Skip to main content
6. apríl 2015

Verkfræðinemar frumsýna kappakstursbílinn TS15

Verkfræðinemar við Háskóla Íslands afhjúpa TS15, nýjan kappakstursbíl, á Háskólatorgi fimmtudaginn 9. apríl kl. 17.  Team Spark liðið, eins og það kallast, fer með bílinn nýja í alþjóðlegu kappaksturs- og hönnunarkeppnina Formula Student sem haldin verður á Silverstone-kappakstursbrautinni í Englandi í júlí.  Lið Háskóla Íslands vann einmitt til verðlauna á brautinni í fyrra. Að lokinni afhjúpun bílsins verður frumsýnd heimildamynd um þátttöku liðsins í keppninni í fyrra.

Um 40 nemendur í verkfræðideildum Háskóla Íslands hafa frá því í haust unnið að þróun og smíði kappakstursbílsins TS15, m.a. í samstarfi við nemendur úr Listaháskóla Íslands. Að baki bílnum liggja mörg þúsund vinnustundir og er liðið staðráðið í að fylgja eftir góðum árangri í kappaksturs- og hönnunarkeppninni á síðasta ári, en þá hlaut Team Spark sérstaka viðurkenningu sem bestu nýliðarnir.

Þónokkur endurnýjun hefur orðið í liðinu frá síðasta ári en sem fyrr leggur það áherslu á rafknúinn og umhverfisvænan bíl. Keppt er í tveimur flokkum í Formula Student á Silverstone-brautinni. Í flokki 1 eru lið dæmd út frá bæði hönnun einstakra hluta bílsins og akstri hans á kappakstursbraut en í flokki 2 eru hönnun og áætlanir kynntar en ekki er keppt í kappakstri. Team Spark hyggst keppa í flokki 1 líkt og í fyrra.

Við afhjúpun kappakstursbílsins TS15 á Háskólatorgi munu félagar í Team Spark segja  stuttlega frá þróunar- og hönnunarvinnunni. Auk þess flytja Ragnheiður Elín Árnadóttir atvinnu- og  nýsköpunarráðherra og Nótt Thorberg, markaðsstjóri Marels og fulltrúi bakhjarla Team Spark, stutt ávörp. Það gerir einnig  Hilmar Bragi Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, sem jafnframt  stýrir athöfninni. 

Að lokinni afhjúpun bílsins, eða kl. 18.15, verður heimildamynd Stefáns Drengssonar um hönnun keppnisbíls síðasta árs og för Team Spark liða á Silverstone sumarið 2014 frumsýnd í stofu HT-102 á fyrstu hæð Háskólatorgs.

Team Spark hlaut verðlaun á Silverstone-brautinni í fyrra fyrir þennan bíl, TS14, og það verður spennandi að sjá hvernig nýi bíllinn kemur til með að líta út.
Team Spark hlaut verðlaun á Silverstone-brautinni í fyrra fyrir þennan bíl, TS14, og það verður spennandi að sjá hvernig nýi bíllinn kemur til með að líta út.