu Vigdísar Finnbogadóttur sem góðfúslega lánar þá á sýningartíma. Hönnuður sýningarinnar er Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir, en hún er unnin í samráði við Auði Hauksdóttur, Kolbrúnu Halldórsdóttur og Ástríði Magnúsdóttur.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sagði við þessi tímamót: „Vígsla Veraldar – húss Vigdísar er mikið fagnaðarefni.  Með því eignast hugvísindin við Háskóla Íslands aðsetur í hjarta háskólasvæðisins sem verður vettvangur kennslu, rannsókna og nýsköpunar á sviði erlendra tungumála og menningar.  Í húsinu er allt til alls, frábær aðstaða fyrir starfsfólk, stúdenta og innlenda og erlenda gesti, fullkominn fyrirlestrasalur með aðstöðu fyrir túlka, fjölbreytt kennslurými, nútímalegt bóka- og gagnasafn, rými fyrir málþing og ráðstefnur, veitingastofa og opið torg undir berum himni.“

„Tungumál eru til alls fyrst.  Ekkert gerist fyrr en við breytum hugsunum okkar í orð - á um sexþúsund og sjöhundruð tungumálunum sem til eru á jörðinni. Þau standa misjafnlega sterk eins og við sjálf, mannverur í heimi hér, of mörg eiga undir högg að sækja - en dauði tungumáls er menningarslys sem kemur niður á öllu mannkyni, öllum þjóðum.“ sagði Vigdís Finnbogadóttir Í ræðu sinni við opnun Veraldar. Hún sagði Veröld – hús Vigdísar vera eign íslensku þjóðarinnar allrar og að þakklæti væri henni efst í huga á þessum merka degi.

„Það er stórkostlegt fyrir Háskóla Íslands, hugvísindin  og íslenskt samfélag að hafa eignast þetta hús sem er sérhannað fyrir kennslu og rannsóknir í erlendum tungumálum og miðlun þekkingar á því sviði.  Okkur er mikið í mun að vekja leika og lærða til vitundar um, að kunnátta í erlendum tungumálum og þekking á menningu annarra er lykill okkar Íslendinga að jákvæðum samskiptum við umheiminn.  Slík þekking hefur alltaf skipt okkur máli en sennilega aldrei eins og nú.  Því veltur allt á að ungt fólk nái góðum tökum á erlendum tungumálum,“ sagði  Auður Hauksdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum

Áfangar í byggingu Veraldar

  • 16. maí 2012:  Arkitektastofan Arkitektúr.is varð hlutskörpust í hönnunarsamkeppni um byggingu fyrir alþjóðlega tungumálamiðstöð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.
  • 27. júní 2013: Samningur undirritaður í París um að Vigdísarstofnun starfi undir formerkjum Menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Að samningnum standa íslensk stjórnvöld og UNESCO. 
  • 8. mars 2015: Fyrsta skóflustungan að nýbyggingunni tekin á horni Suðurgötu og Brynjólfsgötu. Framkvæmdir  næst gömlu Loftskeytastöðinni. Framkvæmdir hefjast nokkrum vikum síðar.
  • 19. júní 2016:  Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, leggja hornstein að húsinu.
  • 20. apríl 2017: Húsið formlega opnað við hátíðlega athöfn. 

RÚV var með beina útsendingu frá hátíðardagskránni í Háskólabíói.

Dagskrá hátíðarinnar

Hátíðardagskrá við vígslu Veraldar - húss Vigdísar
Jón Atli Benediktsson
Vigdís Finnbogadóttir
Auður Hauksdóttir