Skip to main content
9. mars 2017

Sigríður Klara nýr forstöðumaður Lífvísindaseturs

""

Dr. Sigríður Klara Böðvarsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Lífvísindaseturs Háskóla Íslands.  

Sigríður Klara lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1995, MS-prófi í plöntuerfðafræði árið 2000 og doktorsprófi í líf- og læknavísindum árið 2008, hvort tveggja frá sama skóla. Sigríður Klara hefur um árabil lagt stund á grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini, m.a. á Rannsóknastofu Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði og við Háskóla Íslands. Frá árinu 2013 hefur Sigríður Klara gegnt stöðu rekstrarstjóra Lífvísindaseturs samhliða rannsóknum sínum.

Lífvísindasetur er samstarfsvettvangur vísindamanna í lífvísindum við Háskóla Íslands og samstarfsstofnana. Meginmarkmið setursins er að byggja upp kjarnaeiningar í tækjakosti og aðferðafræði sem nýtist sem flestum og efla þar með rannsóknir og slagkraft íslensks vísindasamfélags. 

Hlutverk forstöðumanns Lífvísindaseturs er einkum að hafa umsjón með daglegum rekstri auk þess að efla rannsókna- og þróunarstarf innan setursins. Í því felst m.a. fjáröflun og aðstoð við gerð styrkumsókna, umsjón fjármála og útboða t.d. vegna tækjakaupa og reksturs, kynningarstarf og umsjón og ábyrgð á fræðsluverkefnum á vegum stofnunarinnar.

Spennandi áskoranir tengdar uppbyggingu

Uppbygging Lífvísindaseturs hefur gengið vel að undanförnu og tækjabúnaður aukist talsvert, meðal annars með styrkfé frá Innviðasjóði Vísinda- og tækniráðs. Eitt af mörgum verkefnum Sigríðar Klöru verður að leiða stefnumótun um hvernig viðhaldi tækjanna skuli háttað. Verið er að skoða hvort hægt sé að nýta aðstöðugjöld sem fylgja rannsóknastyrkjum til að fjármagna viðhald tækja eða hvort eigi að rukka tímagjald fyrir notkun þeirra. „Við viljum ekki að skortur á rannsóknafé sé hamlandi þáttur fyrir rannsakendur sem vilja nota tækjabúnaðinn. Við erum opin fyrir samvinnu við fyrirtæki með rannsóknaverkefni en leggjum á sama tíma áherslu á að þau leggi til aðstöðugjöld til starfseminnar,“ segir Sigríður Klara.

Hennar bíða fleiri spennandi verkefni tengd hraðri uppbyggingu og eitt þeirra er að skapa gott vinnuumhverfi og samstilltan hóp. „Það er mikilvægt að þeir sem tilheyra Lífvísindasetri upplifi sig sem hluta af hópnum og því reynum við að leggja okkur fram við að taka stærri ákvarðanir á lýðræðislegum grundvelli, m.a. með viðhorfskönnunum og reglulegum fundum,“ segir Sigríður Klara. 

Fjölþjóðlegt og skemmtilegt umhverfi

Við Lífvísindasetur starfa um 50 rannsóknahópar og heildarfjöldi starfsmanna er vel á annað hundrað. Þar á meðal er fjöldi nýdoktora og nemenda, bæði innlendra og erlendra meistara- og doktorsnema. Sigríður Klara telur að eitt mikilvægari hlutverkum Lífvísindaseturs sé að halda vel utan um unga fólkið sem er þar að stíga sín fyrstu skref í vísindum. „Þessi hópur heldur uppi rannsóknavirkni háskólanna í lífvísindum með birtingum á sínum rannsóknaniðurstöðum. Það er því okkar áskorun að gera rannsóknarumhverfi þeirra þess eðlis að þau geti verið í samkeppni við það sem best gerist í heiminum.“

Lífvísindasetur skipuleggur reglulega fyrirlestra, málstofur og námskeið sem höfða til vísindafólks. Þá er einnig reynt að halda uppi gleðinni með óformlegri viðburðum. Nýverið sóttu til dæmis 25 ungir vísindamenn af Lífvísindasetri námskeið um notkun eins af nýju tækjunum. Það er rauntímamyndavél fyrir frumur í ræktun en Sigríður Klara segir það „algjört töfratæki“ fyrir þá sem eru að skoða áhrif lyfja eða óvirkjun gena á frumur. Við Lífvísindasetur skapast ekki aðeins ávinningur með hagræðingu í rekstri og notkun tækja heldur einnig afar frjótt og spennandi umhverfi fyrir vísindafólk.

Sigríður Klara Böðvarsdóttir