Skip to main content
10. apríl 2024

Sjálfbærnigreind - nýtt kjörsvið á meistarastigi í umhverfis- og auðlindafræði

Sjálfbærnigreind - nýtt kjörsvið á meistarastigi í umhverfis- og auðlindafræði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Námsbraut í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands fékk nýlega veglegan styrk ásamt York-háskóla Í Toronto í Kanada frá hinu kanadíska Social Sciences and Humanities Research Council til að stofna þjálfunarmiðstöð fyrir háskólanema í greiningum á sjálfbærni. Sérstök áhersla er lögð á greiningar á fótspori mannsins, svokölluðu vistspori (e. ecological footprint) sem hægt er að nota til að meta álag mannsins á umhverfi- og auðlindir. 
 
Sérstakt kjörsvið, sjálfbærnigreind, hefur því verið stofnað við námsbraut í umhverfis- og auðlindafræði við HÍ. Á kjörsviðinu er lögð áhersla á greiningar á hinum margvíslegu víddum sjálfbærni og notkun stórra gagnasafna. Nemendur fá meðal annars þjálfun í vistsporsgreiningum, greiningum á kolefnisspori og lífsferilsgreiningum. Kennslan fer bæði fram við Háskóla Íslands og í fjarnámi við York-háskóla.
 
Þrír styrkir verða í boði fyrir þá nema sem ljúka meistararitgerð af kjörsviðinu.
 
„Til að átta okkur á hvernig við getum dregið úr álagi á umhverfi og auðlindir jarðar, aukið velsæld og spornað við loftslagsbreytingum þurfum við að skilja til hlítar umhverfisálag tengt vörum og þjónustu upp í umhverfisálag þjóða. Með þessu nýja kjörsviði vonumst við til að þjálfa sérfræðinga framtíðarinnar í greiningu á öllum víddum sjálfbærni með sérstakri áherslu á umhverfisvíddina. Kjörsviðið fellur vel að hinum ýmsu rannsóknarverkefnum starfsfólks námsbrautarinnar sem fjalla til dæmis um hvernig best sé að haga orkuskiptum eða draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með sjálfbærni að leiðarljósi,“ segir  Brynhildur Davíðsdóttir, prófesssor og forstöðumaður meistaranáms í umhverfis- og Auðlindafræði við HÍ.

Um námsbrautina

Námsbraut í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands býður upp á alþjóðlegt og þverfræðilegt nám á meistarastigi sem skipulagt er af öllum fræðasviðum Háskólans. Viðfangsefni námsins er að skilja eðli, ástæður og afleiðingar umhverfisbreytinga og sóknar í auðlindir, að greina áskoranir og setja fram lausnir í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Boðið eru upp á sex kjörsvið við námsbrautina en þau eru:

  • Umhverfisvísindi og stjórnun umhverfismála
  • Stjórnun náttúruauðlinda: sjálfbær nýting landauðlinda
  • Hafið og sjálfbærni: sjálfbær nýting auðlinda hafsins
  • Orka og sjálfbærni: sjálfbær nýting orku og orkuauðlinda
  • Sjálfbærnigreind: sjálfbærnigreiningar og stjórnun, vistsporsgreiningar
  • Umhverfis- og auðlindafræði: opið kjörsvið

Umsóknarfrestur um framhaldsnám við HÍ er til 15. apríl.

Maður í umferð