Skip to main content
24. maí 2017

Samvinnunám í lestri reynist vel í leikskólum

""

„Með því að nýta fjölbreyttar leiðir til að skapa lestrarhvetjandi umhverfi í leikskólum hérlendis má vonandi gefa fleiri börnum traustan grunn að lestrarfærni til að byggja á út skólagönguna,“ segir Anna-Lind Pétursdóttir, dósent við Menntavísindasvið, sem hefur rannsakað árangur af notkun svokallaðra PALS-aðferða við lestrarkennslu. Niðurstöður rannsóknanna sýna að leikskólabörn ná marktækt betri lestarfærni með aðferðunum en annars konar kennslu. 

PALS stendur fyrir Peer-Assisted Learning Strategies og felur í sér aðferðir til að styðja við samvinnunám nemenda, einkum í lestri og stærðfræði.  Kindergarten-PALS eða K-PALS er sniðið að þörfum byrjenda í lestrarnámi. „Kristen McMaster prófessor var leiðbeinandi minn í doktorsnámi við Minnesota-háskóla sem meðal annars fól í sér rannsókn á áhrifum K-PALS á börn með lestrarerfiðleika. Þannig kynntist ég aðferðunum og ákvað að kynna þær á Íslandi. Markmiðið með rannsóknum mínum er að meta með hvaða hætti PALS-aðferðir eru notaðar hérlendis og hvaða áhrif þær hafa á námsárangur íslenskra nemenda,“ segir Anna-Lind um ástæður þessa að hún hóf að rannsaka árangurinn af notkun aðferðanna. Hún bendir á að aðferðirnar hafi reynst afar vel erlendis en mikilvægt hafi verið kanna reynsluna af notkun þeirra og áhrif á námsárangur nemenda hérlendis.

Auk Önnu-Lindar kemur Hulda Karen Daníelsdóttir, verkefnisstjóri SÍSL-verkefnisins svokallaða (Sérfræðiteymi í samfélagi sem lærir), að rannsókninni en hún hefur stýrt innleiðingu PALS-aðferðanna á Íslandi. Framhaldsnemar á Menntavísindasviði hafa einnig unnið að einstökum hlutum rannsóknarinnar ásamt starfandi kennurum og öðru starfsfólki skóla. Fyrirhugað er samstarf við Menntamálastofnun og erlenda aðila um frekari rannsóknir.

Starfsfólk merkir greinilegar framfarir hjá börnum

Í fyrstu hlutum rannsóknarinnar hefur reynsla leikskólastarfsfólks af notkun K-PALS aðferðanna verið metin en einnig áhrif þeirra á hljóðkerfisvitund og lestrarfærni 5 til 6 ára leikskólabarna í samanburði við annars konar kennslu. 

„Viðtalsrannsókn meðal leikskólastarfsfólks sýndi að almennt var reynslan af K-PALS jákvæð þótt sumir hefðu verið neikvæðir í byrjun og innleiðing aðferðanna hefði stundum reynt á. Viðmælendum þótti K-PALS hafa jákvæð áhrif á undirstöðu lestrarfærni, samvinnu og samskipti barnanna og lýstu greinilegum framförum hjá börnunum og ánægju þeirra með K-PALS. Fram komu hugmyndir um nýjar útfærslur á aðferðum en á heildina litið töldu viðmælendur K-PALS henta vel sem viðbót við læsisumhverfi í íslenskum leikskólum,“ segir Anna-Lind.

Niðurstöður sýna einnig að aðferðin hefur góð áhrif á lestrarfærni leikskólabarna. „Samanburðarrannsókn sýndi að þau leikskólabörn sem höfðu tekið þátt í K-PALS æfingum mældust með marktækt meiri hljóðkerfisvitund, stafaþekkingu, hljóðaþekkingu, hljóðafimi og umskráningarfærni en börn sem höfðu fengið annars konar kennslu. Að hausti síðasta ársins í leikskóla hafði ekki reynst munur á hópunum á þessum færniþáttum en að vori stóð K-PALS hópurinn betur í þessum þáttum og 90% hans farin að spreyta sig á umskráningu orða samanborið við 52% samanburðarhópsins,“ segir Anna-Lind enn fremur. 

Eins og fram kemur í Aðalnámskrá leikskóla er leikskólinn fyrsta skólastigið og upphaf formlegrar menntunar þar sem veita á börnum tækifæri til uppbyggilegra samskipta í barnahópnum og að öðlast skilning á merkingu ritaðs máls. „K-PALS virðist geta komið að gagni við hvort tveggja,“ segir Anna-Lind um niðurstöður rannsóknanna.

Anna-Lind hyggur á frekari rannsóknir á áhrifum PALS-aðferðanna, þar á meðal á lestrarnám grunnskólabarna og reynslu grunnskólakennara af notkun þeirra, en ljóst má vera að miklu skiptir fyrir skólagöngu barna og ekki síður þátttöku þeirra í samfélaginu að þau nái traustum tökum á lestri. „Með aukinni notkun gagnreyndra aðferða eins og PALS má vonandi bæta námsárangur íslenskra nemenda enn frekar og auka tækifæri þeirra í námi og starfi,“ segir Anna-Lind að lokum. 

Anna-Lind Pétursdóttir