Skip to main content
2. nóvember 2015

Þúsundir sóttu Vísindadag VON í Öskju

Fullt var út úr dyrum í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, í dag þegar Verkfræði- og náttúruvísindasvið skólans hélt sinn árlega Vísindadag. Áætlað er að vel á þriðja þúsund manns hafi kynnt sér undur vísindanna og má ljóst vera út frá viðtökunum að vísindin heilla alla aldurshópa.

Á Vísindadeginum, sem nú var haldinn í annað sinn, var gestum og gangandi á öllum aldri boðið að kynna sér  ótal hliðar verkfræðinnar og náttúru- og raunvísindanna. Boðið var upp á efnafræðitilraunir hins sívinsæla Sprengjugengis og eðlisfræðitilraunir á vegum Vísindasmiðju Háskóla Íslands og þá var rafknúni kappakstursbílinn TS15, sem verkfræðinemarnir í Team Spark hafa hannað, afar vinsæll en nemarnir fóru með hann í Formula Student kappaksturs- og hönnunarkeppnina á Silverstone-brautinni í sumar.

Auk þess naut dularfulla dýrarannsóknaherbergið, sem sett var upp í anda hrekkjavöku, mikilla vinsælda en þar mátti m.a. sjá líkamsparta ýmissa dýrategunda í nýju ljósi. Þá var boðið upp á ferðalag um sólkerfið í Stjörnutjaldinu með reglulegu millibili og enn fremur fluttu margir af fremstu vísindamönnum landsins áhugaverða fyrirlestra um rannsóknir sínar og ýmis undur heimsins. Meðal umfjöllunarefna voru efnafræði alheimsins, ljós og líf, hvalir og fuglar, ofurtölvur, eldfjöll og jöklar, Einstein og Holuhraun auk þess virkni nýs jáeindaskanna Landspítalans var skýrð. Þema Vísindadagsins í ár var ljós enda stendur nú yfir Ár ljóssins hjá Sameinuðu þjóðunum.

Á Vísindadeginum heiðraði Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands þau Guðrúnu Bachmann, kynningarstjóra vísindamiðlunar við skólann, og Ara Ólafsson, dósent í tilraunaeðlisfræði, sérstaklega fyrir framlag þeirra til vísindamiðlunar. Guðrún og Ari hafa leitt afar öfluga vísindamiðlun Háskóla Íslands til barna og ungmenna á síðustu árum en meðal vel heppnaðra vísindamiðlunarverkefna skólans eru Háskóli unga fólksins, Háskólalestin sem ferðast um landið, Vísindasmiðja Háskóla Íslands í Háskólabíói, LEGO-hönnunarkeppni grunnskólanema, vísindakeppnin Ungir vísindamenn og Biophila-menntaverkefnið sem Háskóli Íslands hefur þróað í samstarfi við söngkonuna Björk Guðmundsdóttur, Reykjavíkurborg og mennta- og menningarmálaráðuneytið og hefur nú hafið útrás annars staðar á Norðurlöndum.

Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands þakkar öllum þeim sem lögðu leið sína í Öskju í dag fyrir komuna.

Sprengjugengið í Öskju
Guðrún Bachmann, Hilmar Bragi Janusson og Ari Ólafsson
Hauskúpa
Dularfulla dýrarannsóknaherbergið
Sprengjugengið í Öskju
Guðrún Bachmann, Hilmar Bragi Janusson og Ari Ólafsson
Hauskúpa
Dularfulla dýrarannsóknaherbergið