Skip to main content
22. september 2015

Vel heppnað málþing til heiðurs Vilhjálmi Rafnssyni

""

Læknadeild Háskóla Íslands og Miðstöð í lýðheilsuvísindum efndu til málþings í sal Þjóðminjasafnsins þann 18. september síðastliðinn í tilefni af sjötugsafmæli Vilhjálms Rafnssonar, læknis og prófessors við Læknadeild Háskóla Íslands.

Á málþinginu tók fjölbreyttur hópur til máls. Má þar nefna Tómas Zoëga, yfirlækni á geðdeild Landspítalans, Harald Briem, fráfarandi sóttvarnarlækni og dósent við Læknadeild, Sigurð Guðmundsson, prófessor við Læknadeild og sérfræðing í smitsjúkdómum á Landspítala og fyrrverandi landlækni, Óttar Guðmundsson, lækni á Geðsviði Landspítalans og Unni Önnu Valdimarsdóttur, prófessor við Læknadeild og forstöðumann Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum. Þá fluttu dætur Vilhjálms, Þrúður Vilhjálmsdóttir leikkona og Linda Vilhjálmsdóttir kvikmyndaframleiðandi erindi þar sem þær lýstu uppvaxtarárum í Gautaborg í Svíþjóð en Vilhjálmur stundaði þar sérnám í heimilislækningum og síðar atvinnulækningum og lauk doktorsnámi. Í ræðu þeirra fengu áhorfendur innsýn í hugarheim barna sem velta því sér fyrir hvað það er að vera læknir.

Við upphaf málþingsins var Vilhjálmi færð að gjöf bókin Af lífi sem gefin er út af Háskólaútgáfunni honum til heiðurs í tilefni af sjötugsafmæli hans. Bókin hefur að geyma greinasafn þar sem meðal annars má lesa aðgengilegar greinar um vísindi, ferðalög og Íslendingasögurnar. Höfundar bókarinnar eru nemendur, samstarfsfólk, vinir og fjölskylda Vilhjálms sem mörg hver fluttu erindi á málþinginu.

Andri Steinþór Björnsson, dósent við Sálfræðideild Háskóla Íslands, var fundarstjóri.

Hér má nálgast dagskrá málþingsins.

Langt á undan sinni samtíð

Vilhjálmur fékk snemma brennandi áhuga á að rannsaka þætti sem hafa áhrif á sjúkdóma og heilsu. „Í doktorsrannsókn sinni fyrir rúmum 30 árum síðan beindi Vilhjálmur sjónum að tengslum bólgumiðilsins sökk við ýmsa sjúkdóma, meðal annars hjartasjúkdóma. Tengsl bólgu við hjartasjúkdóma er svið sem á síðustu árum hefur verið ofarlega á baugi og því má segja að hann hafi verið þar mjög á undan sinni samtíð,“ sagði Magnús Karl Magnússon, prófessor og deildarforseti Læknadeildar við setningu málþingsins.

Vilhjálmur gegndi lengi stöðu yfirlæknis hjá Vinnueftirlitinu og hefur verið prófessor í heilbrigðis- og faraldsfræði við Læknadeild Háskóla Íslands frá 1997. Hann er afkastamikill vísindamaður og var um árabil ritstjóri Læknablaðsins. Vilhjálmur hefur verið burðarás í starfi Læknadeildar frá því hann hóf þar störf árið 1987 og ól meðal annars af sér vísindaráðstefnu Læknadeildar sem í dag nefnist ráðstefna um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum.

Forseti og starfsmenn Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands þakka Vilhjálmi vel unnin störf í þágu skólans og óska honum velfarnaðar.

Hér má sjá myndir frá málþinginu.

Við upphaf málþingsins var Vilhjálmi færð að gjöf bókin Af lífi sem gefin er út honum til heiðurs í tilefni af sjötugsafmæli hans. Á myndinni eru Andri Steinþór Björnsson, dósent við Sálfræðideild og fundarstjóri málþingsins og Vilhjálmur Rafnsson, læknir og prófessor við Læknadeild.