Skip to main content
11. desember 2015

Tíu ára tímarit með tíu þúsund notendur

„Það sem knýr okkur öll áfram er sami hluturinn: metnaður fyrir hönd íslenskra stjórnmálafræða og eftir atvikum félagsvísinda  og áhugi á að umræða um íslensk samfélagmál byggi í meira mæli á vönduðum rannsóknum en oft er raunin,“ segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði og ritstjóri fræðitímaritisins Stjórnmála og stjórnsýslu sem fagnar í ár 10 ára starfsafmæli. Nýjasta tölublað ritsins lítur dagsins ljós þann 17. desember.

Tímaritið Stjórnmál og stjórnsýsla kom fyrst út árið 2005 og hefur alla tíð verið í umsjá Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands. Ritstjórn þess hefur verið í höndum akademískra starfsmanna Stjórnmálafræðideildar og hefur Gunnar Helgi verið ritstjóri frá upphafi. Gunnar Helgi segir að hugmyndin með útgáfu tímaritsins hafi verið að stuðla að þróun íslenskra stjórnmálafræða og þekkingar á sviði félagsvísinda um íslensk stjórnmál og stjórnsýslu í víðum skilningi. „Hluti af þeirri þekkingu sem fræðimenn á þessum sviðum skapa með rannsóknum sínum á sérstaklega erindi við íslenska lesendur. Á sama tíma þarf það fræðifólk sem er að vinna á þessu sviði að eiga aðgang að birtingarvettvangi sem gerir miklar kröfur til gæða rannsókna og vinnubragða við rannsóknir. Við lítum svo á að tímaritið komi ekki í staðinn fyrir birtingar á alþjóðlegum vettvangi heldur eigi að ýta undir það viðhorf í fræðasamfélaginu að birtingar í ritrýndum tímaritum séu sjálfsagður hluti af því að stunda rannsóknir. Að ritrýna og fá greinar ritrýndar eru hluti af þeirri þjálfun sem styrkir fræðasamfélagið til lengri tíma litið,“ segir Gunnar Helgi en þess má geta að birting á ritrýndri grein í tímaritinu gefur 15 punkta í vinnumatskerfi akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands.

Skýrar kröfur um fræðilegan ramma

Alls hafa rúmlega 370 greinar verið birtar í ritinu frá upphafi. Höfundar í tímaritinu koma aðallega úr þeim háskólum landsins þar sem fengist er við rannsóknir á þessu sviði og frá allnokkrum erlendum háskólum. Frá upphafi hafa 179 ritrýndar fræðigreinar birst í tímaritinu, en ríflega 90% þeirra hafa verið á sviði félagsvísinda; um þriðjungur frá Stjórnmálafræðideild háskólans, þriðjungur frá öðrum deildum á Félagsvísindasviði og um fjórðungur frá félagsvísindadeildum utan skólans. „Og vel að merkja tímaritið er öllum opið á vefnum, þó í árslok séu greinar ársins einnig prentaðar og prentuð eintök til á öllum helstu bókasöfnum landsins,“ bendir Gunnar Helgi á.

Aðspurður hvort efnistök tímaritsins hafi breyst mikið á þeim áratug sem tímaritið hefur verið gefið út segir Gunnar Helgi að þau viðmið sem fylgt er um birtingu greina hafi tekið á sig skýrari mynd. „Við gerum skýrari kröfur um viðeigandi fræðilegan ramma og að efni greina falli vel að því sviði sem tímaritið einbeitir sér að. Gæðaviðmið tímaritsins hafa þannig eflst. Mér finnst líka að almenn vitund í fræðasamfélaginu um hvað séu eðlileg gæðaviðmið hafi styrkst mjög á þessum tíu árum. Ég sé þetta vel á gæðum ritrýninnar sem við fáum. Hún er almennt mun betri núna en hún var fyrir tíu árum. Ég held – eða vona að minnsta kosti – að flestir höfunda okkar upplifi það jákvætt að fá ritrýni á greinar sínar, jafnvel þegar greinum er hafnað,“ segir hann.

Mikilvægt fyrir rannsóknir og miðlun þekkingar á íslensku samfélagi

Tímaritið nýtist bæði nemendum og fræðimönnum. „Ég sé það glöggt þegar nemendur eru að skrifa ritgerðir í námskeiðum hjá mér eða lokaverkefni í BA- eða meistaranámi að greinar tímaritsins eru ómetanlegur þekkingarforði fyrir alla þá sem eru að leita upplýsinga um rannsóknir á íslenskum stjórnmálum og stjórnsýslu. Umferðin um vef tímaritsins sýnir þetta líka vel. Meira en tíu þúsund notendur sækja þangað nærri 50 þúsund slóðir á ári. Alþjóðleg tímarit eru mjög meðvituð um hversu oft er vitnað í greinar þeirra og kannski ekki líklegt að til að mynda sterk bandarísk tímarit hafi sams konar áhuga á íslensku efni eins og hliðstæðu bandarísku efni. Tímaritið gegnir þess vegna lykilhlutverki fyrir rannsóknir og miðlun þekkingar á íslensku samfélagi. Við höfum líka orðið vör við að okkar birtingarform og vinnubrögð hafa orðið öðrum innlendum fræðitímaritum til hvatningar og eftirbreytni,“ segir ritstjórinn enn fremur.

Inntur eftir því hvað knýi hann áfram í ritstjórastarfinu segir Gunnar Helgi: „Ég tilheyri mjög stórum hópi fólks sem hefur lagst á árarnar við að halda þessu tímariti úti og nær allir í sjálfboðavinnu. Þar á ég við höfunda, ritrýna og ritstjórnarmeðlimi, stjórn og forstöðumenn Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála sem gefur tímaritið út.“

Aðstandendur tímaritsins vinna nú að því að koma því í auknum mæli inn í alþjóðlega gagnagrunna þannig að efni þess verði fleirum aðgengilegt og höfundar njóti afraksturs birtinga í því að erlendir kollegar þeirra kynnist rannsóknarniðurstöðum þeirra. „Þetta er stórt og flókið viðfangsefni og ekki fyrir óþolinmótt fólk. Við höfum fengið góðan stuðning bæði frá háskólanum og Félagsvísindasviði í þessari viðleitni og ég er bjartsýnn á árangur,“ segir Gunnar Helgi að endingu.

Útgáfu desemberheftis Stjórnmála og stjórnsýslu verður fagnað fimmtudaginn 17. desember með sérstöku útgáfuhófi í stofu 101 í Odda  kl. 16:30 og er það öllum opið.  Þar mun einn höfunda, Hulda Þórisdóttir, lektor við Stjórnmálafræðideild, halda erindi um grein sína í tímaritinu sem hún skrifaði ásamt Evu Heiðu Önnudóttur, nýdoktor við sömu deild. Greinin ber titilinn „Viðhorf til kerfisins og þörf fyrir öryggi meðal fólks á pólitíska jaðrinum“ (e. Need for security and system fairness on the political extremes).  Fyrirspurnir og umræður verða að loknu erindinu en að þeim loknum býður Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála til móttöku á annari hæð Odda. 

Nánari upplýsingar um desemberhefti tímaritsins og útgáfuboðið má finna á heimasíðu Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála

Gunnar Helgi Kristinsson
Gunnar Helgi Kristinsson