Skip to main content
10. maí 2016

„ Þetta verkefni hefur kennt mér svo margt“

""

Meistaranemar við Viðskiptafræðideild taka þátt í fjölþjóðlegu verkefni í Vilnius

Viðskiptafræðideild, ásamt níu háskólum í Evrópu, stóð að námskeiðinu MARCIEE nú á vormisseri en það snýr að nýsköpun og markaðssamskiptum og er styrkt af Evrópusambandinu í gegnum Erasmus-menntaverkefnið. Megintilgangur námskeiðsins er að gefa nemendum tækifæri til að starfa með nemendum og kennurum frá ólíkum löndum og menningu.

Undanfarin ár hefur Auður Hermannsdóttir, aðjunkt við Viðskiptafræðideild, staðið að sambærilegum námskeiðum þar sem hún hefur farið utan ásamt hópi íslenskra meistaranema til að starfa með hópi meistaranema frá öðrum löndum. Í heildina hafa í kringum 80 meistaranemar frá ýmsum Evrópulöndum tekið þátt í verkefninu hverju sinni. Aðsókn að námskeiðinu hefur verið mikil enda spennandi tækifæri fyrir meistaranema að taka þátt í fjölþjóðlegu samstarfi sem þessu.

Í ár fengu átta íslenskir meistaranemar tækifæri til að taka þátt í MARCIEE. Í byrjun janúar hófu nemendurnir að vinna verkefni tengd námskeiðinu sem voru unnin jafnt og þétt fram í lok mars. Í byrjun apríl var svo hápunktur námskeiðsins þar sem 80 nemendur frá ýmsum löndum komu saman og unnu að krefjandi verkefni í fjölþjóðlegum hópum. Að sögn íslenska hópsins heppnaðist námskeiðið mjög vel.

Simon Cramer Larsen er einn þeirra nemenda sem fékk tækifæri til að taka þátt í MARCIEE í ár. Simon segist hafa sótt um þátttöku í MARCIEE eftir að hafa heyrt góða hluti um námskeiðið frá þeim sem tekið hafa þátt undanfarin ár. „Þetta verkefni hefur kennt mér svo margt,“ segir Simon sem segist m.a. hafa lært hversu mikilvægt það er að virða aðra, sér í lagi þegar unnið er með fólki með annan menningarlegan bakgrunn. Simon segir jafnframt að í námskeiðinu hafi hann lært að hugsa út fyrir boxið, koma skoðun sinni skýrt á framfæri á uppbyggilegan hátt, vera gagnrýninn á sjálfan sig og ekki síst áttað sig á að maður sjálfur er ekki yfir gagnrýni hafinn.

Simon segist hiklaust mæla með námskeiðinu. Hann segir þetta skemmtilega leið til að kynnast fólki víða í Evrópu og og þátttakendur læri ýmislegt um sjálfan sig með því að taka þátt.

Í MARCIEE er unnið að krefjandi verkefni á stuttum tíma með fólki frá ólíkum menningarheimum, með ólíkan bakgrunn og ólíkar áherslur. Í slíkum aðstæðum er óhjákvæmilegt að þurfa að takast á við aðstæður gjörólíkar því sem flestir eiga að venjast frá degi til dags. Það er því algengt og eðlilegt að þátttakendur kynnist nýrri hlið á sjálfum sér og átti sig jafnvel á styrkleikum sem þeir voru ekki meðvitaðir um.

MARCIEE mun standa meistaranemum til boða á næsta ári og er þá fyrirhugað að fara með hópinn til Trento á Ítalíu.

Þátttakendur í MARCIEE-verkefninu á góðri stundu í Vilnius.
""
""
Þátttakendur í MARCIEE-verkefninu á góðri stundu í Vilnius.