Skip to main content
8. febrúar 2015

Vélaverkfræðinemar sigruðu í Hönnunarkeppni

Liðið INIT2FINISH, sem skipað er fjórum nemum í vélaverkfræði við Háskóla Íslands, bar sigur úr býtum í árlegri Hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema við Háskóla Íslands sem fram fór í Hörpu laugardaginn 7. febrúar.

Keppnin var hluti af UT-messunni svokölluðu sem fram fór um helgina og er þetta í annað sinn sem keppnin er haldin í Silfurbergi í Hörpu. Ellefu lið mættu til leiks að þessu sinni og höfðu þau öll hannað farartæki sem ætlað var að keyra eftir sérhannaðri braut og leysa ýmsar þrautir á leiðinni. Tækið þurfti m.a. að komast yfir gryfju, fara upp bratt skáplan og flytja dós á milli hægri og vinstri hliðar brautarinnar. Mikill áhugi var fyrir keppninni meðal gesta UT-messunnar og var fullt út úr dyrum í Silfurbergi á meðan liðin glímdu við brautina.

Dómnefnd gaf liðum stitg fyrir að ljúka hverjum hluta brautarinnar og taldist það lið sigurvegari sem hlaut flest stig í keppninni. Þegar upp var staðið reyndist liðið INIT2FINISH sigurvegari. Það var skipað þeim Guðmundi Hjálmari Egilssyni, Hallgrími Davið Egilssyni, Ásgeiri Barkarsyni og Steinarri Hrafni Höskuldssyni sem allir stunda nám í vélaverkfræði við Háskóla Íslands. Að sigulaunum hlutu þeir 400 þúsund króna inneign í verslun Nýherja.

Einnig veitti dómnefnd verðlaun fyrir bestu hönnun farartækis og sömuleiðis fyrir frumlegustu hönnunina. Liðið Dósaþeus hlaut fyrrefndu verðlaunin en það skipa þær Áróra Björk Pétursdóttir og Særún Rafnsdóttir, nemar í vélaverkfræði við Háskóla Íslands, ásamt þeim Rósu Dögg Ægisdóttur iðnaðarverkfræðinema og Birni Jóhanni Þórssyni efnaverkfræðinema, einnig við Háskóla Íslands. Í viðurkenningarskyni hlutu þau 200 þúsund króna peningaverðlaun frá Marel.

Sömu verðlaun voru veitt fyrir frumlegasta hönnun farartækis og að mati dómnefndar átti liði Drekinn hana. Drekann skipa þeir Andri Orrason og Þorsteinn B. Jónsson, vélaverkfræðinemar við Háskóla Íslands, ásamt Snorra Tómassyni iðnaðarverkfræðinema.

Þáttur um Hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema við Háskóla Íslands verður sýndur á RÚV á vormánuðum.

Sigurliðið í Hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema, INIT2FINISH
Liðið Dósaþeus sem hlaut verðlaun fyrir besta hönnun farartækis ásamt fulltrúa frá Marel sem veitti verðlaunin
Liðið Drekinn sem hlaut verðlaun fyrir frumlegasta hönnun farartækis ásamt fulltrúa frá Marel sem veitti verðlaunin
Hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema
Hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema