Skip to main content
14. janúar 2021

Þrjú verkefni nemenda HÍ tilefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands

Þrjú verkefni nemenda HÍ tilefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nemendur við Háskóla Íslands koma að þremur af sex verkefnum sem tilnefnd eru til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands árið 2021. Þau snerta bætta þjónustu fyrir sjúklinga á leið á Vog, nýstárlega leið til hreinsun skólps hér á landi og óróasjá, fyrsta búnað sinnar tegundar í heiminum til þess að fylgjast með jarðskjálftum.

Þetta er í 26. sinn sem verðlaunin eru afhent en þau eru veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt voru af Nýsköpunarsjóði námsmanna árið 2020. 

Alls eru sex öndvegisverkefni tilnefnd til verðlaunanna en aðeins eitt þeirra hlýtur viðurkenninguna. Þau  sameiginlegt að vera vel unnin og frumleg en eru afar ólík innbyrðis og sýna vel þá fjölbreytni sem einkennir verkefni sem sjóðurinn veitir styrki til. Þessi fjölbreytni endurspeglar ennfremur það frjóa og margbreytilega starf og nám sem háskólanemar á Íslandi og íslenskir námsmenn erlendis leggja stund á. 

Sem fyrr segir eru þrjú verkefni nemenda Háskóla Íslands tilefnd til verðlaunanna en þau eru:

Betri samskipti við sjúklinga sem bíða innlagnar og meðferðar á sjúkrahúsinu Vogi

Á undanförnum árum hefur eftirspurn eftir meðferð við áfengis- og vímuefnafíkn á sjúkrahúsinu Vogi aukist hratt og biðtími lengst sem reynist skjólstæðingum erfitt, sérstaklega þar sem samskipti milli SÁÁ og skjólstæðinga eru af skornum skammti. Markmið verkefnisins var að hanna og þróa frumgerð að hugbúnaði til þess að aðstoða skjólstæðinga meðan þeir bíða eftir að komast í meðferð á sjúkrahúsinu Vogi. Áhersla var lögð á að bæta samskipti við skjólstæðinga með rafrænum sjálfvirkum skilaboðum ásamt því að veita þeim greiðan aðgang að þeim úrræðum sem eru í boði, hvatningu og aðstoð í aðdraganda meðferðar sem höfðar til hvers og eins. Á tímum heimsfaraldursins hefur aldrei verið jafn mikil þörf á rafrænni lausn sem býður upp á betri og fjölbreyttari þjónustu við þennan skjólstæðingahóp.

Verkefnið unnu Ari Kvaran, Sunneva Sól Ívarsdóttir og Þórdís Rögn Jónsdóttir, nemar í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands, og Ísól Sigurðardóttur, nemi í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Leiðbeinendur voru Guðmundur Valur Oddsson, Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson og Tómas Philip Rúnarsson, prófessorar á Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands, og Valgerður Árný Rúnarsdóttir, yfirlæknir á sjúkrahúsinu Vogi.

Nemendurnir hafa þegar búið til vefvettvang fyrir þjónustuna á vefnum electra.is. Þess má geta að verkefnið komst einnig í úrslit Gullegssins 2020. 

Fjallað var um verkefnið á vef Háskóla Íslands í sumar

Hreinsun skólps með himnum á Íslandi

Meginmarkmið verkefnisins var að athuga hvort hægt væri að nýta himnutækni hér á landi fyrir skólphreinsun. Meðhöndlun á skólpi er eitt þeirra vandamála sem flestar þjóðir glíma við, þar á meðal Ísland sem hefur ekki tekist að uppfylla staðla Evrópusambandsins um skólhreinsun. Til að uppfylla staðlana þarf að fara í mikla innviðauppbyggingu sem útheimtir auknar fjárfestingar og rekstrarkostnað. 

Þar sem annars stigs hreinsun, líffræðileg hreinsun, er ekki hentug hér á landi vegna kalds loftslags væri hagkvæmari lausn að nota himnutækni, sem er kynnt í verkefninu. Slíkt tækni hefur verið mikið notuð erlendis og í verkefninu sem tilnefnt er til verðlaunanna voru gerðar tvær tilraunir. Báðar þeirra voru með líftanka og himnur þar sem þyngdaraflið var notað til að sía vatnið í gegnum himnurnar. Önnur tilraunin snerist um að hreinsa næringarefni og uppleyst efni undir loftháðum aðstæðum og veita þeim síðan út í viðtakann, sjóinn. Hin tilraunin var við loftfirrtar aðstæður þar sem meira var einblínt á að hreinsa uppleyst efni og skilja næringarefni eftir og endurnýta þau áður en þeim var veitt út í viðtakann. Niðurstöður beggja tilraunanna lofa góðu. 

Verkefnið unnu Ihtisham UI Haq Shami og Sif Guðjónsdóttir, nemar í umhverfisverkfræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Leiðbeinandi var Bing Wu, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands.  

Óróasjáin “Tremv” - Ný forritseining fyrir jarðskjálftakerfið SeisComP

Jarðskjálftagögn eru burðarbiti í náttúruváreftirliti um allan heim, m.a. til að fylgjast með óróa í aðdraganda eldgosa. Í þessu verkefni var hannaður nýr sjálfbær hugbúnaður, Tremv, sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum sem birtir óróagögn samtímis frá öllum jarðskjálftastöðvum mælanetsins og er bæði í opnu aðgengi og óháður úrvinnslukerfi. Auk þessa felst nýsköpunargildi verkefnisins í því að birta og skrá langtímabreytingar á útslagi skjálftagagna með því að minnka gagnamagn en á sama tíma draga fram áhugaverða eiginleika óróans. 

Með því að birta þrjú tíðnibönd sem draga fram ólíka eiginleika óróans og nota lógaritmískan útslagskvarða sem ýkir veikari óróa er auðveldara að finna og túlka áhugaverða óróapúlsa og tengja við stað, tíma og jafnvel ákveðin náttúrufyrirbæri eins og óveður og lægðagang, flóð, jöklakelfingu og eldgos. Hugbúnaðurinn hefur þegar verið tekinn í rekstur á Veðurstofu Íslands og er að finna í opnu aðgengi á github.com/tremv

Tremv hugbunadur

Skýringamynd af Tremv. Til vinstri: Flæðrit sem sýnir hvernig Tremv kerfið er samsett. Bakendinn sér um að sækja streymandi gögn (Seedlink) og reiknar tilheyrandi óróagögn (skrifar út nýjar skrár, “csv files”). TremvPlot birtir gögnin í þremur mismunandi tíðnibilum. Til hægri: Tremv birting á óróa frá eldgosinu í Eyjafjallajökli 14. ágúst 2010 frá þremur nálægum stöðvum yfir 21 klukkstunda tímabil.

Verkefnið unnu Bethany Vanderhoof, meistaranemi í jarðskjálftafræði við Háskóla Íslands, og Þórður Ágúst Karlsson, nemi í tölvunarfræði við Háskóla Íslands, undir leiðsögn Kristínar Jónsdóttur, hópstjóra náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, og Bjarna K. Leifssonar, sérfræðings í rekstri og umsjón flókinna úrvinnslukerfa á Veðurstofunni. 

Nánari upplýsingar um verkefnin og önnur verkefni sem voru tilnefnd má finna á vef Rannís.

Forseti Íslands afhendir Nýsköpunarverðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 20. janúar nk.

Ari Kvaran, Sunneva Sól Ívarsdóttir, Þórdís Rögn Jónsdóttir og Ísól Sigurðardóttir