Skip to main content
25. nóvember 2015

Síðasta bók Páls Skúlasonar komin út

Merking og tilgangur er titill bókar eftir Pál Skúlason, fyrrverandi heimspekiprófessor og rektor Háskóla Íslands, sem nýverið kom út. Páll lauk við bókina skömmu fyrir andlát sitt í vor.

Í þessari síðustu bók Páls, sem kemur út á vegum Háskólaútgáfunnar, tekst hann á við hinstu rök og mótar heilsteypta kenningu um veruleikann í heild sinni, stöðu okkar í heiminum og samspil merkingar og tilgangs. Hafa hlutirnir merkingu í sjálfu sér eða er merkingin tilbúningur sem við sjálf erum ábyrg fyrir? og Hefur lífið í sjálfu sér einhvern tilgang? er meðal spurninga sem tekist er á við í bókinni. Í sérstökum bókarauka er að finna samræður Páls við Björn Þorsteinsson heimspeking undir yfirskriftinni „Í hvaða skilningi erum við til?“

Eins og kunngt er féll Páll Skúlason frá 22. apríl síðastliðinn eftir erfið veikindi. Eftir hann liggur fjöldi bóka, rita og greina um m.a. heimspeki, náttúruvernd og málefni háskóla. Til marks um afköst Páls þá sendi hann frá sér sex bækur á síðustu tveimur æviárunum, Ríkið og rökvísi stjórnmála (2013); Náttúrupælingar (2014); Hugsunin stjórnar heiminum (2014); Háskólapælingar (2014); Veganesti (2015) og A Critique of Universities (2015). Nú í haust hafa svo tvær bækur, sem Páll lauk við skömmu fyrir andlátið, verið gefnar út, Pælingar III og Merking og tilgangur.

Merking og tilgangur er síðasta bók Páls Skúlasonar, fyrrverandi prófessors og háskólarektors.
Merking og tilgangur er síðasta bók Páls Skúlasonar, fyrrverandi prófessors og háskólarektors.