Skip to main content
26. febrúar 2024

Tókst á við eðli samskiptavandamála með heimspekilegum verkfærum

Tókst á við eðli samskiptavandamála með heimspekilegum verkfærum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson hefur varið doktorsritgerð sína í heimspeki, Sense and testimony: Speech and empathy on the margins of worlds, við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði Háskóla Íslands. Andmælendur við vörnina voru Darian Meacham, dósent í heimspeki við Maastricht Háskólann í Hollandi og Komarine Romdenh-Romulc, dósent í heimspeki við Háskólann í Sheffield í Bretlandi.

Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Björns Þorsteinssonar, prófessors í heimspeki við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd Finnur Dellsén, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands og Sara Heinämaa, prófessor í heimspeki við Háskólann í Helsinki í Finnlandi. 

Sverrir Jakobsson, forseti Deildar heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu föstudaginn 23. febrúar.

Um rannsóknina

Í doktorsritgerðinni er tekist á við eðli samskiptavandamála með verkfærum félagsþekkingarfræði og fyrirbærafræði. Sjónum er beint sérstaklega að tengslum frásagnar og samkenndar og hvaða takmörkunum við erum háð þegar við reynum að koma orðum að reynslu okkar þvert á lífheima. Lykilatriði sem greint er í ritgerðinni er það hvernig þau sem jaðarsett eru í samfélaginu lenda ítrekað í að tjáningu þeirra á reynslu sinni er tekið sem vitnisburði fremur en frásögn. Þetta er ólíkt því sem við eigum að venjast í hversdagslegum samskiptum okkar, þar sem við iðulega segjum frá og okkur er trúað. Þessa tilhneigingu í orðræðu okkar kallar höfundur vitnisburðarvæðingu frásagnarinnar. Í ritgerðinni eru færð rök fyrir því að með því að dýpka skilning okkar á eðli frásagnarinnar getum við betur forðast óréttmæta vitnisburðarvæðingu.

Um doktorinn

Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson er með BA-próf í heimspeki frá Háskóla Íslands og MA-próf í heimspeki með sérhæfingu í fyrirbærafræði og heimspeki hugans frá Kaupmannahafnarháskóla. 

Finnur Dellsén, Sverrir Jakobsson, Darian Meacham, Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson, Komarine Romdenh-Romulc, Ólöf Garðarsdóttir og Björn Þorsteinsson.