Skip to main content
15. maí 2017

Tvær skýrslur á ensku eftir Hannes

""

Hugveitan New Direction í Brüssel gaf í árslok 2016 út tvær rækilegar skýrslur á ensku eftir Hannes H. Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði. Önnur nefnist In Defence of Small States. Þar svarar Hannes þeim fræðimönnum, sem telja Ísland of lítið til að standa eitt sér, svo að það þurfi skjól frá stórveldum eða ríkjabandalögum. Hann rifjar upp að Marx og Engels og fleiri, þar á meðal sagnfræðingarnir Alfred Cobban og Eric Hobsbawn, létu svipaðar skoðanir í ljó en bendir síðan á að rekstrarkostnaður smáríkja þurfi alls ekki að vera meiri á mann en stórra ríkja, meðal annars vegna þess að löggæsla sé ódýr í samleitum og friðsælum löndum og hernaðarumsvif minni. Hann leiðir einnig rök að því, að Íslendingar hafi ekki sótt neitt skjól í Noreg og Danmörku heldur fest sig í gildru þegar konungur gerði samkomulag við landeigendastéttina íslensku um að halda sjávarútvegi niðri og einoka utanríkisverslun. Hannes telur rök Jóns Sigurðssonar fyrir sjálfstæði Íslands í fullu gildi. Aðalveikleiki smáríkja sé hins vegar varnarleysi þeirra en það þurfi að leysa með bandalögum við stærri ríki, ekki með því að afsala sér sjálfstæði.

Hin skýrslan nefnist The Nordic Models. Þar heldur Hannes því fram að norrænu leiðirnar séu ekki aðeins jafnaðarstefna, eins og stundum sé sagt. Velgengni Norðurlanda kunni að vera þrátt fyrir en ekki vegna hárra skatta og víðtækrar tekjujöfnunar. Hannes rekur hinar öflugu frjálshygguhefðir á Norðurlöndum allt frá átjándu öld og hið mikla framfaraskeið í Svíþjóð 1870–1970, en þá var hagvöxtur hvergi örari. Þetta skeið og sambærileg á öðrum Norðurlöndum áttu rætur í auknu atvinnufrelsi. Hannes telur velgengni Norðurlanda aðallega stafa af rammgerðu réttarríki, óheftum alþjóðaviðskiptum og samleitni þjóðanna. Hann lýsir einnig frjálshyggjuhefðinni á Íslandi en höfundar tveggja fyrstu hagfræðirita á íslensku, Arnljótur Ólafsson guðfræðingur og Jón Þorláksson verkfræðingur, skrifuðu báðir í anda frjálshyggju. Hannes andmælir einnig ýmsum túlkunum á umbótaskeiðinu 1991–2004 og íslenska bankahruninu 2008.

Þriðja ritið, sem komið hefur út eftir Hannes á ensku árið 2017 er The Saga of Gudrun, sem Almenna bókafélagið gefur út. Um er að ræða útdrátt úr Laxdælu, sem Hannes vill kalla Guðrúnar sögu Ósvífursdóttur, enda sé hún aðalsöguhetja ritsins. Skrifar hann formála að útdrættinum. Einnig birti Hannes grein um íslenska kommúnistahreyfinguna í tímaritinu The Conservative sem Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna gefa út.

Hannes kynnti niðurstöðurnar úr skýrslu sinni um norrænu leiðirnar á ráðstefnu APEE, Association of Private Enterprise Education, á eynni Maui í Havaí-ríki í Bandaríkjunum 12. apríl. Einnig flutti hann erindi um íslenska kvótakerfið á málstofu Washington Policy Center í Seattle 14. apríl, en hann gaf 2015 út bókina The Icelandic Fisheries: Sustainable and Profitable. Hannes kynnti einnig nokkrar niðurstöður úr skýrslu sinni um smáríki á ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar í Reykjavík 19. apríl um hvert Ísland skyldi stefna. Taldi hann að Ísland yrði að fara gætilega í utanríkismálum, reyna frekar að selja fisk en berjast fyrir husjónum. Í öryggismálum ætti það að reyna að treysta samstarfið við grannríkin á Norður-Atlantshafi, Noreg, Bretland, Kanada og Bandaríkin.

Í apríl flutti Hannes einnig fyrirlestur á málstofu í Evrópuþinginu í Brüssel u hvers vegna minnast ætti fórnarlamba alræðisstefnunnar í Evrópu en Brüssel-borg undirbýr nú í samstarfi við Evrópuvettvang um minningu og samvisku minnismerki um þessi fórnarlömb. Auðvitað ætti að minnast fórnarlamba nasismans og kommúnismans þeirra sjálfra vegna en líka vegna hinna sem eftir lifðu og vildu ekki að þessi ósköp endurtækju sig, sagði Hannes. Alræðisherrarnir mættu ekki hljóta hægan dauðdaga í fullvissu um að ódæði þeirra yrðu innan skamms gleymd.  

Hannes var svo andmælandi á málstofu 9. maí 2017 um kóreska hagkerfið á ráðstefnu í Seoul í Suður-Kóreu sem alþjóðleg samtök frjálslyndra fræðimanna, Mont Pèlerin Society, héldu. Á meðal ræðumanna á ráðstefnunni voru Nóbelsverðlaunahafarnir Lars Peter Hansen og Vernon Smith, hinir kunnu hagfræðingar Israel Kirzner og John Taylor (höfundur Taylor-reglunnar, sem seðlabankar nota víða) og þeir Vaclav Klaus, fyrrverandi forseti Tékklands, og Hwang Kyo-ahn, starfandi forseti Suður-Kóreu, en forsetakjör fór fram í landinu sama dag og Hannes flutti erindi sitt.

Hannes er að leggja lokahönd á skýrslu sína á ensku fyrir fjármálaráðuneytið um orsakir og áhrifaþætti íslenska bankahrunsins 2008 en skýrsluna vinnur hann á vegum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Hannes heldur erindi í Brüssel 26. apríl 2017, en á hlýða m. a. Evrópuþingmennirnir László Tökes og Milan Zver