Skip to main content
26. maí 2016

Þekktustu loftslagssérfræðingar samtímans í HÍ

Tveir þekktustu loftslagsfræðingar heims, þeir  Michael E. Mann og Stefan Rahmstorf, flytja röð fyrirlestra á vegum verkefnisins Earth101 í stofu 105 á Háskólatorgi föstudaginn 27. maí kl. 13-17. Yfirskrift fyrirlestranna er „Fortíð og framtíð í ljósi veðurfarsbreytinga. Hvað ógnar loftslagskerfinu?“

Mann og Rahmstorf flytja hvor um sig þrjá stutta fyrirlestra sem fjalla m.a. um hækkun sjávaryfirborðs, breytingar á rennsli Golfstraumsins, vaxandi veðurfarsöfgar, spár sem tengjast breytingum á veðurfari þessa öldina, áhrif afneitunariðnaðarins á loftslagsumræðuna, stjórnmálaskoðanir og loftslagsbreytingar og margt fleira. 

Bæði Michael E. Mann og Stefan Rahmstorf eru heimsþekktir vísindamenn á sviði loftslagsfræða. Mann er prófessor í loftslagsvísindum við Penn State háskólann og stjórnandi Penn State University Earth System Science Center (ESSC) í Bandaríkjunum. Hann hefur m.a. unnið fyrir milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál og var í hópi þeirra vísindamanna sem áttu hlut í Friðarverðlaunum Nóbels sem Loftslagsnefndin hlaut árið 2007. Hann hefur fengið ýmsar aðrar viðurkenningar fyrir störf sín og er höfundur hátt í 200 ritrýndra vísindagreina. Eftir hann liggja einnig bækurnar Dire Predictions: Understanding Climate Change og The Hockey Stick and the Climate Wars: Dispatches from the Front Lines.

Stefan Rahmstorf er prófessor í haffræði við Potsdam-háskóla og Potsdam Institute for Climate Impact Research í Þýskalandi og sat á árunum 2004-2013 í ráðgjafaráði þýskra stjórnvalda vegna loftslagsbreytinga (WBGU). Þá var hann einn af aðalhöfundum fjórðu skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál. Hann hefur birt yfir 100 vísindagreinar, þar á meðal í Nature, Science og PNAS, og er meðhöfundur fjögurra bóka, þar á meðal Our Threatened Oceans og The Climate Crisis.

Guðni Elísson, prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og stofnandi Earth101, setur þingið og stýrir umræðum.

Michael E. Mann og Stefan Rahmstorf
Michael E. Mann og Stefan Rahmstorf